Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

    Sighvatur Björgvinsson:
    Herra forseti. Ég ætla að ræða efnisatriði þessa máls, en láta önnur atriði þess fram hjá mér fara. Það er auðvitað alveg ljóst að það hefur legið fyrir og allir hv. þm. hafa vitað það um nokkurn tíma a.m.k. að ýmsir þættir ytri aðstæðna hafa valdið því að fyrst og fremst spá fjárlaga um tekjuhlið þeirra hefur ekki reynst vera rétt. Þetta er ekkert nýtt vegna þess að þetta fengu óbreyttir þingmenn vitneskju um að mig minnir um mánaðamótin ágúst/september þegar Ríkisendurskoðun dreifði til hvers einasta þingmanns úttekt sinni á framkvæmd fjárlaga og horfum á fjárlagaárinu 1988. Ég trúi því vart að ráðherrar í hæstv. fyrrv. ríkisstjórn hafi verið minna upplýstir um þau mál heldur en hv. þm. almennt.
    Fjárlögin eru vissulega að meginhluta til byggð á spá, spá í upphafi árs um það hvað líklegt sé að t.d. tilteknir tekjustofnar muni skila ríkinu í tekjum. Eins og hv. þm. vita mætavel var gerð gjörbylting á tekjustofnamálum ríkissjóðs á síðasta Alþingi. Menn breyttu öllum stærstu tekjustofnum ríkissjóðs mjög verulega og þegar menn gerðu spá um líklegar tekjur ríkisins eftir þær breytingar gátu menn ekki stuðst við nema mjög takmarkaða reynslu því menn voru með nýja tekjustofna sem þeir voru að áætla tekjurnar af. Og m.a. vegna þess að hæstv. fyrrv. ríkisstjórn náði allverulegum árangri í því að slá á þenslu í þjóðfélaginu kom það þannig fram seinni hluta ársins og er að koma fram núna að tekjustofnar eins og t.d. sölugjöld og aðflutningsgjöld reynast vera minna verðir fyrir ríkissjóð en áætlað var í upphafi ársins. Einnig hefur það komið í ljós, eins og líka hefur komið fram opinberlega, bæði sjálfsagt í hæstv. fyrrv. ríkisstjórn og eins gagnvart öllum almennum þingmönnum, að t.d. staðgreiðsluskattur fyrirtækja hefur ekki skilað jafnmiklum tekjum og áætlað var í upphafi árs. Þetta ræður að sjálfsögðu enginn fjmrh. við. Og þetta er einnig að nokkru leyti árangurinn af því að hæstv. fyrrv. ríkisstjórn tókst að slá á þá þenslu sem talið var eitt helsta vandamál í íslenskum efnahagsmálum og talið hefur verið eitt af helstu vandamálum í íslenskum efnahagsmálum lengi.
    Á þessari stundu, herra forseti, held ég að það sé ekkert hægt að fullyrða um hvernig niðurstaðan úr ríkisfjármáladæminu verður árið 1988. En það held ég að sé óhætt að fullyrða að reynist hún ekki eins og spáð var í upphafi árs er ástæðnanna ekki að leita í því að útgjöld ríkisins hafi farið úr böndunum heldur í hinu að vegna gerbreytinga á tekjustofnum ríkissjóðs gátu menn ekki spáð rétt í þær tekjur sem ríkið mundi hafa og ríkissjóður af hinum nýju tekjustofnum.