Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Í 32. gr. þingskapa, bls. 19 í þingsköpum Alþingis, dags. árið 1985 og hefur ekki verið breytt síðan, segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Í allt að hálftíma á venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi geta þingmenn fengið tekin fyrir mál utan dagskrár, hvort heldur er í formi yfirlýsingar eða fyrirspurnar.``
    Ég sé ekki ástæðu til að lesa lengra en greinin er miklu lengri. Það er ekkert í þingsköpum sem leyfir utandagskrárumræður eða fyrirspurnir nema í sameinuðu þingi. Það er ekkert. En það er rétt hjá forseta að það er fordæmi fyrir því að fsp. hafi verið teknar upp í deildum. Miðað við það afbrigðilega ástand sem ríkir í fundartímum Alþingis og þeim fundum sem falla niður í líklega tvær vikur í Sþ. tel ég að það hafi verið rétt ákvörðun hjá forseta að leyfa fyrirspurnina á deildarfundi í dag sem er alger undantekning. Og ég vona að við getum hér eftir farið inn á brautir þingskapa í fyrirspurnatímum.