Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því að formaður Alþb. skuli kominn í deildina. Ég hefði öðrum kosti óskað eftir því að hann yrði hér viðstaddur meðan ,,sáttmálsörk`` ríkisstjórnarinnar er rædd af stjórnarandstöðunni. Nú hefði auðvitað verið skemmtilegt af því að þessi maður á í hlut, þessi hæstv. ráðherra, að geta fengið hingað í salinn einnig hæstv. utanrrh. vegna þeirra undarlegu ummæla sem þessi hæstv. ráðherra hafði um viðskilnað hæstv. utanrrh. í Garðabæ og ég mun víkja að síðar ( Fjmrh.: Þorsteins Pálssonar.) en ég vona á hinn bóginn að hæstv. forseti geti séð um það að varaformaður Alþfl. láti svo lítið að vera hér í deildinni meðan þessi umræða fer fram. Mér finnst það nú lágmarkskurteisi af þeim mönnum sem eiga að heita oddvitar ríkisstjórnarinnar að þeir séu viðstaddir þegar þessi bráðabirgðalög eru til umræðu sem er sú þinglega hlið af stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.
    Er hægt að fá upplýsingar um það, herra forseti, hvort hæstv. félmrh. hafi fjarvistarleyfi? Ef svo er, þá náttúrlega væri sjálfsagt að taka tillit til þess ef hæstv. ráðherra er með fjarvistarleyfi. Hann vantar kannski bara í þingsalinn án fjarvistarleyfis. ( Forseti: Ég læt leita að hæstv. félmrh.) Það er ljómandi. Mér finnst þetta satt að segja ekki lofa góðu um þinghaldið og þá virðingu sem hæstv. ríkisstjórn sýnir óbreyttum alþingismönnum. En ég veit að hæstv. forseti er röggsamur og ég vil vænta þess að hann veiti hæstv. ráðherrum aðhald, að þeir gefi sér tíma til að vera hér viðstaddir þegar hin mikilvægustu mál eru til umræðu --- ( Forseti: Hæstv. félmrh. er með fjarvistarleyfi.) Hann er með fjarvistarleyfi, já. Það er nefnilega það. --- og þinghaldið er skipulagt með þeim hætti að hæstv. viðskrh. er á sama tíma að mæla fyrir stjfrv. í Nd. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig hæstv. forseti hugsar sér að þessi umræða geti farið fram. Það eru viss atriði í þessu máli þar sem nauðsynlegt er að draga þá til vitnis, alla þessa kóna, þetta þrístirni sem myndar þessa hæstv. ríkisstjórn. Það er þó bót í máli að sjá að formaður þingflokks Alþfl. gefur sér tíma til þess að vera í salnum. ( KP: Það eru nú fleiri.) Það er þá kannski hægt aðeins að tala utan í hann. Og ég sé að þarna er hv. þm. Vestfirðinga sem rak fyrstu rýtingsstunguna í bakið á formanni sínum þegar hann greiddi atkvæði gegn matarskattinum hér í þingdeildinni á sl. vetri.
    Áður en ég vík að einstökum atriðum bráðabirgðalaganna, herra forseti, er óhjákvæmilegt að velta upp þeirri spurningu hvort lögformlega sé rétt að þeim staðið, þ.e. hvort fylgt sé þeim reglum og hefðum sem mótast hafa við setningu bráðabirgðalaga á grundvelli 28. gr. stjórnarskrárinnar. Það úrlausnarefni kemur þá fyrst til athugunar og er nauðsynlegt að fá skýr svör frá hæstv. forsrh. um það hvort hann hafi fullvissað hæstvirtan forseta Íslands um að hann hefði stuðning meiri hluta alþingismanna í báðum þingdeildum fyrir samþykkt bráðabirgðalaganna. Í þessu sambandi minni ég á ummæli Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra þegar

hann sagði við umræður um frumvarp til staðfestingar á bráðabirgðalögum um Seðlabanka Íslands í nóvember 1961, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Auðvitað hefur það sína þýðingu að mál séu rædd á þingi. En þingmenn eru --- og það vitum við allir sem á þingi höfum verið --- þeir eru ekki síður bundnir við tillögur ríkisstjórnarinnar, hvað þá samninga milli tveggja stjórnarflokka, um ákveðna lausn mála heldur en við bráðabirgðalög, sem eru ekkert annað samkvæmt þeirri venju, sem hér hefur komist á, heldur en samningur milli þeirra flokka, sem hverju sinni standa að ríkisstjórn og ríkisstjórnir eru búnar að tryggja sér þinglegan meiri hluta fyrir, áður en bráðabirgðalög eru sett.``
    Ég þykist muna það með vissu að dr. Gunnar Thoroddsen forsrh. hafi lagt ríka áherslu á það haustið 1982 eftir að hv. þm. Albert Guðmundsson og Eggert Haukdal höfðu hætt stuðningi við ríkisstjórn hans að hann teldi að bráðabirgðalögin hefðu meiri hluta í báðum þingdeildum.
    Ólafur Jóhannesson tekur í sama streng í bók sinni, Stjórnskipun Íslands, en þar segir um þetta efni: ,, . . . enda eru bráðabirgðalögin stundum sett í samráði við þingmenn eða þann þingmeirihluta sem stjórnin styðst við eða jafnvel stundum samkvæmt ályktun eða áskorun Alþingis eða meiri hluta þingmanna. Og þegar ríkisstjórn hefur þótt mikils við þurfa mun hún oftast fyrir fram hafa tryggt sér nægan þingstuðning við bráðabirgðalögin.``
    Ég held því ekki fram, herra forseti, að það brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar þótt bráðabirgðalög séu sett án þess að hirt sé um að afla þeim meirihlutafylgis í báðum deildum Alþingis. En ég hlýt þó að vekja athygli á því afdráttarlausa orðalagi sem fram kemur í ummælum Bjarna Benediktssonar forsrh. þegar hann talar um þá venju sem hér hafi komist á um að ríkisstjórnir séu búnar að tryggja sér þinglegan meiri hluta áður en bráðabirgðalög séu sett.
    Ég býst við því, herra forseti, að þingmenn séu mér sammála um að ríkisstjórnum beri að fylgja þessari grundvallarreglu. Að öðrum kosti hlýtur fyrr eða síðar að koma til harðra árekstra milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, milli Alþingis og ríkisstjórnar eins og á Estrup-tímabilinu í Danmörku. Ég veit ekki hvort hæstv. forsrh. vill sækja sér fyrirmynd þangað, en mér þykir rétt að rifja upp að ríkisstjórn Estrups var einlægt í minni hluta í Fólksþinginu en bjargaði sér með útgáfu bráðabirgðalaganna ár eftir ár sem hún lagði fram í efri deild þar sem hún hafði meiri hluta. Með sama hætti og löggjafarþingið danska breytti sínum grundvallarreglum í öryggisskyni til að koma í veg fyrir misbeitingu útgáfuréttarins á bráðabirgðalögum getur til hins sama komið hér á landi ef ríkisstjórn sem ekki styðst við meiri hluta í báðum þingdeildum hirðir ekki um að tryggja bráðabirgðalögum nægan þingstuðning þegar um meiri háttar mál er að ræða og mikils þykir við þurfa.
    Með hliðsjón af þessu og vegna þrálátrar umræðu

