Kosning í fastanefndir í Nd.
Miðvikudaginn 12. október 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Það er nú komið fram yfir miðjar kosningar í nefndir og við höfum orðið áþreifanlega vör við það að ríkisstjórnin hefur ekki meiri hluta og þar af leiðandi er það á fölskum forsendum sem ríkisstjórnin hefur verið mynduð.
    Nú hefur hinn umræddi huldumaður ekki komið fram, ekki fundist. ( Gripið fram í: Jú hann er í kassanum.) --- Ja, ég vil þá taka undir það að hann geti vel verið í kassanum, en í því tilfelli eru fleiri þingmenn hér inni þó ósýnilegir séu heldur en lög segja til um, þannig að þessar kosningar eru þá allar ólöglegar.
    En hæstv. forseti gerði fyrirspurn áðan úr ræðustól. Hann sagði: Er enginn sem saknar félaga síns, eftir að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði athugasemd við það að annar þingmaður var fjarverandi við síðustu atkvæðagreiðslu. Og ég vil þá endurtaka spurningu forseta: Er einhver hér sem saknar félaga síns? Ég vil vekja athygli á þeirri staðreynd sem þegar er orðin ljós að ríkisstjórnin sem nú situr er mynduð á fölskum forsendum og það harma ég.