Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Já, öllum er ljóst að ekki er vanþörf á að ræða þessi mál, sem sagt viðskilnaðinn, hvernig hann var, hvaða búi sú ríkisstjórn, sem nú situr, tekur við. Hins vegar er það ekkert nýtt að fjárlög hafa ekki staðist. Það er margt sem þar kemur til greina og ekki síst verðbólgan, spáin um hana og hvernig sú spá svo reynist. En það eru ekki einungis ríkisfjármálin sem þarf að ræða um. Það er einnig hvernig umhorfs er í landinu hjá atvinnuvegunum, hjá einstaklingum, hvernig atvinnuástandið er að verða. Þetta þarf að verða bæði okkur og þjóðinni ljóst.
    Þeim sem ferðast um landið og hitta fólkið þar hlýtur að vera ljóst, og ég trúi ekki að fyrrv. ráðherrum sé það ekki ljóst, að það er allt eða a.m.k. víða mjög dökkt. Það eru mörg gjaldþrot hvern dag. Tugum og jafnvel hundruðum fólks er sagt upp atvinnunni á þeim tíma sem venjulega er næg atvinna. Það er þessi viðskilnaður sem þarf að ræða og reyna að bæta fyrir það sem gert hefur verið þannig að einstaklingar missi ekki húsnæði sitt í hundraðavís, að fólk hafi atvinnu og að séð verði um að þau fyrirtæki sem halda uppi atvinnunni geti starfað áfram.
    Þetta ástand er fyrst og fremst vegna fjármagnskostnaðar á sl. ári. Það skal mönnum vera ljóst. Þar er fyrsta og stærsta yfirsjón fyrrv. ríkisstjórnar og ég ætla að láta fyrrv. ráðherra rífast um hverjum það var að kenna.