um huldumann í Nd. er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh.: Fullvissaði hæstv. forsrh. forseta lýðveldisins um að bráðabirgðalögin hefðu nægan stuðning í báðum deildum Alþingis? Þessari spurningu er nauðsynlegt að fá svarað því að án atbeina forseta eða handhafa forsetavalds verða bráðabirgðalög eigi út gefin. Þess vegna ítreka ég spurningu mína til hæstv. forseta: Fullvissaði hann forseta lýðveldisins um að bráðabirgðalögin hefðu nægan stuðning í báðum deildum Alþingis?
    Í þessu samhengi er enn fremur nauðsynlegt, herra forseti, að vekja athygli hins háa Alþingis á ummælum hæstv. forsrh. sem eftir honum voru höfð í Dagblaðinu Vísi hinn 12. október sl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Stjórnin segir af sér ef bráðabirgðalögin verða felld á jöfnu í neðri deild. Ég mun þá rjúfa þing og efna til kosninga.``
    Þessi yfirlýsing vekur fleiri spurningar en hún svarar. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að fá svar við því hvort svo hafi verið frá stjórnarmynduninni gengið að þingrofsvaldið sé í höndum forsrh. eins eða hvort samið hafi verið um að samþykki allra stjórnarflokka þurfi til að koma áður en þing sé rofið eins og hér hefur skapast venja um að gert sé. Í því tilviki er auðvitað fróðlegt að fá enn fremur upplýsingar um það hver staða hv. þm. Stefáns Valgeirssonar sé. Er þingrofsrétturinn háður samþykki hans eða dugir hæstv. forsrh. að tala við hæstv. ráðherra Ólaf Ragnar Grímsson og Jón Baldvin Hannibalsson?
    Hæstv. forsrh. hefur sem sagt lýst því yfir að hann muni rjúfa þing og efna til kosninga ef bráðabirgðalögin verða felld í Nd. Hann hefur ekki áhyggjur af okkur þingmönnum Ed., þykist hafa hér nægan stuðning. Þeir geti ekki hlaupist undan merkjum núna, hvorki hv. þm. Skúli Alexandersson né Karvel Pálmason, sama hvað á gengur, hvort það er þorskkvótinn eða matarskatturinn. Þessir tveir hv. þm. muni ekki bregðast nú eftir að búið er að setja á þá hnapphelduna, vinstri hnapphelduna.
    En hæstv. forsrh. hefur sett hv. þm. Nd. í vanda. Nú getur alls ekki verið að hæstv. forsrh. hafi átt við það með loforði sínu um að rjúfa þing ef frv. félli að ekki mætti breyta stafkrók í því. Sumar greinarnar eru lítils háttar og skipta svo sem engu eins og ég kem nánar að síðar. Aðrar eru þess eðlis að hann getur ekki ætlast til þess að stjórnarandstaðan fallist á þær af siðferðilegum ástæðum þótt ekki væri annað eins og 4. gr. óbreytt þar sem kveðið er á um að stjórn Atvinnutryggingarsjóðs skuli skipuð pólitískum mattadorum meiri hlutans sem ætlað er að úthluta pólitískum mattadorpeningum. Þrátt fyrir galla frv. getur sem sagt verið að sum efnisatriði séu þess eðlis að stjórnarandstaðan geti á þau fallist út af fyrir sig og ef ekki fylgir böggull skammrifi. Það hljóta þó að koma vomur á menn ef það liggur fyrir að með því séu þeir að framlengja líf ríkisstjórnarinnar. Eins og hennar fyrsta ganga hefur verið og ef annað fer eftir er ábyrgðarhluti að gera nokkuð í þá veru. Ég held því, ef hæstv. forsrh. er annt um að sitja út

kjörtímabilið eins og hann segist vilja gera, að þá eigi hann að fara varlega í að lofa þingrofi og kosningum. Hann gæti verið tekinn á orðinu af stjórnarandstöðunni.
    Annars svona sem millispil, hæstv. forsrh.: Eitthvað er nú hv. þm. Stefán Valgeirsson farinn að ókyrrast. Ég heyrði ekki betur en hann hefði lýst því yfir fyrir norðan núna á dögunum að hann teldi alveg nóg að þessi ríkisstjórn lifði einn vetur. Hún væri ekki á sumar setjandi. Rétt væri að kjósa (Gripið fram í.) nú á vordögum. Ekki veit ég hvort þetta var rétt eftir haft í fjölmiðlunum og því miður, herra forseti, ekki hægt að biðja um að kallað sé á þennan hv. þm. hingað í deildina þó mér finnist kannski koma til álita af hagkvæmniástæðum að hann fengi ráðherraembætti án ráðuneytis svo að þingmenn gætu talað við hann í báðum deildum vegna þess mikilvægis sem hann gegnir nú um stundir í stjórnskipan ríkisins.
    Þann tíma sem ég hef fylgst með þjóðmálum hefur enginn lagt jafnríka
áherslu á það að nauðsyn þurfi að bera til útgáfu bráðabirgðalaga til þess að hún sé heimil eins og Ólafur Jóhannesson fyrrum forsrh. Vitna ég í því efni til ummæla hans við umræður um Seðlabanka Íslands á þinginu 1981--1982 og til Stjórnskipunar Íslands, en þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Annað meginskilyrði fyrir útgáfu bráðabirgðalaga er, að til hennar beri brýna nauðsyn. Það er sú efnisástæða, sem vera þarf fyrir hendi til þess að grípa megi til bráðabirgðalaga. Eftir orðanna hljóðan er ekki nægilegt, að löggjöf sé æskileg, skynsamleg eða jafnvel nauðsynleg, heldur er það skilyrði að þörfin á löggjöf sé svo brýn, að ekki megi bíða næsta þings. Einhverjir verulegir hagsmunir verða að vera í húfi. Sé hægt að ráða fram úr aðsteðjandi vanda án löggjafar, t.d. með stjórnarathöfn eða almennum fyrirmælum framkvæmdarvaldshafa, ber vitaskuld að velja þann kost í stað þess að grípa til bráðabirgðalaga. Annars er skilyrði þetta um brýna nauðsyn óneitanlega matskennt og teygjanlegt. Og er sannast sagna, að hér hefur ekki verið farið strangt í sakir í þessu efni.``
    Svo mörg voru þau orð, herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessa tilvitnun lengri. Hún sker úr um það að viðhorf formanns Framsfl. nú til útgáfu bráðabirgðalaganna er annað en meðan Ólafur Jóhannesson gegndi stöðu formanns Framsfl. og öndvert hagsmunum og virðingu Alþingis. Þannig eru ótal atriði í þeim bráðabirgðalögum, sem við erum nú að fjalla um, losaraleg og fjarri því að hægt sé að tala um brýna nauðsyn á útgáfu bráðabirgðalaga þeirra vegna.
    Enn tek ég 4. gr. bráðabirgðalaganna sem dæmi. Stjórn Atvinnutryggingarsjóðs hafði ekki verið skipuð 10. október sl. þegar Alþingi kom saman. Það var því nægjanlegt svigrúm til að leggja frv. fyrir Alþingi um sjóðsstofnunina og raunar efast ég ekki um að hæstv. forsrh. hefði valið þann kostinn ef stjórn hans hefði stuðst við meiri hluta í báðum þingdeildum. En eins og á stendur vissi hann að stjórnarandstaðan mundi

aldrei fallast á það alræði ríkisstjórnarinnar sem lýsir sér í skipan stjórnar Atvinnutryggingarsjóðs. Pólitísku ,,matadorarnir`` hefðu fallið í Nd. og stjórnarandstaðan haft sitt að segja gagnvart því sem nú er.
    Ég held því ekki fram, herra forseti, að ekki finnist fordæmi fyrir því að bráðabirgðalög hafi verið gefin út án þess að brýna nauðsyn hafi borið til, eins og raunar kemur fram í ummælum Ólafs Jóhannessonar. Hitt er verra að dæmið um Atvinnutryggingarsjóðinn er dæmi um að ríkisstjórnin er staðráðin í að sniðganga vilja Alþingis og kærir sig raunar kollótta um hvort skipan sjóðsstjórnarinnar verði breytt í Nd. þegar líða tekur á veturinn þar sem lánveitingum úr sjóðnum verði þá hvort sem er lokið. Hinir pólitísku mattadorar hafi þá gegnt sínu hlutverki. Mattadorpeningarnir verði upp urnir.
    Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sögulegt plagg, sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar og hv. þm. Stefáns Valgeirssonar og fylginautar hans, huldumannsins sem ekki er huldumaður nema hann sé huldumaður eins og hv. þm. hefur tekið fram. Eins og kaupin hafa gerst á eyrinni er óhjákvæmilegt að víkja nokkrum orðum að aðdraganda stjórnarslitanna og þess sem síðan hefur gerst, rifja upp atburðarásina sem að síðustu olli því að þeir tvímenningarnir, hæstv. ráðherrar Steingrímur Hermannsson og Jón Baldvin Hannibalsson, kusu að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstfl. Til þess lágu efnisleg rök sem ég mun nú gera grein fyrir en eru í öllum stórum dráttum þau sömu og jafnan áður þegar efnt hefur verið til vinstri stjórnar. Það er hræðslan við hið opna og frjálsa þjóðfélag sem rak ráðherrana áfram og löngunin til að hafa puttana á atvinnulífinu sem að lokum leiddi til þess lítt heilaga sambands sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar er og Stefáns Valgeirssonar sem fylgdi með í kaupunum.
    Fyrir síðustu alþingiskosningar vörðuðum við sjálfstæðismenn mjög við því að svo kynni að fara að engir tveir flokkar höfðu nægilegt kjörfylgi til að mynda meirihlutastjórn. Við bentum á að ríkisstjórnir þriggja flokka hefðu jafnan frá lýðveldisstofnun verið skammlífar. Þær hefði vantað innri styrk og festu eins og löngum hefur viljað brenna við þegar þrír eiga að vinna saman. Þetta varð ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að falli þótt henni tækist á stuttum tíma að koma miklu í verk, ekki síst á sviði ríkisfjármála með margháttaðri löggjöf sem undirbúin hafði verið af Þorsteini Pálssyni og þeim Albert Guðmundssyni meðan þeir gegndu embætti fjármálaráðherra.
    Ég tel líka nauðsynlegt að rifja upp, herra forseti, að fyrir síðustu kosningar biðluðu alþýðuflokksmenn mjög til okkar sjálfstæðismanna og var enginn ákafari í þeim efnum en sjálfur formaðurinn, Jón Baldvin Hannibalsson. Hann talaði þá um nauðsyn þess að atvinnurekstrinum yrðu sköpuð lífvænleg skilyrði og féllst á það sem fjmrh. í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar að beita sér fyrir lögfestingu frv. um virðisaukaskatt sem hann hafði áður lýst sig andvígan. Formaður Alþfl. féllst m.ö.o. á þau rök okkar sjálfstæðismanna fyrir virðisaukaskattinum að hann væri nauðsynlegur,

