Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Á síðustu árum hafa verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir vaxið mjög ört hér á landi. Til marks um þennan mikla vöxt, sem verið hefur í þessum viðskiptum, get ég nefnt að í árslok 1985 voru heildareignir verðbréfasjóða um 380 millj. kr. en í árslok 1987 voru þær orðnar 3660 millj. kr. Á tveimur árum höfðu eignir sjóðanna þannig næstum tífaldast að nafnverði, en tæplega sjöfaldast að raungildi.
    Vöxtur verðbréfasjóðanna hefur haldið áfram það sem af er þessu ári. Samkvæmt bráðabirgðatölum jukust heildareignir verðbréfasjóða fyrstu 9 mánuði þessa árs um 69% að nafnverði eða um tæplega 43% að raungildi. Á sama tíma jukust innlán innlánsstofnana að viðbættum áföllnum vöxtum um tæplega 26% í krónum talið eða um 6% að raunverulegu verðmæti. Í árslok 1987 svöruðu útgefin hlutdeildarbréf í verðbréfasjóðum til rúmlega 5% af heildarinnlánum bankakerfisins, en í lok júnímánaðar sl. var þetta hlutfall komið í tæplega 7%. Það er því orðin brýn þörf á því að tryggja öryggi og eftirlit með þessum viðskiptum. Þetta sannaðist rækilega nú í sumar þegar í ljós kom að eitt fyrirtæki sem rak verðbréfasjóði gat ekki staðið við skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum sínum. Það er nauðsynlegt að setja sanngjarnar og öruggar reglur um þetta svið viðskiptalífsins sem einnig haldi í heiðri þá meginreglu að sams konar reglur gildi um sams konar starfsemi.
    Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fyrstu aðgerðir í efnahagsmálum og í stefnuyfirlýsingu hennar segir að sett verði lög um fjármagnsmarkaðinn á grundvelli fyrirliggjandi frumvarpa. Þessi frumvörp fjalla annars vegar um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði og hins vegar um eignarleigu. Auk þess fylgir þeim frumvarp um minni háttar breytingar á lögunum um viðskiptabanka og lögunum um sparisjóði.
    Ég mæli hér á þessum fundi fyrir frv. til laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði sem prentað er á þskj. 1, en það var, eins og hin frumvörpin sem ég nefndi, samið af nefnd sem ég skipaði 16. febr. sl. til þess að fjalla um starfsemi á fjármagnsmarkaði utan banka og sparisjóða og til að semja frv. að lagaramma um þá starfsemi. Ég geri þó eina veigamikla breytingu á þessu verðbréfafrv. frá tillögu nefndarinnar. Þessi breyting varðar heimild til þess að setja á bindiskyldu eins og ég mun víkja nánar að hér síðar.
    Frv. er í raun og veru allmikill lagabálkur í sjö köflum og 39 greinum auk bráðabirgðaákvæða. Frv. sameinar endurskoðuð ákvæði um verðbréfamiðlun nýjum og ítarlegum ákvæðum um rekstur verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða. Með þessu frv. er réttarstaða verðbréfamiðlara, verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða skilgreind og er ætlunin að setja þessum aðilum heillegri starfsramma en áður hefur gilt.
    Það er ljóst að lögin um verðbréfamiðlun nr. 27/1986 eru þegar orðin úrelt vegna hinna öru breytinga á íslenskum fjármagnsmarkaði. Það var því

fyrsta verkefni nefndarinnar að taka þau lög til endurskoðunar. Nefndin samdi síðan ákvæði um verðbréfafyrirtæki og þar næst ákvæði um verðbréfasjóði. Loks samdi hún ákvæði um endurskoðun og eftirlit með þessum fyrirtækjum. Nefndin kynnti sér eftir föngum löggjöf nágrannalandanna um þessi efni; þess má geta að þar er nú víðast hvar unnið að endurskoðun og samræmingu á löggjöf um fjármagnsmarkaðinn, ekki síst vegna ákvörðunar um sameiginlegan innri markað Evrópubandalagsríkjanna árið 1992. Innan fárra ára kann því að verða tilefni til að endurskoða þau lagaákvæði sem hér er gerð tillaga um, en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að unnið verður að samræmingu reglna, er varða starfsumhverfi atvinnurekstrar á Íslandi, þeim reglum sem gilda í löndum Evrópubandalagsins án þess þó að stefnt sé að inngöngu í þetta bandalag. Ég vík svo nánar að efni frv.
