Ferill 98. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


106. löggjafarþing 1983–84.
Nr. 10/106.

Þskj. 745  —  98. mál.


Þingsályktun

um aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni tafarlausa framkvæmd eftirtalinna verkefna í þeim tilgangi að draga úr skattsvikum og gera alla skattheimtu ríkissjóðs skilvirkari og hraðvirkari en nú er:
    1. Að endurskoða lög um skipan dómsvalds í héraði, lögreglustjórn, tollstjórn o.fl., nr. 74/1972, með síðari breytingum, svo og lög um meðferð opinberra mála, nr. 73/1973, með síðari breytingum, í þeim tilgangi að stofna sérdeild við sakadóm Reykjavíkur sem fengi m.a. eftirtalin afbrot til meðferðar: skattsvik, bókhaldsbrot, gjaldeyrisbrot, faktúrufalsanir, verðlagsbrot og fleiri skyld brot. Einnig skal fjölgað sérhæfðum starfsmönnum hjá embætti saksóknara og efla starfsemi Rannsóknarlögreglu ríkisins í þessum málaflokkum.
    2. Að beita í auknum mæli sjálfvirkum sektarákvæðum og hækkuðum sektum.
    3. Að undirbúa nauðsynlegar breytingar á bókhaldslögum, nr. 51/1968, og reglugerð þar að lútandi, svo og lögum nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, með síðari breytingum, auk framtalsreglna, sem tryggi ítarlegri og samræmdari sundurliðun á reikningsliðum fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri með skýrari og fjölþættari upplýsingum en nú er fyrir skattyfirvöld. Sérstaklega verði endurskoðaðir frádráttarliðir af tekjum, svo sem risnukostnaður, bifreiðafríðindi, enn fremur launamat o.fl.
    4. Að láta tafarlaust fara fram gagngera endurskoðun á fyrirkomulagi söluskattskerfisins með það að markmiði að koma á skilvísara eftirliti með innheimtu söluskatts. Heimild sú sem er í 17. gr. laga um söluskatt til að fylgjast með fjármagnsinnstreymi í fyrirtækjum verði notuð þar sem því verður við komið. Athugað verði einnig hvort hægt sé að fá betri skil með því að fækka undanþágum og lækka þar með söluskatt.
    5. Að beita sér fyrir aukinni hagræðingu og tölvuvæðingu við upplýsingaöflun og úrvinnslu skattframtala og fylgiskjala.
    6. Að fjölgað verði sérhæfðu starfsliði við embætti skattrannsóknastjóra svo og á skattstofum. Veitt verði á fjárlögum nauðsynlegt fjármagn til að stórauka allt skatteftirlit og rannsókn skattsvika, sbr. 1.–5. tölul. Að því verði stefnt að hægt sé að taka til ítarlegrar rannsóknar a.m.k. 10% skattframtala fyrirtækja og einstaklinga í atvinnurekstri.

Samþykkt á Alþingi 3. maí 1984.