í fyrsta lagi af því að hann veldur ekki uppsöfnun skatts í framleiðslukostnaði og mismunar ekki
framleiðslugreinum né framleiðsluaðferðum, í öðru lagi næst eðlilegri og hagkvæmari verkaskipting milli fyrirtækja og atvinnugreina með virðisaukaskattskerfi en í söluskattskerfi og síðast en ekki síst, og það er veigamesta ástæðan, bætir virðisaukaskatturinn samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hvort sem við lítum á innlenda markaðinn eða hagsmuni útflutningsgreinanna. Þetta hlýtur að vega þungt á vogarskálinni hjá okkur Íslendingum svo mjög sem við erum háðir milliríkjaviðskiptum, en samkeppni fer hvarvetna harðnandi og íslensk fyrirtæki hljóta um margt að búa við lakari samkeppnisstöðu en erlend vegna smæðar þeirra og fjarlægðar frá markaðnum.
    Herra forseti. Ég sé ástæðu til í þessu samhengi að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. forsrh. hvort ríkisstjórn hans muni beita sér fyrir frestun virðisaukaskattsins til ársloka 1989, sem ég get fallist á að sé hagkvæmt, af skattatæknilegum ástæðum ekki síst, eða hvort ríkisstjórn hans sé e.t.v. andvíg virðisaukaskattinum þannig að lögfestingu hans verði frestað um óákveðinn tíma eða lögin jafnvel numin úr gildi. Ég tel nauðsynlegt að þetta liggi fyrir, herra forseti. Ég minni á að Alþb. greiddi atkvæði gegn virðisaukaskattinum sl. vor og taldi hv. þm. Svavar Gestsson það fyrst fram sem röksemd gegn frv. að með því væri verið að leggja skatt á brýnustu lífsnauðsynjar almennings, matvöru.
    Það er mjög haft á orði í Framsfl. að hæstv. forsrh. sé góður verkstjóri. Honum er mikill vandi á höndum að skipa ráðherrum sínum svo til verka þegar kemur að því að herða skattheimtuna nú fyrir jólin að þeir rekist aldrei á hæstv. menntmrh. og hæstv. utanrrh. Það verður a.m.k. að passa að þeir fari ekki í sömu verslunina til að kaupa inn jólamatinn. Hver veit nema þá vaknaði hjá þeim samtímis spurningin: Úr því sem komið er, hvort skyldi þá matarskatturinn heita Jón Baldvin eða Ólafur Ragnar eða kannski hvort tveggja, Jón Baldvin/Ólafur Ragnar, ég þori ekki að fortaka það, úr því að Alþb. kaus að koma í stað Sjálfstfl. inn í ríkisstjórn til þess að passa upp á matarskattinn fyrir Jón Baldvin.
    Það kom snemma í ljós að framsóknarmenn voru ótryggir í stjórnarsamstarfinu og lögðu sig fram um að veikja trú manna á því sem ríkisstjórnin var að gera eins og formaður Alþfl. hefur nýlega vakið athygli á í blaðaviðtali. Ég skal ekki rekja þá sögu í einstökum atriðum. Sannleikurinn er sá að síðasti vetur reyndi á þolrif einstakra ráðherra og ríkisstjórnarinnar í heild. Á vordögum kom í ljós að álagið hafði reynst ráðherrum Alþfl. um megn, en Framsfl. gekk á lagið. Samstarfsflokkar Sjálfstfl. fengust ekki til að horfast í augu við það ástand sem hér var að skapast í atvinnumálum.
    Ástæðurnar fyrir versnandi afkomu atvinnuveganna voru einkum af tvennum toga spunnar: Annars vegar stórfellt verðfall á erlendum mörkuðum austan hafs og vestan, hins vegar höfðu kostnaðarhækkanir hér innan

lands vaxið hröðum skrefum á meðan genginu var haldið tiltölulega stöðugu í því skyni að halda aftur af verðbólgunni.
    Þegar kom fram í ágústmánuð varð ljóst að við svo búið mátti ekki standa. Ég er ekki í vafa um að í samhentri ríkisstjórn, ef við hefðum verið einir í ríkisstjórn með Framsfl. eða einir með Alþfl., hefðu verið tök á því að snúast við vandanum í tíma með aðgerðum sem dygðu þannig að fyrir 1. sept. hefðu allar ákvarðanir legið fyrir. En Alþfl. var bundinn í einhverjar undarlegar kreddur í gengismálum. Þessar kreddur leyfðu ekki að genginu væri breytt jafnvel þó það væri komið úr samhengi við allan veruleika og viðskiptahallinn að ríða þjóðinni á slig.
    Framsfl. hefur á hinn bóginn ekki verið kreddufullur í gengismálum, en þó gjarnan haft tilhneigingu til að vilja fella gengi krónunnar meir en efni hafa staðið til vegna tengsla sinna við samvinnuhreyfinguna og þá tröllauknu hagsmuni sem þar eru í húfi. Framsfl. hefur oftast nær haft skilning á þörfum atvinnurekstrarins gagnstætt Alþfl., gagnstætt hinum nýja Alþfl. Ef ekki hefði annað komið til höfðum við sjálfstæðismenn því allar ástæður til að ætla að Framsfl. væri a.m.k. til viðtals um raunhæfar aðgerðir til bjargar atvinnurekstrinum. Þar komum við hins vegar að lokuðum dyrum. Formaður Framsfl. hafði öðrum hnöppum að hneppa. Annan daginn var hann önnum kafinn við að velta upp möguleikum á nýjum ríkisstjórnum, meirihlutastjórnum eða minnihlutastjórnum, einhverjum stjórnum, sem allar áttu það sameiginlegt að hann var forsrh. En ístöðuleysi krata var samt við sig. Hinn daginn reyndi hann að gera tortryggilegt það sem formaður Sjálfstfl. gerði. Ég rifja upp að 12. ágúst lagði Sjálfstfl. fram tillögur í ríkisstjórninni sem höfðu það að markmiði að leggja grunn að stöðugleika í efnahagslífinu og styrkja afkomu atvinnuveganna, draga úr verðbólgu og lækka vexti. Af því tilefni hafði Dagur eftir formanni Framsfl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Því miður er þetta ekkert nema millifærsla,,, --- ég endurtek: ,,Því miður er þetta ekkert nema millifærsla sem ég hélt að menn hefðu afskrifað í kringum
1960. Það er ekki samstaða um niðurfærsluna en ég er sannfærður um eftir að hafa lesið tillögurnar að niðurfærsla er eina leiðin eða a.m.k. sú leið sem vert er að reyna. Sjálfstfl. hefur nú hafnað þeirri leið og mér finnst það satt að segja svo sorglegt að horfa á þessar tillögur að ég á varla orð.``
    Þetta voru þau ummæli sem Dagur, málgagn Framsfl. á Akureyri, hafði eftir formanni Framsfl. eftir að formaður Sjálfstfl. hafði lagt sínar tillögur til lausnar á efnahagsvandanum fram í ríkisstjórninni.
    Þessi ummæli formanns Framsfl. þóttu grátt gaman þegar þau voru sögð, en voru að sjálfsögðu vísbending um framhaldið. Ég get ekki stillt mig um að rifja það upp til viðbótar að sama kvöldið og formaður Sjálfstfl. baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt sagði Steingrímur Hermannsson, hæstv. ráðherra, í sjónvarpsviðtali að niðurfærsluleiðin hefði ekki komið til greina eftir að afstaða Alþýðusambandsins lá fyrir,