    Í I. kafla þess er fjallað um tvö mikilvæg atriði. Í fyrsta lagi er þar fjallað um skilgreiningar á hugtökum sem notuð eru í lögunum. Þrjú fyrstu hugtökin sem þar greinir eru þegar í lögum um verðbréfamiðlun, en hin fjögur sem eftir fylgja, þ.e. verðbréfafyrirtæki, markaðsverðbréf, verðbréfasjóður og viðskiptavaki eru öll nýmæli í íslenskri löggöf. Í öðru lagi er í 2. gr. fjallað um svokölluð innherjaviðskipti en þar er átt við það sem á enska tungu er nefnt ,,insider trading``. Ákvæði 2. gr. um meðferð trúnaðarupplýsinga skýra sig í reynd sjálf. Þó er vert að vekja athygli á því að sökum tiltekinna afbrotamála í Bandaríkjunum og Vestur-Evrópu hafa innherjaviðskipti mjög verið í sviðsljósinu að undanförnu og jafnframt hafa lagaákvæði um þau víða verið tekin til endurskoðunar. Reyndar eru slík ákvæði ekki í lögum nema þriggja ríkja innan Evrópubandalagsins, þ.e. Bretlands, Frakklands og Danmerkur. En lagt hefur verið til innan Evrópubandalagsins að öll aðildarríki þess lögfesti ströng ákvæði gegn innherjaviðskiptum fyrir árið 1992. Í Noregi og Finnlandi eru drög að lagafrv. um þetta efni einmitt til umfjöllunar hjá stjórnvöldum og aðilum að verðbréfamarkaði. Þannig má segja að þær tillögur sem hér eru gerðar séu í tímans straumi hvað þetta varðar.
    Í II. kafla frv. er fjallað um verðbréfamiðlun og koma ákvæðin þar í stað
núgildandi laga nr. 27 frá 1986. Fjallað er um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra manna sem taka að sér verðbréfamiðlun og um verksvið þeirra og ábyrgð. Skilyrðum fyrir leyfi til verðbréfamiðlunar er breytt á þann veg að krafist er sérkunnáttu á þessu sviði, þ.e. að viðkomandi sæki námskeið og taki sérstakt próf. Áður var miðað við almenna háskólamenntun sem alls ekki er víst að feli í sér neina sérstaka kunnáttu í meðferð og miðlun verðbréfa. Þá er krafist trygginga fyrir tjóni sem verðbréfamiðlari kann að valda viðskiptavinum sínum og er þar um að ræða sams konar reglur og nýlega hafa verið settar um ábyrgð fasteignasala. Lagt er til að fjárhæð og skilmálar trygginganna verði ákveðin með reglugerð, en

samkvæmt núgildandi lögum skal leggja fram bankatryggingu að fjárhæð 2 millj. kr. miðað við lánskjaravísitölu maímánaðar árið 1986. Með því að leggja til að tryggingaskilmálar verði nánar ákveðnir með reglugerð er auðveldara að bregðast með skjótum hætti við breytilegum tilvikum sem upp kunna að koma. En ég vil taka það fram að ég geri alls ekki ráð fyrir því að tryggingafjárhæðin lækki frá því sem nú gildir, fremur hið gagnstæða.
    Næstu greinar frv. eru byggðar á núgildandi lögum, en ákvæðin gerð skýrari að fenginni reynslu.
    Í 6. gr. er heimild verðbréfamiðlara til þess að kaupa eða selja verðbréf fyrir eigin reikning þrengd.
    Í 9. gr. er nýtt ákvæði um varðveislu verðbréfamiðlara á verðbréfum viðskiptavina sinna og um ábyrgð hans í því sambandi.
    Í 10. gr. eru sett skýr ákvæði um verksvið verðbréfamiðlara annars vegar og verðbréfafyrirtækis hins vegar. Verksvið verðbréfamiðlara er fyrst og fremst að hafa milligöngu um viðskipti kaupenda og seljenda verðbréfa. En honum er sjálfum óheimilt að reka fyrir eigin reikning verðbréfasjóði eða taka við fjármunum frá almenningi til ávöxtunar gegn útgáfu skuldaviðurkenninga eða hlutdeildarskírteina. Verðbréfamiðlara er einnig óheimilt að veita sölutryggingu á verðbréfum.
