Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Það eru gagnlegar umræður sem hér fara fram að flestu leyti a.m.k. Ég vil byrja á því að lýsa yfir talsverðri furðu minni vegna fyrstu ræðu hæstv. fjmrh. í því gervi hér í hv. deild, en mér fannst sú ræða ekki vera stórmannleg. Meginuppistaða ræðunnar var þessi: Það eru forsætisráðherrar sem bera ábyrgð á því sem fjármálaráðherrar gera. Og geta menn þá vel hugsað sér hvernig framhaldið verður hjá þessum nýja hæstv. ráðherra.
    Síðan bætir hann við að hv. 1. þm. Suðurl. sé að koma höggi á hæstv. utanrrh. sem sé staddur erlendis. Má ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvar var Jón Baldvin Hannibalsson utanrrh. sl. laugardag? Var hann í Garðabænum? Var hann heima hjá Bryndísi? Var hann ekki jafnmikið erlendis og hann var í dag? Það væri gaman að heyra hvort núv. hæstv. fjmrh. hafi ekki vitað það sl. laugardag hvar utanrrh. var og þá kannski skýrist hver sé að koma höggi á hvern.
    Ég þarf ekki að ítreka það sem hér hefur komið fram. Upplýst var um 700 millj. kr. hallann í september. Fjmrh. skrifaði langa greinargerð til að mótmæla Ríkisendurskoðun sem gaf í skyn meiri halla. Núv. hæstv. ríkisstjórn hefur lýst því yfir með bráðabirgðalögum að auka eigi ríkissjóðshalla um 600 millj. beinlínis með lagaákvæði. 800 millj. til viðbótar, sem fara til millifærslu, detta á ríkissjóð samkvæmt yfirlýsingu hæstv. sjútvrh. Peningar eru teknir til þess að láta í sjóð sem kallast Atvinnutryggingarsjóður. Allt á þetta að falla á ríkissjóð, á skattborgarana. Þetta liggur ljóst fyrir. Ég held að ástæðan fyrir því að hæstv. ráðherra ráðist með þessum hætti, þessum sérkennilega hætti sem hann er vanur að ráðast á fólk með, sé vegna þess að fyrir nákvæmlega ári fóru fram umræður í þessum sal. Þá sagði hæstv. ráðherra sem þá var varaþingmaður og kom inn á hv. Alþingi eins og nú, hann er varaþingmaður, tekinn inn hér í dag, um þáv. fjmrh. í 152. dálki í þingtíðindum:
    ,,Það stendur þess vegna, hæstv. fjmrh., enn þá á þér krafan um að draga matarskattinn til baka. Þegar þú ert búinn að því getur þú komið og rætt við samtök launafólks. Fyrr en þú gerir það ert þú brennimerktur sem maður sem ekki er hægt að treysta.``
    Þetta eru orð núv. fjmrh. um fyrrv. fjmrh. Nú er hæstv. fjmrh., sem hér er staddur, kominn í þá stöðu að geta afnumið matarskattinn. Hann þarf að finna sér afsökun og svona fer hann að. Er þetta stórmannlegt? Ég spyr bara.