og formaður Alþfl. tók í sama streng. Þetta er minni háttar atriði, eitt af mörgum lýsandi dæmum um þau óheilindi sem þeir tvímenningarnir voru löðrandi í, en eins og við munum reyndu báðir þessir menn, bæði fyrir þetta viðtal og raunar síðar einnig, að kenna Sjálfstfl. um að niðurfærsluleiðin skyldi ekki vera fær.
    Ég vil líka í þessu sambandi, herra forseti, rifja upp að eins og niðurfærsluleiðin var rædd í ríkisstjórninni gerðu ráðherrar Alþfl. það að algjöru skilyrði að skiptakjörum sjómanna yrði ekki breytt. Hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson sagði það sem sína skoðun að fiskverð ætti að lækka um 5%. Hvað þýddi þetta? Þetta þýddi það að þeir menn sem voru á frystitogurum, þeir sem sigldu, þeir sem settu í gáma, þeir sem seldu á innlendum fiskmarkaði, þeir sjómenn hefðu enga kjaraskerðingu fengið. Þeir sjómenn, sem lögðu upp hjá frystihúsunum um land allt, hefðu fengið 5% kjaraskerðingu, en verkafólkið inni í frystihúsunum, konurnar sem þar vinna og karlarnir sem þar vinna, áttu að fá 9% kjaraskerðingu. Halda einhverjir menn, heldur hæstv. forsrh. að þetta hefði gengið og dugað einn einasta dag? Var það vilji hæstv. forsrh. á þessum tíma að lækka kjör kvennanna við kassana í Hagkaup, kvennanna hjá iðnfyrirtækjunum sem standa við saumavélarnar allan daginn, að lækka kjör lægst launaða fólksins um 9% en láta á hinn bóginn hina, sem kannski hafa best kjör í landinu, sjómennina á frystitogurunum, hafa óskert laun og aðra sjómenn fá einungis 5% skerðingu? Ég vil aðeins segja um þetta atriði að umræðurnar um niðurfærsluleiðina endurspegla þá erfiðleika sem hér á landi eru til þess að halda uppi heilbrigðri og raunsærri umræðu um pólitík, m.a. og ekki síst vegna þess hversu vanmegnugir fjölmiðlarnir eru hér á landi vegna þess að þeir hafa ekki ráð á því að ráða til sín sérfræðinga um hin einstöku pólitísku mál sem geti skrifað upplýsandi greinar um þá atburði sem hverju sinni eru efst á baugi í þjóðmálum.
    Efnahagsráðstafanirnar í vor voru óhjákvæmilegur liður í samfelldum aðgerðum sem miðuðu að því að laga þjóðarbúskapinn að versnandi kjörum á erlendum mörkuðum. Við sjálfstæðismenn, og vonandi ríkisstjórnin í heild, gerðum okkur grein fyrir að þessar ráðstafanir voru ekki endanlegar fremur en aðrar ráðstafanir í efnahagsmálum þegar tekist er á við breytilegar ytri aðstæður. En eins og allir vita erum við háðari þeim en flestar aðrar þjóðir og þarf ekki að hafa orð um það. Þeir sem halda því fram, eins og mér hefur stundum fundist hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gefa í skyn, að hægt sé að leysa efnahagsvandann í eitt skipti fyrir öll, eru annaðhvort draumhyggjumenn að ég ekki segi andatrúarmenn eða tala gegn betri vitund.
    Þegar sumri tók að halla blasti við að frekari aðlögunar væri þörf til að treysta stöðu útflutnings- og samkeppnisgreina og atvinnuöryggi, ekki síst úti á landsbyggðinni. Þetta vildi Sjálfstfl. fyrst og fremst gera með almennum aðgerðum eins og margoft hefur komið fram. Þess vegna lögðum við áherslu á launafrystingu og strangt aðhald í verðlagsmálum,

lækkun vaxta með raunhæfum aðgerðum og 6% lækkun á gengi krónunnar. Við vorum þeirrar skoðunar að enda þótt vandi atvinnulífsins væri almenns eðlis væri auk þess við að etja sérstakan vanda í sjávarútvegi, einkum í hraðfrystiiðnaðinum, sem okkur þótti rétt að mæta með sértækum aðgerðum sem fælu í sér tímabundna verðjöfnun úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins. Við sjálfstæðismenn vissum að 6% gengislækkun krónunnar mátti ekki minni vera þegar höfð var hliðsjón af halla viðskiptanna við útlönd og rekstrarstöðu atvinnuveganna, ekki útflutningsatvinnuveganna einna heldur líka samkeppnisiðnaðarins sem kostnaðarhækkanirnar hér innan lands hafa bitnað á með sama hætti og útflutningnum. Með því að gera ráð fyrir eins lítilli gengisfellingu og nokkur kostur var leituðumst við eftir að ná samkomulagi við Alþfl. sem eins og ég sagði var haldinn kreddutrú í gengismálum.
    Við sjálfstæðismenn lögðum aðgerðir okkar fram með útreikningum Þjóðhagsstofnunar sem sýndu að hraðfrystiiðnaðurinn og sjávarútvegurinn í heild kæmist í viðunandi rekstrarstöðu í kjölfar aðgerðanna. Formaður Sjálfstfl. vildi leggja sig fram við að sætta Alþfl. við 6% gengislækkun með því að eyða verðbólguáhrifum hennar. Þess vegna lagði formaður Sjálfstfl. til
að söluskattur af matvælum yrði lækkaður úr 25% í 10%. Fyrir því voru þessi rök helst:
    1. Skv. útreikningum Hagstofu Íslands þýddi lækkun matarskattins 1,5% lækkun framfærsluvísitölu.
    2. Með lækkun matarskattsins var komið til móts við þarfir þess fólks sem hefur lægstu launin og eyðir þar af leiðandi stærstum hluta þeirra til daglegra þarfa. Þetta þótti okkur sjálfstæðismönnum eðlilegt nú, eins og oftast áður þegar til langvarandi launafrystingar hefur verið gripið, að lækka matarverðið.
    3. Formaður Sjálfstfl. hafði í huga þá þróun sem er að ganga yfir Evrópubandalagið og miðar að tveggja þrepa virðisaukaskatti.
    Ég þarf ekki að rifja það upp hér, herra forseti, að formaður Sjálfstfl. átti einkasamtal við formann Alþfl. Þeir töluðu saman eins og maður við mann en ekki eins og ráðherra við ráðherra til þess að fullvissa hann um að við sjálfstæðismenn værum ekki að fara á bak við Alþfl. Framhaldið þekkjum við öll og svo vel þekki ég formann Sjálfstfl. að hann var einlægur þegar hann gekk til viðtals við formann Alþfl. Getsakir um hið gagnstæða eru úr lausu lofti gripnar og þeim til minnkunar sem þær bera fram.
    Að síðustu fólst það í tillögum okkar sjálfstæðismanna að ríkisstjórnin beitti sér fyrir aðgerðum til að treysta eiginfjárstöðu atvinnufyrirtækja sem eins og allir vita eru of skuldsett og þess vegna vanbúin að mæta ytri sveiflum eða áföllum. Við sjálfstæðismenn lögðum áherslu á eins og jafnan að forsendurnar fyrir því að aðgerðir af þessu tagi gætu heppnast séu þær að almenn rekstrarskilyrði í landinu séu þannig að vel rekin fyrirtæki skili hagnaði. Að því gefnu voru tillögur okkar um aðgerðir í meginatriðum

tvíþættar.
    Annars vegar vildum við setja á laggirnar sérstaka deild eða sjóð í Byggðastofnun sem hefði það að markmiði að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum með því að lána til aukningar eigin fjár í fyrirtækjum í tengslum við fjárhagslega endurskipulagningu þeirra. Skyldi starfsemi sjóðsins einkum lúta að meiri háttar skipulagsbreytingum og samruna fyrirtækja. Atvinnumálanefndir skyldu settar á fót í kjördæmum landsins sem ynnu með stjórn Byggðasjóðs að verkefnum sjóðsins.
    Hins vegar vildum við beita aðgerðum í skattamálum til að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækja og gera þeim kleift að mæta sveiflum sem stafa af misjöfnum aflabrögðum og breytilegum markaðsaðstæðum.
    Herra forseti. I. kafli bráðabirgðalaganna fjallar um aðgerðir í atvinnumálum og ber þess ljós merki að ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því eins og flestir aðrir að efnahagsráðstafanir hennar duga hvergi nærri til fyrir atvinnureksturinn. Því fer víðs fjarri að með þeim séu atvinnuvegunum tryggð lágmarksrekstrarskilyrði. Höfuðástæðan er vitaskuld sú að ríkisstjórnin þráast við að viðurkenna að þær kostnaðarhækkanir sem orðið hafa hér innan lands séu langt umfram það sem þau fyrirtæki þola sem eru í samkeppni við erlend fyrirtæki hvort sem við erum að tala um heimamarkað eða erlendan markað. Nú væri hæstv. forsrh. e.t.v. vorkunn ef hann vissi ekki betur þótt maður í hans stöðu eigi að vera með á nótunum. En það dugir ekki að leita þvílíkra skýringa. Við höfum orð hans sjálfs fyrir því að ráðstafanirnar séu ónógar fyrir atvinnureksturinn. Hann sagði á fyrsta fréttamannafundinum eftir að hann var orðinn forsrh. að raungengi krónunnar væri of hátt og að það yrði að leiðrétta það smám saman. Ég var ekki með skriffæri við höndina og gat þess vegna ekki skrifað ummælin orðrétt niður, en ég man fyrir víst að hæstv. forsrh. notaði orðasambandið smám saman eða smátt og smátt á fundinum með fréttamönnunum.
    Hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson hefur einnig talað um nauðsyn verulegrar gengisfellingar í sambandi við stuðningsaðgerðir við atvinnuvegina og skyldi engan undra um sjútvrh. þótt loksins losni um málbeinið á honum svo lengi sem hann hefur þagað þunnu hljóði meðan fjarað hefur undan þeim atvinnurekstri sem honum var trúað fyrir að standa vörð um og þjóðin á svo mikið undir.
    Afstaða þessara tveggja manna, formanns og varaformanns Framsfl., gerir það óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. svari því hér og nú hvað hann eigi við með orðunum smám saman eða smátt og smátt í því samhengi sem ég hef áður lýst. Hyggst ríkisstjórnin taka upp svokallað fljótandi gengi þannig að það sé á valdi Seðlabankans og raunar hlutverk hans að breyta gengisskráningunni niður á við frá degi til dags eins og hér var gert fyrir nokkrum árum og gafst illa? Eða liggur kannski þegar fyrir að ríkisstjórnin stefni að nýrri gengisfellingu fyrir eða eftir áramótin? Hvort