    Þriðji kafli frv. fjallar svo um verðbréfafyrirtækin. Sterk verðbréfafyrirtæki eru máttarstólpar verðbréfaviðskipta í öðrum löndum, en hér er í fyrsta skipti fjallað um þau í íslenskri löggjöf. Gert er ráð fyrir því að verðbréfafyrirtæki sem stofnað er í samræmi við ákvæði laganna geti fengið rekstrarleyfi ráðherra. Auk þess sem það rekur verðbréfamiðlun getur verðbréfafyrirtæki einnig tekið við fjármunum viðskiptavina til ávöxtunar í verðbréfum, rekið verðbréfasjóði og því er einnig heimilt að setja sölutryggingu fyrir sölu verðbréfa eins og t.d. spariskírteina ríkissjóðs, en nýlega var einmitt gerður slíkur sölusamningur milli söluaðila og ríkisins.
    Í 11. gr. er fjallað um skilyrði sem uppfylla þarf til þess að stofna verðbréfafyrirtæki. Verðbréfafyrirtæki skal samkvæmt frv. rekið af hlutafélagi með innborguðu hlutafé að fjárhæð a.m.k. 10 millj. kr. Þessa fjárhæð má hækka með hliðsjón af verðlagsbreytingum samkvæmt 38. gr. frv. Þá eru í 11. gr. gerðar kröfur um skipan stjórnar og framkvæmdastjórnar og um endurskoðun reikninga og upplýsingagjöf til bankaeftirlits Seðlabankans.
    Í sérstöku fylgifrv. þessa frv. er lagt til að viðskiptabankar og sparisjóðir hafi heimild til þess að starfrækja verðbréfafyrirtæki og er það undanþága frá almennu banni í banka- og sparisjóðalögum við því að innlánsstofnanir taki þátt í öðrum rekstri.
    Í 12. gr. frv. eru kröfur um eigið fé verðbréfafyrirtækis. Þær eru nú hertar þannig að það skal nema a.m.k. 1% af höfuðstól verðbréfasjóðs eða sjóða sem það rekur. Þá er verðbréfafyrirtæki óheimilt að taka að sér sölutryggingu á verðbréfum fyrir hærri fjárhæð en nemur tuttuguföldu eigin fé fyrirtækisins.
    Í 13. gr. eru ákvæði um ábyrgðir, tryggingar o.fl.

sem hvíla á verðbréfafyrirtækjum. En varðandi kaup og sölu verðbréfa úr eigin eigu er verðbréfafyrirtækjum veitt undanþága í því tilfelli að það hafi formlega tekið að sér að vera viðskiptavaki fyrir tiltekin verðbréf.
    Í 14. gr. eru ákvæði um upplýsingagjöf verðbréfafyrirtækja til viðskiptavina sinna og er m.a. lagt til að Verðlagsstofnun setji nánari reglur um þessar upplýsingar að fengnum tillögum bankaeftirlits Seðlabankans. Þetta ákvæði er nauðsynlegt til þess að samræma upplýsingagjöf um ávöxtun í verðbréfaviðskiptum og í verðbréfasjóðum og til að koma í veg fyrir að þar sé rangt með farið og viðskiptavinir blekktir.
    Um þetta mikilvæga atriði, sem réttnefnt er neytendavernd, er nánar fjallað í athugasemdum með frv.
    Í 15. gr. er mælt fyrir um að útboð markaðsverðbréfa annarra en ríkisskuldabréfa, ríkisvíxla eða skuldabréfaflokka með ríkisábyrgð, eins og t.d. skuldabréfaflokka sem gefnir yrðu út af Byggingarsjóði ríkisins, skuli ætíð fara fram fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja. Þessu ákvæði er ætlað að veita aðilum að verðbréfaþingi Íslands og almennum kaupendum markaðsverðbréfa ákveðna tryggingu fyrir því að bréfin séu gallalaus og frágangur þeirra sé í góðu lagi, en hann kallar á töluverða sérþekkingu sem kannski hefur ekki alltaf verið til staðar. Ríkið og stofnanir þess gefa hins vegar út
markaðsverðbréf í svo stórum stíl að þar er sérhæfð þekking á útgáfunni fyrir hendi. Þá er kveðið á um tilkynningarskyldu varðandi útgáfu og sölu markaðsverðbréfa og um heimild Seðlabankans til þess að ákveða fyrsta söludag nýrra flokka markaðsverðbréfa. Þetta er algengt í öðrum löndum í því skyni að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur í framboði nýrra verðbréfa á markaðnum.
    Ákvæði 16. og 17. gr. eru hér lögð til í því skyni að tryggja stöðu viðskiptavina verðbréfafyrirtækja. Þau þarfnast tæplega frekari skýringa en er að finna í athugasemdum um greinarnar.
