Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Ragnhildur Helgadóttir:
    Herra forseti. Um upphafsorð hæstv. fjmrh. í ræðu hans nú áðan vil ég segja: Lengi getur vont versnað. Það er ljóst að viðhorf þessarar hæstv. ríkisstjórnar til Alþingis og hins mikla grundvallarvalds Alþingis er afar einkennilegt. Þetta viðhorf birtist m.a. í því að í fyrsta lagi eru bráðabirgðalög sett rétt áður en þing kemur saman með ýmsum ákvæðum sem eru af því tagi að harla erfitt er að fallast á að þau hafi verið nauðsynleg eins og á stóð. Og ekki nóg með það. Síðan kemur líka í ljós að forsendan fyrir bráðabirgðalögunum hefur verið allsendis óljós. Hér velta menn því fyrir sér og segja blákalt, talsmenn hæstv. ríkisstjórnar, og fyrst og fremst hæstv. fjmrh., að hallinn, sem kynntur var ríkisstjórninni í byrjun september, hafi trúlega jafnvel meira en tífaldast. Og hvernig á að skilja yfirlýsingar hæstv. fjmrh. öðruvísi en sem harkalega gagnrýni á núverandi samstarfsmann hans, núv. utanrrh., fyrrv. fjmrh.? Það get ég ekki séð. Það er auðvitað algerlega ljóst að þessar yfirlýsingar sýna að það er ekki nóg með það að ríkisstjórnin sé ekki starfhæf stjórn heldur virðist hún ekki vera samstarfshæf innbyrðis. Ég held að það sé þegar komið á daginn.
    Og annað, herra forseti, sem mig langaði til þess að nefna, er það að ég vildi þakka fyrir að þessi umræða fer fram, sérstaklega vegna þess að hér er verið að deila um mikilvæga forsendu fyrir því lagafrv. sem er verið að ræða inni í hv. Ed. og það er lágmark að Alþingi sé upplýst um við hversu margra milljarða vanda er verið að fást þegar málin eru komin til umræðu á Alþingi. Ég leyfi mér að vonast til þess þegar þessari umræðu lýkur í dag að henni verði haldið áfram þegar hæstv. utanrrh. er við svo að hann geti skýrt þessi mál og hvernig upplýsingar ganga á milli innan hæstv. ríkisstjórnar.