heldur sem er hlýt ég að átelja að hæstv. forsrh. skuli með þeim hætti sem ég hef lýst grafa undan trú manna á gjaldmiðilinn sem síst mátti þó við því. Úr því sem komið er held ég að óhjákvæmilegt sé fyrir ríkisstjórnina að leiðrétta gengið þegar í stað, ekki aðeins til þess að koma í veg fyrir spákaupmennsku og skyndigróða þeirra sem
til þess hafa geð og aðstöðu að braska með gjaldeyri, heldur miklu fremur til hins, sem er jákvætt og óhjákvæmilegt, að leiðrétta rekstrarskilyrði atvinnuveganna. Ef það verður látið dragast úr hömlu hefnir það sín með atvinnuleysi, enn meiri gengisfellingu síðar meir og enn meiri kjaraskerðingu fyrir heimilin í landinu en nú er hægt að komast af með ef ríkisstjórnin horfðist í augu við staðreyndir.
    Ég spyr líka, herra forseti, hæstv. ráðherra Alþb. ( G ripið fram í: Hvaða ráðherra?), hæstv. menntmrh., hvort hann sé sammála formanni og varaformanni Framsfl. um að gengi krónunnar sé rangt skráð og að nauðsynlegt sé að fella það smátt og smátt. Það er nauðsynlegt að það komi fram hér við umræðurnar hvert mat þeirra sé á þessu grundvallaratriði í efnahagspólitík ríkisstjórnarinnar. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, sem sæti eigum í fjh.- og viðskn. og eigum eftir að fjalla um frv. sem hér liggur fyrir, að fá fullvissu okkar um þetta atriði, hvað ríkisstjórnin vill leggja til grundvallar í sambandi við gjaldeyrismálin, hvort hún telji nauðsynlegt að skapa atvinnuvegunum heilbrigð rekstrarskilyrði eða hvort hún stefnir að síauknum millifærslum með tilheyrandi skattaálögum og vaxandi halla á viðskiptunum við útlönd. Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að krefja Alþfl. sagna. Staða hans í ríkisstjórninni býður ekki upp á að hann láti sverfa til stáls eða fylgi skoðunum sínum eftir. Hlutskipti alþýðuflokksmanna verður að bíða, láta berast með straumnum og vona það besta.
    Ég geri mér grein fyrir að auðvelt er fyrir talsmenn ríkisstjórnarinnar að víkja sér undan gagnrýni okkar sjálfstæðismanna með almennum pólitískum upphrópunum. Ég tel því nauðsynlegt, herra forseti, að kalla flokksbræður hæstv. forsrh. til vitnis og draga fram skoðanir þeirra á því hvort efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafi verið fullnægjandi eða ekki. Jón Sigurðarson, forstjóri Álafoss hf. og fyrrv. bæjarfulltrúi Framsfl. á Akureyri, hefur m.a. þetta að segja, sbr. Morgunblaðið 11. okt. sl., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin áætlar að millifæra í ullariðnaði til jafns við freðfiskinn sem þýðir um það bil 5% rekstrarbata fyrir ullariðnaðinn og kemur væntanlega í formi aukinna niðurgreiðslna á ull, að sögn Jóns. ,,Hitt er annað mál að ég er eftir sem áður ósáttur við þessar aðgerðir --- ósáttur við þann hluta aðgerðanna sem fjallar um millifærslur. Menn áttu að vinda sér í það strax að breyta raungengi krónunnar, annaðhvort með því að fara niðurfærslu eða með því að fella gengið. Raungengi íslensku krónunnar hefur hækkað um nær fjórðung frá 1986 til 1988, það er m.ö.o. orðið nærri 25% dýrara að framleiða á Íslandi mælt í erlendri mynt nú heldur en það var 1986. Það er

raungengisbreyting sem er úr öllu hófi. Í aðgerðunum felst gríðarleg mismunun á atvinnuvegum því í þeim er aðeins gert ráð fyrir aðstoð til handa fiskvinnslunni og ullariðnaðinum. Á hinn bóginn eru önnur fyrirtæki . . . ```` og nú bið ég þann hv. þm. sem sæti á í deildinni og kjörinn er af Akureyringum og því fólki sem býr á Norðurl. e. að taka vel eftir. Ég endurtek, með leyfi hæstv. forseta: ,,Á hinn bóginn eru önnur fyrirtæki skilin eftir í blóði sínu, samkeppnisfyrirtæki á við Sjöfn, Kaffibrennsluna, Plasteinangrun, DNG og Sæplast svo dæmi séu tekin af fyrirtækjum hér norðanlands. Þessi fyrirtæki fá engan bata í formi millifærslu eða breytts gengis. Það er varla til það fyrirtæki í samkeppnisiðnaði eða útflutningsiðnaði sem kláruðu sig sæmilega á árinu.`` Það er einfaldlega rangt að mismuna atvinnuvegunum á þennan hátt og þar er ég gersamlega ósammála mínum ágæta vini, Steingrími Hermannssyni.``
    Enn segir Jón Sigurðarson, með leyfi hæstv. forseta: ,,Millifærslan er einfaldlega of dýr fyrir samfélagið og eftir því sem tíminn verður lengri þar til aðrar atvinnugreinar fá að njóta einhverra aðgerða af hálfu stjórnvalda, þeim mun meira blæðir þeim. Ég tel ákaflega líklegt að í framhaldi af þessari millifærslu verði farið í einhverjar af þeim aðgerðum sem breyta raungengi krónunnar.``
    Guðjón B. Ólafsson, forstjóri SÍS, er ómyrkur í máli í Tímanum 15. okt. sl. þegar hann er spurður álits á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Honum verður fyrst fyrir að svara með þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ég hefði viljað sjá raunhæfari aðgerðir í þá átt að í stað verulegra lánveitinga og skuldbreytinga kæmi raunhæfari og varanlegri bót á rekstrargrundvelli. Útflutningsgreinar verða að geta starfað með hagnaði í þessu landi og það á að vera frumforsenda allra aðgerða í efnahagsmálum.``
    Ég hef, herra forseti, dregið fram ummæli tveggja manna sem báðir voru fulltrúar Framsfl. í forstjóranefndinni svokölluðu þar sem þeir voru inntir álits á efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Eins og glöggt kom fram í svörum þeirra beggja hefur ríkisstjórnin verið vegin og léttvæg fundin. Annar þeirra talar um að blóð renni og hinn spáir yfirvofandi atvinnuleysi. Áfellisdómurinn yfir hæstv. forsrh. getur naumast verið þyngri, en hann er ekki aðeins dómur yfir núv. hæstv. ríkisstjórn, heldur skýrir hann um leið að leiðir Sjálfstfl. og leiðir Framsfl. og Alþfl. hlaut að skilja á meðan þessir miðjuflokkar eru á
þeim villigötum sem þeir hafa verið á upp á síðkastið.
    Ég vek athygli á því að með bráðabirgðalögunum er Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins heimilað að taka lán hjá Seðlabanka Íslands allt að 800 millj. kr. til þriggja ára með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs en á hinn bóginn er gert ráð fyrir að það endurgreiðist af tekjum Verðjöfnunarsjóðsins á næstu þremur árum. Þetta hljómar ekki illa eins og það er sett fram. Þess vegna rímar ekki að hæstv. sjútvrh. skuli hafa séð sig knúinn til að lýsa því yfir á þingi Sjómannasambandsins að lánin muni falla á ríkissjóð og ekki bætti hæstv.