    Í IV. kafla frv. er fjallað um verðbréfasjóði, en um þá eru fá ákvæði í núgildandi lögum. Undantekningin er þó 5. gr. laga um verðbréfamiðlun, nr. 27 frá 1986, en hún fjallar reyndar og eingöngu um forstöðu fyrir og endurskoðun á reikningum verðbréfasjóða. Ákvæði IV. kaflans í þessu frv. eru fyrst og fremst miðuð við það að tryggja réttarstöðu þeirra er ávaxta fjármuni sína í verðbréfasjóði gagnvart verðbréfafyrirtækinu sem rekur sjóðinn. Gerðar eru kröfur til þess að eignum verðbréfasjóða og eignum verðbréfafyrirtækja sé haldið vandlega aðskildum. Þá er hér að finna ákvæði um stofnun verðbréfasjóðs, um útgáfu hlutdeildarskírteina og upplýsingaskyldu þeirra sem reka slíka sjóði.
    Í 18. gr. frv. eru ítarleg ákvæði um stofnun verðbréfasjóða og um lágmarksákvæði í samþykktum fyrir slíka sjóði. Þá er gerð krafa til formlegs samnings milli verðbréfasjóðs og verðbréfafyrirtækis

og er fjallað um það hvernig fara skuli með breytingar á samþykktum verðbréfasjóðanna. Í greininni er einnig að finna ákvæði um skyldu til þess að tilkynna stofnun verðbréfasjóðs til bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og um nauðsyn á staðfestingu slíkra samþykkta.
    Í 19. gr. eru svo ákvæði um sérstaka verðbréfasjóðaskrá sem halda skal og um birtingu auglýsinga um staðfestingu á samþykktum verðbréfasjóðs og um breytingar á stjórn og endurskoðendum sjóðsins.
    Í 20. gr. er fjallað um útgáfu hlutdeildarskírteina í verðbréfasjóði. Um skírteinin er síðan nánar fjallað í 21.--23. gr.
    Í 21. og 22. gr. eru gerðar lágmarkskröfur um þau atriði sem fram skulu koma á hlutdeildarskírteininu og um skrá yfir slík skírteini sem eigendur skírteinanna geta fengið aðgang að kjósi þeir í stjórn sjóðsins samkvæmt samþykktum hans.
    Í 23. gr. eru almenn ákvæði um útreikninga á innlausnarverði hlutdeildarskírteina sem ráðherra getur sett um nánari reglur.
    Í 24. gr. eru svo skýr ákvæði þess efnis að eignum verðbréfasjóðs skuli halda aðgreindum frá eignum verðbréfafyrirtækisins sem rekur sjóðinn. Eignir verðbréfasjóðs verða ekki kyrrsettar eða teknar fjárnámi vegna skulda verðbréfafyrirtækis og eigendur hlutdeildarskírteina verða ekki gerðir persónulega ábyrgir vegna skuldbindinga verðbréfasjóðsins umfram verðmæti eigna þeirra í sjóðnum.
    Í 26. gr. eru mikilvæg ákvæði sem koma eiga í veg fyrir hagsmunaárekstur í sambandi við verðbréfaviðskipti verðbréfasjóðsins annars vegar og verðbréfafyrirtækis eða starfsmanna þess hins vegar.
    Í 27. gr. eru ákvæði sem takmarka lántökur og lánveitingar verðbréfasjóðs.
    Í 28. gr. eru ákvæði sem eiga að tryggja áhættudreifingu í verðbréfasjóði. Þannig er t.d. óheimilt að fjárfesta meira en 5% af eignum verðbréfasjóðsins í bréfum sem út eru gefin af einum skuldara eða í hlutabréfum eins fyrirtækis. Þetta gildir þó ekki ef um er að ræða verðbréf með ríkisábyrgð, ábyrgð innlánsstofnunar eða önnur verðbréf sem eru sambærileg að öryggi og verslað er með á verðbréfaþingi Íslands. Þá er óheimilt að fjárfesta meira en 5% af eignum verðbréfasjóðs eða einstakra deilda hans í verðbréfasjóðum sem eru reknir af öðrum verðbréfafyrirtækjum. Þá má verðbréfasjóður ekki eiga meira en 10% af hlutafé í einu félagi. Loks er ekki heimilt að fjárfesta eigur verðbréfasjóðs í fasteignum. Öll þessi ákvæði tel ég vera mjög mikilvæg fyrir öryggi þeirra sem varðveita sparifé sitt í slíkum sjóðum.
