Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið lagt fram stjfrv., að því er sagt er, um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði. Það hefur þegar komið fram að það er ekki meiri hluti stjórnarþingmanna sem styður frv. nema með ákveðnum skilyrðum eins og kom hér fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. þar sem hann sagðist ekki styðja þetta og ekki vera bundinn þessu nema þær tillögur sem hann var með væru teknar til greina. Það er því ljóst að frv. fer ekki í gegn nema með stuðningi stjórnarandstöðunnar.
    Borgaraflokkurinn hefur verið og er sammála frv. að stórum hluta. Þau mál sem hér eru tekin til umfjöllunar og á að setja lög um eru mjög tímabær. Það er nauðsynlegt að setja strangar og góðar reglur um verðbréfasjóði því að vöxtur þeirra hefur verið allmikill á undanförnum árum þótt þeir séu tiltölulega litlir miðað við heildarsparnað í landinu eins og kom réttilega fram í máli hv. 1. þm. Reykv.
    Það sem liggur hins vegar fyrir er mjög flókið mál og góðan tíma þarf til að skoða það. Vona ég að fjh.- og viðskn. fari mjög ítarlega í gegnum þetta til að kanna hvort ekki eru frekari hnökrar á. Ég hef þegar rekist á alla vega ein þrjú atriði sem ég tel að betur mættu fara. Það er í fyrsta lagi það að í 11. gr. er ákveðið að fyrirtækið sé hlutafélag með innborguðu hlutafé að fjárhæð a.m.k. 10 millj. kr. Ég vil að það verði aðeins skoðað varðandi þau fyrirtæki sem þegar eru fyrir hendi hvort þau í rauninni ráða við þetta og það sé þá tekið til greina.
    Í öðru lagi hefði vantað kafla og sérstaka grein um tölvuviðskipti eða tölvubréf sem eru að ryðja sér til rúms erlendis. Væri mjög nauðsynlegt að taka það upp og skoða nánar þau mál.
    Í þriðja lagi er 30. gr. um bindiskyldu sem ég tel að ætti ekki að vera því að það væri ekki til bóta að binda sjóðina með þessum hætti. Ég vil þá sérstaklega koma inn á það að það liggur í loftinu óvissa vegna áætlana um að skattleggja þessa sjóði eða tekjur af þeim viðskiptum. Það væri mjög gott að einnig kæmi fram með hverjum hætti það yrði.
    Ég lýsi svo yfir ánægju minni með það að Alþb. skuli standa að þessu stjfrv. því að það er þá gott að vita að þeir skuli styðja þessa nýjung í fjármálastarfsemi. Ég vona fyrir hönd Borgarafl. að þetta verði afgreitt fljótlega eins og hér hefur verið óskað eftir, en þó að það verði farið mjög vel yfir málið. Ég vek athygli á því að þetta mál er mjög brýnt, en ég minni þó á, eins og hv. 1. þm. Reykv. kom inn á í sínu máli, að hér vantar einnig reglur um hlutabréfamarkaði. Ég óska eftir því að hæstv. viðskrh. muni beita sér fyrir því að sett verði löggjöf á því sviði einnig.
    Að öðru leyti lýsi ég yfir stuðningi mínum við frv. í meginatriðum og vona að það fái fljóta og góða afgreiðslu.