fjmrh. úr skák þegar hann greindi frá því í DV nýverið að hann hygðist nýta tekjuafgang fjárlaga á næsta ári til þess að mæta þessum skuldbindingum. Hæstv. fjmrh. hefur víti til að varast þar sem er hæstv. fyrrv. fjmrh., formaður Alþfl., og ætti að geyma sér yfirlýsingar um tekjuafgang á fjárlögum. Ég held að hann ætti að koma fjárlagafrv. fram fyrst áður en hann fer að guma af fjármálasnilli sinni.
    Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hæstv. ráðherrum að engin líkindi séu til annars en að 800 millj. falli á ríkissjóð. Ég vona að stjórnarmeirihlutinn sé mér sammála um að rétt sé að taka mið af þeim staðreyndum og sé reiðubúinn til að breyta frv. í samræmi við það.
    Í 2. gr. bráðabirgðalaganna er talað um greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins vegna skelflettrar rækju í deild fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði. Um það mál er fátt að segja annað en það að ef hæstv. sjútvrh. hefði veitt vinnsluleyfi sín fyrir skelfiskinn í samræmi við gildandi lög um samræmingu veiða og vinnslu hefði ekki komið til þeirra erfiðleika sem nú hefur orðið vart hjá rækjuverksmiðjunum. Þær hefðu að öllum líkindum skilað hagnaði. Þess vegna má auðvitað skrifa þessa erfiðleika sumpart á yfirstjórn þessara mála og verður að segjast eins og er að hæstv. sjútvrh. hefur missést í þessu efni. Skal ég ekki hafa fleiri orð um það úr því að hann er ekki viðstaddur hér í þinginu.
    Í 3. gr. bráðabirgðalaganna er kveðið á um stofnun Atvinnutryggingarsjóðs útflutningsgreina. Það vekur athygli, herra forseti, að verksvið sjóðsins skuli bundið við útflutningsgreinarnar en honum skuli ekki ætlað að fjalla um samkeppnisiðnaðinn jafnframt því að vitaskuld vitum við það að þunginn af rangri gengisskráningu kemur ekki síður á samkeppnisiðnaðinn en útflutningsgreinarnar. Þá vekur það athygli að sjóðnum er ætlað að veita lán til endurskipulagningar, hagræðingar og framleiðniaukningar hjá útflutningsfyrirtækjum. Jafnframt skuli sjóðurinn hafa forgöngu um að breyta lausaskuldum fyrirtækja í föst lán til langs tíma. Við sjálfstæðismenn erum andvígir þessari sjóðsstofnun eins og hlutverk Atvinnutryggingarsjóðsins er skilgreint og leggjum áherslu á að nú sé umfram allt nauðsynlegt að treysta eiginfjárstöðu fyrirtækjanna. Það hljóti að verða höfuðviðfangsefni sjóðs á borð við Atvinnutryggingarsjóðinn en ekki að drekkja fyrirtækjunum í nýju lánsfé sem er óhjákvæmilegt ef ekki fæst leiðrétting á rekstrargrundvellinum.
    Í þessu sambandi vil ég jafnframt vekja athygli á að í reglugerð fyrir sjóðinn er gert ráð fyrir að lánin verði ýmist verðtryggð eða gengistryggð. Eins og hugmyndir hæstv. forsrh. eru varðandi lánskjaravísitöluna er sýnilegt að hún muni hækka mjög verulega á næstu árum og langt umfram það sem verðlag hækkar. Jafnframt vitum við að gengið er rangt skráð og hlýtur innan skamms að koma til leiðréttingar á því. Ef þessi fyrirtæki í útflutningi eiga nú að taka erlend lán eða vísitölutryggð lán hlýtur það að bitna á þeim síðar meir. Hin ranga gengisskráning

hlýtur að verka eins og verulegur lántökuskattur og Atvinnutryggingarsjóðurinn mun því verka þannig að hann mun skerða eiginfjárstöðu fyrirtækjanna í samræmi við þá óhjákvæmilegu leiðréttingu sem hlýtur að verða á gengi krónunnar.
    Þá sættum við sjálfstæðismenn okkur ekki við að stjórn Atvinnutryggingarsjóðs sé verslunarvara í stjórnarmyndunarviðræðum. Þar sem hv. þm. Stefán Valgeirsson og stjórnarflokkarnir eiga sinn mattadorinn hver sem útdeilir mattadorpeningum eftir pólitískum geðþótta. Slíkt fyrirkomulag er með öllu óþolandi. Það stangast gjörsamlega á við nútímaleg vinnubrögð og býður heim getsökum um að ekki sé hreint mjöl í pokanum. Ég get ekki fundið neina haldbæra skýringu á því hvers vegna ríkisstjórnin kaus að fara þessa leið í stað þess sem lá opið fyrir, að fela Byggðastofnun að hafa stjórn sjóðsins með höndum eða, ef það þótti hentara, fela Alþingi að kjósa sjóðsstjórnina. Með þeim hætti hefði verið komið í veg fyrir tortryggni og engum hefði dottið í hug að hafa uppi getsakir um óheiðarleg vinnubrögð. Því miður var þessi leið ekki farin, að fela Alþingi að kjósa stjórn Atvinnutryggingarsjóðsins. Eins og orð féllu í kringum stjórnarmyndunarviðræðurnar verður ekki komist hjá því að draga þá ályktun að hrossakaup hafi ráðið skipan stjórnarinnar. Það er ekki traustvekjandi fyrir nýja ríkisstjórn að koma þannig að verki, enda almannarómur að ill sé þessi hennar fyrsta ganga og síst til eftirbreytni.
    Atvinnutryggingarsjóður fær óhemjufé til umráða. Gert er ráð fyrir að 600 millj. kr. verði millifærðar frá Atvinnuleysistryggingasjóði og að 400 millj. kr. til viðbótar verði aflað með því sem kallað er tekjuskattsauki í 5. gr. frv. Þá er sjóðsstjórn heimilt að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 1 milljarði kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt og skuli lánið verða með sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs.
    Þetta orð, tekjuskattsauki, er ekki nýtt í málinu, ekki í bráðabirgðalögum heldur. Svo hittist á að síðast þegar þessir þrír flokkar mynduðu ríkisstjórn, Framsfl., Alþb. og Alþfl., haustið 1978 var eitthvert þeirra fyrsta verk að gefa út bráðabirgðalög sem gerðu ráð fyrir að ný álagning á tekjur ársins á undan skyldi fara fram og var kallaður tekjuskattsauki. Sumarálagningin dugði ekki. Þeim þótti skattbyrðin of lág hjá ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Það þarf ekki að taka fram að þessi aukaálagning á sömu tekjurnar var illa þokkuð af öllum almenningi, ekki síst launafólki. En eins og hv. þingdeildarmönnum er fullkunnugt gefur tekjuskatturinn ekki einhlíta mynd af efnahag viðkomandi og hefur aldrei gert.
    Alþfl. 1978 var ólíkur þeim Alþfl. sem við sjálfstæðismenn unnum með í Viðreisn. Það kom ekki hvað síst fram í viðhorfinu til þess hvað væri réttlát skattheimta og hvað ekki. Ég minnist þáltill. sem Gylfi Þ. Gíslason og fleiri þm. Alþfl. lögðu fram á haustþinginu 1975. Þar var gert ráð fyrir að horfið yrði að fullu frá innheimtu tekjuskatts til ríkisins af tekjum launþega. Við sjáum í einni sjónhendingu

hvaða óravíddir skilja að þennan Alþfl. og hinn sem við sitjum nú uppi með og hefur staðið að bráðabirgðalögum um tekjuskattsauka, ekki eitt ár eins og Alþfl. 1978 heldur tvö.
    Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsrh. hvort tekjuskattsaukanum á næsta ári sé ætlað að leggjast á tekjur ársins 1988. Orðalag bráðabirgðalaganna er ógreinilegt hvað þetta varðar, en ég þarf ekki að fjölyrða um hvaða slys það yrði, hversu heiftarlega yrði komið aftan að launþegum ef þegar á fyrsta ári staðgreiðslunnar yrðu gefnir út bakreikningar á tekjur manna. Ég vil í lengstu lög vona, herra forseti, að svo sé ekki þó svo að geislum hafi stafað af skattagleði hæstv. fjmrh. í sjónvarpinu undanfarið. ( Forseti: Ég þarf að biðja hv. ræðumann að gera hlé á ræðu sinni --- það er ætlunin að fresta fundi skamma stund --- ef honum væri það ekki mjög á móti skapi.) --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Í 6. gr. er Atvinnutryggingarsjóði heimilað að hafa milligöngu um skuldbreytingu á allt að 5 milljörðum kr. af lausaskuldum útflutningsfyrirtækja og er gert ráð fyrir að sjóðurinn beri ábyrgð á greiðslum skuldabréfanna með eignum sínum. Eins og víðar er orðalagið óljóst og ber þess vitni að reynt sé að samræma ólík sjónarmið. Hinn ráðagóði verkstjóri, svo notað sé sama lýsingarorð um hæstv. forsrh. og um Odysseif forðum, vill umfram allt dylja merkingu lagatextans sem getur verið gott í pólitík en er óhentugt í lagasmíð. Ekki síst þegar um fjárskuldbindingar er að tefla. Ég leyfi mér að skilja þessi orð ,,ber sjóðurinn ábyrgð á greiðslu þeirra skuldabréfa með eignum sínum`` svo að ríkissjóður beri enga ábyrgð á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs. Ég sé því ekki betur en bakábyrgð sjóðsins sé einskis virði en þetta atriði hlýtur að koma til athugunar í nefnd.
    Það er bagalegt, herra forseti, að ekki skuli unnt að kalla stofnauka ríkisstjórnarinnar, hv. þm. Stefán Valgeirsson, hingað í deildina til að inna hann eftir því hvaða hugmyndir hann hafi um þetta atriði. ( KP: Er nokkuð á móti því?)
    Þá er óhjákvæmilegt að benda á að samkvæmt reglugerð fyrir sjóðinn er gert ráð fyrir að sjóðurinn endurláni útflutningsfyrirtækjum 5 milljarða kr. til 10 ára sem lánardrottnarnir fái endurgreidda á 6 árum. Þetta mun leiða til þess að Atvinnutryggingarsjóður þarf að fjármagna tímamismun sem gæti numið í krónum talið 1--1,5 milljörðum kr. Það er nauðsynlegt að hæstv. forsrh. útskýri hvernig hann hugsar sér að sjóðurinn fjármagni þennan mismun.
    Hæstv. forseti. Ég er nýbúinn að fá í hendur endanlega gerð af reglugerðinni um Atvinnutryggingarsjóð útflutningsgreina, fékk hana nú um hádegið þannig að ég er óviðbúinn að ræða þar einstök atriði, en hlýt þó að vekja athygli á þeim ummælum sem hæstv. forsrh. viðhafði hér áðan í sambandi við þau veð sem stjórn Atvinnutryggingarsjóðs væri heimilt að taka gild sem tryggingar fyrir lánum. Hæstv. forsrh. talaði um mat á rekstri fyrirtækjanna og sagði að það yrði ekki síst

