Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

    Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Sú meginregla hefur verið í heiðri höfð á undanförnum þingum að umræður sem þessar hafa átt sér stað í sameinuðu þingi. Þó að ég skilji fullkomlega að hæstv. fyrrv. forsrh. sæki það ekki fast að hér séu framkvæmdar nema hinar minni umræður utan dagskrár um þetta mál hefði ég talið eðlilegt að sú umræða færi fram í sameinuðu þingi og er ég vissulega þeirrar skoðunar að rýmri ræðutími hefði átt að vera því að umræðuefnið er stórt. Ég vil spyrja forseta þessarar deildar hvort einhver stefnubreyting hafi orðið hjá forsetum þingsins varðandi það efni að gert sé ráð fyrir að umræður utan dagskrár verði í deildum. Ég tel það mjög bagalegt vegna þess að í deildum er unnið að löggjafarstarfi og má ekki af þeim tíma taka en ástæðulaust er annað en að viðhalda því sem hér hefur verið að umræður utan dagskrár fari fram í sameinuðu þingi.