Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það er næsta kynlegt að hlusta á hæstv. fjmrh. fara hér á handahlaupum undan þeim spurningum sem er beint til hans. ( Fjmrh.: Hún var bara ein.) Við skulum taka upp umræður um stefnuna í atvinnumálum. Við skulum taka upp umræður við Alþb. og fyrrv. samstarfsflokka okkar um stefnuna í atvinnumálum. Það slitnaði upp úr samstarfinu í fyrrv. ríkisstjórn vegna ágreinings um með hvaða hætti ætti að taka á þeim vanda og núv. hæstv. fjmrh. veit að þessi hæstv. ríkisstjórn er ekki að leysa vanda atvinnuveganna. Þar þurfti aðrar og miklu róttækari og almennari aðgerðir til.
    Það er alkunn aðferð að koma höggi á Kína með því að skamma Albaníu. Auðvitað tek ég á mig ábyrgð á forustu í síðustu ríkisstjórn og víkst ekki undan ábyrgð á störfum einstakra ráðherra í þeirri ríkisstjórn. Og það var einmitt þess vegna sem ég vakti máls á ræðu hæstv. fjmrh. sem var flutt í Garðabæ eftir að utanrrh. hæstv. fór til útlanda, fyrrv. fjmrh. Þá fyrst sá arftakinn ástæðu til þess að koma fram með upplýsingar, eins og hann sagði, um það að viðskilnaður fyrrv. ríkisstjórnar, forsrh. og fjmrh., hafi verið allt annar en í veðri var látið vaka. Nú segir hann að 5--9 milljarðar hafi verið skuldaskil vegna atvinnuveganna. Í blaðaviðtölunum er þó greinilega sagt að það sé tilefni til skattahækkana, og í Þjóðviljanum segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Það þurfti nokkra milljarða í sérstakri aukaskattheimtu eingöngu til að standa skil á þeim skuldum sem ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar skilur við sig`` --- og væntanlega samstarfsráðherra hans, hæstv. utanrrh., skilur við sig. Með öðrum orðum, í ræðu hér áðan segir hann: Ég var bara að tala um vanda atvinnuveganna. Í ræðunni í Garðabæ og í fjölmiðlunum segir hann: Ég er að finna mér tilefni til þess að auka skattheimtuna í landinu. Þannig hringsnýst hæstv. fjmrh. úr einni ræðunni í aðra.
    Ég get tekið undir það sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf. að áætlanir fjárlaga geta breyst af ýmsum ástæðum og mér er fullkomlega ljóst að fyrrv. ríkisstjórn réð ekki við að standa þannig að málum að fjárlögin sem voru afgreidd með nokkrum tekjuafgangi yrðu það við lok fjárlagaársins. Mér er það fyllilega ljóst. Hæstv. fjmrh. segir hins vegar nú að það stafi af gengisbreytingu í maí. Með gengisbreytingunni í maí var tekin um það ákvörðun af fyrrv. ríkisstjórn að breyta ekki útgjaldaliðum fjárlaga vegna gengisbreytingarinnar. Í því var fólgin ákvörðun um verulegan sparnað og aðhald í ríkisrekstrinum og mér er ekki kunnugt um annað en að bæði fyrrv. fjmrh. og aðrir ráðherrar hafi átt um það mjög góða samstöðu að framfylgja þessari ákvörðun ríkisstjórnarinnar þannig að út af fyrir sig er þetta ekki ástæða fyrir því að aðstæður hafa breyst í þessu efni. En eftir stendur eftir þessa umræðu að hæstv. fjmrh. hefur umræður um það, eftir að forveri hans er farinn til útlanda, á fundi í flokksfélagi sínu að viðskilnaðurinn er verri en hann vildi láta í veðri vaka. Eftir stendur að í fyrrv. ríkisstjórn lágu fyrir upplýsingar um að hallinn yrði

um 700 millj. kr. á þessu ári. Hæstv. fjmrh. hefur opinberlega á almennum fundi og í fjölmiðlum haldið því fram að þessar tölur séu rangar og hann treystir sér ekki til þess nú þegar kemur til fundar á hinu háa Alþingi að standa við þau stóru orð. Það er það sem eftir stendur þegar þessari umræðu er lokið.