lagt til grundvallar í sambandi við veðhæfni og talaði um rekstrarútlit viðkomandi fyrirtækis. Ég átta mig ekki alveg á hvað hæstv. forsrh. meinti með þessum ummælum en það hlýtur líka að koma sérstaklega til athugunar og skal ég ekki gera það að umtalsefni nú en vek sem sagt athygli á þessum ummælum.
    Í II. kafla bráðabirgðalaganna er fjallað um verðlags- og kjaramál. Þar kemur fátt nýtt fram nema staðfestist enn einu sinni að Alþb. lætur sér í léttu rúmi liggja þótt gengið sé á kjarasamninga þegar það er í ríkisstjórn.
Gildir þá einu hvort um er að ræða umsamdar kauphækkanir eða samningsréttinn.
    Það vekur athygli að eftir að Alþb. tók sæti í ríkisstjórn hefur kveðið við annan og mildari tón hjá Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Áður hafði forseti Alþýðusambandsins hótað aðgerðum með því að dregið yrði úr vinnuafköstum en formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hótað verkfallsaðgerðum. Nú dettur hvorki né drýpur af þessum heiðursmönnum og þeir virðast ætla að láta allt yfir sig ganga.
    Þá vekur athygli að í 16. gr. bráðabirgðalaganna eru tekjuöflunarmöguleikar Ríkisútvarpsins skertir en við afgreiðslu fjárlaga var út frá því gengið að raunhækkun afnotagjalda mætti nema 15% eins og fram kom í ræðu formanns fjvn. við 3. umr.
    Í III. kafla bráðabirgðalaganna er fjallað um vaxtaákvarðanir og kveðið á um það í 20. gr. að dráttarvextir skuli ávallt reiknast sem dagvextir nema á annan veg sé sérstaklega mælt í lögum. Ég hlýt að fagna þessu ákvæði, hæstv. forseti, því að senn eru átta mánuðir síðan kveðið var á um það í yfirlýsingu ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar að Seðlabankinn beindi því til innlánsstofnana að þær reiknuðu dráttarvexti sem dagvexti í stað þess að reikna fulla mánaðarvexti fyrir brot úr mánuði. Framkvæmd þessa var á verksviði og á ábyrgð þáverandi og núverandi viðskrh. en vikur og mánuðir hafa liðið án þess að hann kæmi málinu í höfn. Við sjálfstæðismenn vorum orðnir svo langþreyttir á sleifarlagi ráðherrans að við gerðum í síðustu ríkisstjórn tillögu um að þessu máli yrði hrundið í framkvæmd með lagasetningu því fullreynt sýndist að ákvörðun ríkisstjórnarinnar næði ekki fram að ganga að öðrum kosti. Ég fagna því þessu ákvæði laganna sérstaklega og er samdóma því mati Framsfl., Alþb. og ekki síst Alþfl. að nauðsynlegt hefði verið að grípa til lagasetningar til að tryggja framgang málsins þar sem hæstv. viðskrh. virðist annaðhvort ekki hafa haft getu eða vilja til þess að koma málinu fram með aðstoð Seðlabankans.
    Hitt er svo annað mál að þessu mikilvæga máli er fyrst ætlað að öðlast gildi 1. nóv. nk. eða röskum þrem vikum eftir að þing kemur saman og það hlýtur enn að kalla á umræðu um það skeytingarleysi sem ríkisstjórnin hefur sýnt við útgáfu þessara bráðabirgðalaga. Stjórnarskráin er afdráttarlaus um það að því aðeins sé heimilt að setja bráðabirgðalög að brýna nauðsyn beri til og er þá augljóslega við það miðað að ekki séu föng á að málið fái þinglega

meðferð. Því er ekki til að dreifa hér.
    Sl. ár hafa vaxtamálin verið mjög til umræðu og væri það fjölskrúðugur jurtagarður ef þar hefðu fest rætur öll þau frækorn sem hrokkið hafa úr munni formanns Framsfl. á því tímabili, bæði meðan hann var utanrrh. og nú forsrh. Ég er hræddur um, hæstv. forseti, að það þyrfti eljusaman garðyrkjumann til að grisja í garðinum þeim svo að eitthvert vit væri í. Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort það er til nokkurs að inna hæstv. forsrh. eftir stefnu ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum. Honum hefur orðið tíðrætt um að nauðsynlegt sé að beita handafli en hæstv. viðskrh. svarað með því að segja að það þýði ekki að hýða sjóinn þegar hann úfnar. Það hefur vakið athygli og þótt broslegt í aðra röndina þegar hæstv. ráðherrar, einn af öðrum, eru að guma af því að nafnvextir hafi lækkað en raunvextir ekki. Skárra væri það þegar hér er hvort tveggja í senn launafrysting og verðstöðvun svo vikum skiptir þótt eitthvað slái á verðbólguna. Þótt nafnvextirnir haldist ekki jafnháir og áður. Það eru engin tíðindi, engar fréttir, hvorki innan þings né utan nema kannski í Tímanum eða Degi og jafnvel Þjóðviljanum. Og ekki má gleyma garminum honum Katli --- Alþýðublaðinu.
    Hitt gengur ekki eins vel, sem formaður Framsfl. taldi auðveldasta hlut í heimi meðan síðasta ríkisstjórn sat, að lækka raunvextina. Við skulum samt vona að þrátt fyrir stjórnarstefnuna sé hægt að þoka raunvöxtunum í þá áttina þó ekki sé nema í bili. Ef horft er lengra fram blasir því miður við önnur mynd og miklu dekkri. Það eru gömul og ný sannindi að jafnvægi í atvinnu- og efnahagsmálum er forsenda fyrir því að raunvextir séu lágir en því jafnvægi verður ekki náð nema gengi krónunnar sé rétt skráð og í samræmi við það sem útflutningsatvinnuvegirnir rísa undir nema stjórn sé höfð á peningamálunum og komið í veg fyrir skuldasöfnun erlendis.
    Hæstv. forsrh. talaði um það í ræðu sinni hér áðan að nauðsynlegt væri að losa þjóðfélagið úr víxlgangi verðlags, launa-, gengis- og fjármagnskostnaðar en fór ekki frekar út í hvað hann átti við með þeim orðum. Jafnframt talaði hann um að leggja niður vísitölutengingu lána þegar jafnvægi hefði náðst og er nauðsynlegt í þessu samhengi að spyrja hæstv. forsrh. hvort henn telji að verðbólgan verði komin svo langt niður nú á næstu mánuðum, eða áður en verðstöðvunarlögin falla úr gildi, að ríkisstjórninni sýnist rétt að afnema vísitölubindinguna. Ef svo er ekki þá hlýt ég að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann hafi í hyggju að lögbinda að nýju vísitölutengingu launa, en hæstv. forsrh. talaði um það hér áðan, og hefur raunar talað um það í fjölmiðlum áður, að hann sé ósammála því að lánskjaravísitala sé í gildi nema jafnframt
sé í gildi kaupgjaldsvísitala og hefur haft mörg orð þar um. Af þessum ástæðum er nauðsynlegt að spyrja hann: Hefur hann í huga, ef það verður mat ríkisstjórnarinnar að ekki standi efni til þess að ákvæðin um lánskjaravísitöluna verði felld úr gildi, að kaupgjaldsvísitala verði lögfest í landinu?

