Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Albert Guðmundsson:
    Hæstv. forseti. Hæstv. fyrrv. forsrh. spurði: Gaf fyrrv. fjmrh. rangar upplýsingar um stöðu fjármála? Mér fannst þetta vera spurning sem er nauðsynlegt að fá svar við en hæstv. núv. fjmrh. virtist hafa komist í rökþrot vegna þessarar spurningar einnar saman og það er gaman --- það setur stóran og mikinn svip á þingið því það er alltaf gaman þegar hann kemst í rökþrot því þá stekkur hann í sókn með klærnar úti þó svo að við honum blasi þegar hann kemur niður einhver forarpollur, hann stekkur. En ástæðan fyrir spurningu hæstv. fyrrv. forsrh. er sú að hæstv. fyrrv. fjmrh. taldi tiltölulega nýlega að ríkissjóðshallinn verði talinn í hundruðum milljóna króna þrátt fyrir það að stefnt hafi verið að tekjuafgangi í ár. En hæstv. núv. fjmrh. telur halla ríkissjóðs stefna í þúsundir milljóna sem þýðir stóraukna skattheimtu og það munar þjóðina miklu, það munar þjóðina öllu, hvor fjmrh. fer með rétt mál. Er þetta rétt hjá fyrrv. fjmrh.? Er væntanlegur halli í hundruðum milljóna eða er væntanlegur halli ríkissjóðs talinn í þúsundum milljóna? Það má nú spyrja um minna en þetta.
    Ég stend utan við uppgjör á milli fyrrv. og núv. stjórnarherra en tel mig eiga kröfu til, eins og allir þjóðfélagsþegnar, að fá að vita hið rétta um stöðu ríkissjóðs og framtíðarhorfur.
    Formaður fjvn., hv. þm. Sighvatur Björgvinsson, kemur í ræðustól og gefur skýringu fyrir hönd hæstv. fjmrh., beggja fjmrh., og segir að aukinn halli sé vegna kerfisbreytingar á tekjukerfi ríkisins. Hringl Alþfl., breytingar breytinganna vegna, sem hefur leitt til glötunar, og svo koma þeir nú og segja: Áætlanir voru rangar vegna þess að kerfið sem við tókum upp reyndist ekki það sem við áttum von á.
    Ég vil bara bæta því við að þetta tal fjármálaráðherranna um þúsundir millj. kr. halla á ríkissjóði á árinu skapar ótta með fólkinu svo að fyrirspurnin sem kom fram í dag á fyllilega rétt á sér. Það veit ég að við erum sammála um, hæstv. núv. fjmrh. og ég.