    Í 29. gr. eru ákvæði um lausafjárskyldu verðbréfasjóða og er þar miðað við að laust fé verðbréfasjóðs nemi aldrei lægri fjárhæð en tveimur af hundraði af innlausnarverði verðbréfasjóðsins. Í greininni er nánar kveðið á um skilgreiningu á lausu fé í þessu sambandi. Þar er einkum átt við peninga í sjóði og óbundnar innstæður, en einnig verðbréf sem

öruggur kaupandi er að innan eins mánaðar.
    Ég legg áherslu á það að lausafjárhlutfallið sem hér er lagt til er lágmark. Það miðast við það að verðbréfafyrirtæki eða verðbréfasjóðir hafi ævinlega tiltækt fé til að mæta því sem kalla mætti eðlilegar innlausnir hlutdeildarskírteina. Þetta lágmark tekur m.a. mið af reynslu annarra þjóða í þessu efni. Litlar líkur eru á því að verðbréfafyrirtæki eða verðbréfasjóðir muni eiga í erfiðleikum með að uppfylla þetta skilyrði á næstunni m.a. fyrir þá sök að verulegur hluti eigna þeirra eru ýmist stuttar viðskiptakröfur, ríkisvíxlar eða spariskírteini. Hins vegar er ástæða til þess að fylgjast vel
með því hvernig laust fé verðbréfasjóðanna þróast á næstunni og hugsanlegt er að ástæða kunni að reynast til þess áður en langt um líður að endurskoða þessa grein bæði hvað varðar lausafjárhlutfallið sjálft og ekki síður skilgreininguna á því sem telst hér laust fé.
    Í 30. gr. eru ákvæði um það að ráðherra geti heimilað Seðlabankanum að láta sömu reglur gilda um bindiskyldu verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða og gilda um bindiskyldu innlánsstofnana.
    Ég vil vekja sérstaka athygli á þessari grein því um hana var ágreiningur í nefndinni sem frv. samdi. Ég ákvað þó engu að síður að hafa þessi ákvæði í frv. og tel ég vera fyrir því gildar ástæður. Ég bendi á að í nokkrum aðildarríkjum Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunarinnar OECD eru lagaheimildir til að setja bindiskyldu á aðrar fjármálastofnanir en banka og sparisjóði. Ég tel eðlilegt að slík heimild sé einnig fyrir hendi hér á landi.
    Þá tel ég að með þessu ákvæði sé komið á jafnræði milli banka og sparisjóða annars vegar og verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða hins vegar. Ég lít fyrst og fremst á þessi ákvæði í 30. gr. sem öryggisákvæði, eins konar stíflugarð til að koma í veg fyrir að verðbréfafyrirtækin feti sig inn á starfsvettvang innlánsstofnana án þess að á þeim hvíli sömu kvaðir hvað varðar bundið fé. Ef hins vegar er eingöngu um hreina skuldabréfasjóði að ræða, þar sem langtímamarkaðsverðbréf stendur á móti langtímabréfi í formi hlutdeildarskírteinis, eiga kvaðir um bundið fé miklu síður við.
    Í V. kafla frv. eru ítarleg ákvæði um ársreikninga og endurskoðun verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða, en ítarleg reikningsgerð og áreiðanleg endurskoðun reikninganna er auðvitað grundvöllur fyrir viðskiptatrausti þeirra og vörn gegn misferli í rekstrinum.
    Í 31. gr. er ráðherra m.a. veitt heimild til þess að setja reglur um ársreikningana, en nauðsynlegt kann að vera að setja sérstakar kröfur um form þessara reikninga til þess að tryggja betur hagsmuni almennings.
    Í 32. og 33. gr. eru svo ákvæði um endurskoðendur og endurskoðun verðbréfafyrirtækja og verðbréfasjóða.
    Í VI. kafla frv. eru ákvæði um eftirlit bankaeftirlits Seðlabankans með rekstri verðbréfasjóða. Bankaeftirlitið hefur haft slíkt eftirlit með höndum,

annars vegar með stoð í 15. gr. laga um verðbréfamiðlun, nr. 27 frá 1986, þar sem lögfest er að bankaeftirlitið skuli eiga aðgang að öllum gögnum og upplýsingum hjá verðbréfamiðlara og verðbréfasjóði sem varða þessa starfsemi og sem nauðsynlegar eru við framkvæmd eftirlitsins. Eftirlit bankaeftirlitsins hefur reyndar einnig stoð í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði og einnig í lögum og reglugerð um Seðlabankann þar sem kveðið er á um að bankaeftirlitið skuli fylgjast með því að aðrir aðilar stundi ekki viðskiptabanka- og sparisjóðastarfsemi en þeir sem uppfylla skilyrði laga.
