Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Birgir Ísl. Gunnarsson:
    Herra forseti. Það fer auðvitað ekkert milli mála að í síðustu ríkisstjórn fóru oft fram umræður um fjármál ríkisins. Hv. 1. þm. Suðurl. hefur rifjað upp tölur í því sambandi sem lagðar voru á borð þáv. ríkisstjórnar frá fyrrv. hæstv. fjmrh., núv. hæstv. utanrrh. Í ágústmánuði var dreift til ríkisstjórnarinnar sérstakri skýrslu frá Ríkisendurskoðun, henni var dreift sem trúnaðarmáli, þar sem fram kom að halli á ríkissjóði mundi verða mun meiri en upplýst hafði verið í ríkisstjórninni fram til þessa eða um 1 1 / 2 til 2 milljarðar. Þetta kom auðvitað á óvart. Hæstv. þáv. fjmrh. tók sér frest áður en þessi grg. var birt til þess að láta grandskoða í fjmrn. hver væri sannleikur þessa máls og svokölluð hagdeild fjmrn. fór sérstaklega ofan í það mál --- sumir hafa reyndar kallað hana hina pólitísku deild í ráðuneytinu. Niðurstaðan varð sú að hæstv. fjmrh. lagði fram í byrjun september ítarlega grg. til ríkisstjórnarinnar um það að halli á fjárlögum þessa árs mundi verða 700 millj. kr., í byrjun september, fyrir rúmum mánuði. Nú er það hins vegar upplýst af núverandi hæstv. utanrrh. að þessar tölur, sem þáv. hæstv. fjmrh. lagði á borð og áttu að vera til að upplýsa ríkisstjórnina nákvæmlega um stöðu mála, hafi ekki reynst réttari en svo að hann talar stundum um 3--4 milljarða eða stundum að það þurfi að leggja á nýjan skatt upp á 5--9 milljarða til þess að ná endum saman og vill kenna um ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar.
    Þetta er nauðsynlegt að upplýsa hér, hvernig gangur þessa máls hefur verið, vegna þess að það er einungis tvennt til: annaðhvort vissi þáv. fjmrh. ekki betur, hafði ekki betra vald á fjárreiðum ríkisins en raun ber vitni eða hann var vísvitandi að skýra fyrrv. ríkisstjórn rangt frá. Þetta finnst mér nauðsynlegt að fram komi í umræðu af þessu tagi. Hinu megum við heldur ekki gleyma, að núv. hæstv. fjmrh. vill auðvitað reyna að sverta stöðu ríkissjóðs eins og mögulegt er til þess að hann geti fengið afsakanir fyrir því að leggja á þá milljarða, jafnvel allt upp í milljarðatug af nýjum sköttum sem hugur hans stendur til.