    Ég hlýt einnig, hæstv. forseti, að vekja athygli á því að þær hugmyndir sem ríkisstjórnin hefur um breytingar á lánskjaravísitölunni miða allar að því að gera hlut launanna hærri í lánskjaravísitölunni. Ég vil vara við slíkum hugmyndum nú vegna þess að við því má búast að nú um sinn verði kaupmáttur launa minni en verið hefur. Ég hygg að við vonum það öll og séum sammála um að ef heilbrigðri stefnu væri haldið uppi hér í atvinnu- og efnahagsmálum þá væru full tök á því að auka kaupmáttinn, útflutningsatvinnuvegirnir gætu risið undir því, og þá væri óheppilegt ef nú yrði brugðið á það ráð að binda lánskjaravísitöluna við þróun kaupgjalds í landinu. Ég held að það mundi verka gagnstætt því sem hæstv. forsrh. hefur gefið í skyn. Ég held að það mundi þýða það að lánsbyrðin þyngdist og menn ættu erfiðar um vik að rísa undir vaxandi fjármagnskostnaði.
    Hæstv. forsrh. talaði jafnframt um viðleitni ríkisstjórnarinnar til að stöðva kostnaðarhækkanir í þjóðfélaginu fram til 15. febr. Auðvitað er það rétt mat hjá hæstv. forsrh. að þá má búast við því að mikil verðhækkunaralda gangi yfir þjóðfélagið þannig að ég tek undir áhyggjur hans af því hvað við tekur hinn 15. febr. nk.
    23. gr. bráðabirgðalaganna er býsna skondin þykir mér:
    ,,Fjármálaráðherra er heimilt þrátt fyrir ákvæði fjárlaga fyrir árið 1988 að hækka ríkisútgjöld um 600 millj. kr.``
    Nú liggur það fyrir síðan hæstv. fjmrh. hélt ræðuna í Garðabænum að honum ber ekki saman við fyrirrennara sinn, formann Alþfl., um það hvernig viðskilnaðurinn hafi verið. Hæstv. fyrrv. fjmrh., Jón Baldvin Hannibalsson, hélt sig við það þorrann og góuna og fram á vor að ríkissjóður yrði rekinn án halla. Í júnímánuði átti hallinn að vera um 500 millj. kr. og í septembermánuði var hann kominn í 700 millj. kr. Hæstv. fjmrh. mótmælti þá skýrslu Ríkisendurskoðunar þar sem talað var um að hallinn á ríkissjóði væri 1,5--2 milljarðar kr. En nú hefur hæstv. núv. fjmrh. sem sé upplýst það í Garðabænum að hallinn sé 5--9 milljarðar kr. samkvæmt frétt í Morgunblaðinu. Að vísu er nákvæmni ekki fyrir að fara og skekkjumörk mikil en vitaskuld er bagalegt að hæstv. utanrrh. skuli vera erlendis þegar málið nú kemur upp. Ég hef auðvitað engin gögn í höndunum um það hvor þessara hæstv. ráðherra segir satt. En fróðlegt væri að vita hvað hæstv. forsrh. vill um málið segja. Hefur hæstv. forsrh. haft samband við utanrrh. sinn af þessu tilefni? Það væri sannarlega ærin ástæða til þess. Og ef svo er: Hvað hefur hann þá um málið að segja? Hvor hæstv. ráðherra segir satt, Ólafur Ragnar Grímsson eða Jón Baldvin Hannibalsson? Eða segja þeir kannski báðir ósatt? Hæstv. forsrh. getur ekki látið sér á sama standa. Hann verður að komast til botns í málinu. Hann hlýtur að ætlast til þess af sínum ráðherrum að þeir beri sannleikanum vitni.
    Fjmrh. er heimilt að hækka ríkisútgjöldin um 600 millj. kr., segir í lagatextanum. Ekki býst ég við að

þessi grein sé þannig hugsuð að hún sé takmarkandi þannig að útgjöld ríkissjóðs megi undir engum kringumstæðum fara fram úr fjárlögum nema um þessar 600 millj. kr. sem hér er talað um. Ekki er það á hæstv. fjmrh. að heyra. Ekki býst ég heldur við að hæstv. forsrh. sé reiðubúinn að lýsa því yfir að núv. hæstv. fjmrh. muni í einu og öllu halda sig innan ramma fjárlaga eftirleiðis nema sérstök lög verði sett um annað. Það mun hann vitaskuld ekki gera svo að lagagreinin er heldur ekki stefnumarkandi fyrir ríkisstjórnina. Lagagreinin er m.ö.o. ekkert nema yfirklór og það sem verra er, móðgandi fyrir Alþingi og íslensku þjóðina þar sem fjmrh. eru engar skorður settar um það hvernig þessum fjármunum skuli varið. Heilum 600 millj. kr. Þeir eru geðlitlir þeir hv. þm. sem styðja þessa ríkisstjórn að láta þetta yfir sig ganga ofan á allt annað sem þetta frv. geymir sem hér er til umræðu. Kosturinn við það er kannski sá einn að frv. er lýsandi fyrir hæstv. forsrh. og ríkisstjórn hans og minnir á hvernig hún komst til valda.
    24. gr. frv. felur í sér heimild til fjmrh. til að semja um og/eða fella niður vangoldinn tekju- og eignarskatt álagðan á árinu 1987 eða fyrr. Það var ranghermt hjá hæstv. forsrh. að síðasta ríkisstjórn hefði samþykkt þá skattaeftirgjöf sem hér er um að ræða. Hitt er rétt að málið kom til umræðu í ríkisstjórninni eftir þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum. Það er nýstárlegt að sjá ákvæði af þessu tagi í bráðabirgðalögum útgefnum nokkrum dögum áður en þing kemur saman. Enn furðulegra að hæstv. fjmrh. skuli hafa lýst því yfir að þetta mál þurfi að athugast betur, ef ég hef skilið hann rétt. Það væri fróðlegt að fá það upplýst, hæstv. forsrh., hvernig þessi 24. gr. er tilkomin og hvort samráð var haft við núv. hæstv. fjmrh. um orðalag hennar.
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir, frv. til laga um efnahagsaðgerðir, endurspeglar það úrræðaleysi sem hvarvetna gætir í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar og dregur dám af því. Hæstv. ríkisstjórn hrósar sér af því að hún vilji treysta atvinnuuppbyggingu í landinu, en tekst ekki betur til en svo að Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambands ísl. samvinnufélaga, getur ekki orða bundist og segir í málgagni hæstv. forsrh. að hann hefði viljað sjá raunhæfari aðgerðir, að í stað verulegra lánveitinga kæmi varanleg bót á rekstrargrundvelli.
    Hæstv. ríkisstjórn segist vilja fylgja góðri byggðastefnu. Jón Sigurðarson, forstjóri Álafoss hf., telur upp stærstu iðnfyrirtækin á Norðurlandi og segir að þau séu skilin eftir í blóði sínu. Það sé einfaldlega rangt að mismuna atvinnuvegunum á þann hátt sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gerir. Þannig er hæstv. ríkisstjórn rúin trausti þeirra manna í atvinnulífinu sem maður gat haldið að stæðu henni næst. Það þarf ekki að spyrja um hina sem fjær standa.
    Ég hef, hæstv. forseti, varpað eftirtöldum fyrirspurnum m.a. til hæstv. forsrh.: Fullvissaði hæstv. forsrh. forseta lýðveldisins um að bráðabirgðalögin hefðu nægan stuðning í báðum deildum Alþingis? Er

þingrofsvaldið í höndum hæstv. forsrh. eins eða voru gerðir um það samningar eins og venja hefur skapast um að hann beitti því ekki nema samþykki samstarfsflokka hans kæmi til? Og ef svo er, er þá hluti þingrofsvaldsins í höndum Stefáns Valgeirssonar eða hefur hann ekkert um það að segja? Hefur ríkisstjórnin ákveðið að flytja frv. um frestun á gildistöku laga um virðisaukaskatt og ef svo er, til hve langs tíma? Er ríkisstjórnin fylgjandi virðisaukaskatti eða andvíg virðisaukaskatti? Er það mat hæstv. forsrh. að krónan sé raunverulega fallin, raungengi hennar sé með öðrum orðum of hátt og þess vegna sé það stefna ríkisstjórnarinnar að fella það smátt og smátt? Og ef svo er, hyggst þá hæstv. ríkisstjórn taka upp fljótandi gengi? Hvor segir satt um halla ríkissjóðs á þessu ári, fyrrv. hæstv. fjmrh. eða núv. hæstv. fjmrh., formaður Alþfl. eða formaður Alþb.?
    Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta frv. sem ég hef nú gert stutt skil.