    Í 34. gr. frv. eru bankaeftirlitinu hins vegar veittar víðtækar heimildir til þess að fylgjast með rekstri verðbréfasjóðanna og þar er einnig að finna ákvæði um viðbrögð við því að fjárhagur verðbréfafyrirtækis reynist ótraustur. Hér er um ítarlegri ákvæði að ræða en hafa verið í gildi.
    Í VII. kafla frv. eru ýmis sameiginleg ákvæði um þá starfsemi sem um er fjallað sérstaklega í II.--IV. kafla frv. Og þar er að finna viðurlög við brotum á ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.
    Þá eru þar gildistökuákvæði og ákvæði til bráðabirgða sem sett eru til að laga fyrri skipan mála að því fyrirkomulagi sem frv. mælir fyrir um.
    Hæstv. forseti. Ég hef hér gert nokkra grein fyrir meginefni frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Málefni verðbréfasjóða hafa verið mjög í sviðsljósi að undanförnu. M.a. vegna svokallaðs ,,Ávöxtunarmáls``. Þar er um að ræða fyrirtæki sem hafði með höndum blandaða starfsemi á fjármagnsmarkaðnum, en með þessu frv. og frv. um eignarleigu sem ég hyggst einnig flytja nú í þingbyrjun verður slíkur rekstur ekki lengur leyfilegur. Rekstraraðilar verðbréfasjóða á vegum Ávöxtunar áttu sjálfir viðskipti við þessa sjóði sem framvegis verða ólögleg samkvæmt þessu frv. Þá var upplýsingagjöf verðbréfafyrirtækisins til bankaeftirlits mun seinvirkari en krafa er gerð um í frv. Fleiri atriði mætti nefna úr þessu frv. sem ætlað er að koma í veg fyrir að mál eins og ,,Ávöxtunarmálið`` geti komið upp að nýju. En þess skal þó getið að bankaeftirlit Seðlabankans fylgdist að sjálfsögðu með rekstri þessa fyrirtækis samkvæmt gildandi lagaheimildum. En þær heimildir eru þó ekki eins ítarlegar og ótvíræðar og vera þyrfti og ekki eins ítarlegar og ótvíræðar og þær heimildir sem hér er gerð tillaga um að Alþingi veiti í þessu frv.
    Ég vil að lokum taka það fram að ég tel að sú gróska sem verið hefur í rekstri verðbréfasjóða á undanförnum árum sé efnahagslífi okkar að mörgu leyti til góðs. Og það er ljóst að hún hefur aukið sparnað landsmanna.
    Ég á ekki von á því að vöxtur sjóðanna verði jafnör á næstunni og hann hefur verið. Ég tel að nú sé þar vissri mettun náð, en ég er sannfærður um það að sú löggjöf sem ég geri hér tillögu um muni auka traust almennings á verðbréfafyrirækjum og verðbréfasjóðum og þannig verða rekstri þeirra til

góðs.
    Við þurfum að þróa fjármagnsmarkað okkar á þann veg að hann fullnægi betur þörfum almennings og atvinnulífs og setning almennra öryggisreglna, sem almennt eru virtar á markaðnum, eru mikilvægt skref í þá átt.
    Ég legg áherslu á að frv. þetta hljóti skjóta og vandaða meðferð hér í þingdeildinni og ég legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.
    Með leyfi forseta mun ég í þessari ræðu einnig mæla fyrir frv. á þskj. 3 um breytingar á lögum nr. 86 frá 1985 og á lögum nr. 87 frá 1985, en efni þess er að heimila bönkum og sparisjóðum að starfrækja verðbréfafyrirtæki samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Þetta frv. er að sjálfsögðu fylgifrv. verðbréfafrv. þess sem ég hef þegar gert grein fyrir. Með frv. á þskj. 3 er lagt til að viðskiptabönkum og sparisjóðum yrði heimilt að reka verðbréfafyrirtæki þótt þeir megi yfirleitt ekki að öðru leyti bera ábyrgð sem þátttakendur eða meðeigendur í rekstri annarra félaga samkvæmt ákvæðum viðskiptabanka- og sparisjóðalaga.
    Ég legg til, hæstv. forseti, að þessu frv. um breytingu á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði verði einnig að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr. og það fái að hafa samfylgd með frv. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði.