Viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti, aðeins örstutt athugasemd.
    Hæstv. fjmrh. fór á fund í flokksfélagi sínu til þess að segja að yfirlýsingar fyrrv. ríkisstjórnar, fjmrh. og forsrh., um viðskilnað í fjmrn. hafi verið rangar og hann belgdi þær yfirlýsingar út í fjölmiðlum. Hann hefur hins vegar ekki fengist til þess að svara því klárt og ákveðið hér í umræðunni hvort þau skjöl sem fjmrn. lagði fyrir í septembermánuði og lok ágústmánaðar um 700 millj. kr. væntanlega halla séu rétt eða röng eða hvort ráðuneytið hefði mátt sjá annað fyrir. Hitt er þó alvarlegast sem hæstv. ráðherra sagði hér: Eftir að hafa farið á fund í flokksfélaginu til þess að segja tölurnar, sem liggja á borðinu og hafa verið birtar opinberlega á grundvelli upplýsinga frá fjmrn., vera allar rangar kemur hann inn á Alþingi og segir: Ég fer ekki að gera Alþingi grein fyrir því. Þó að einhverjir þm. fari að spyrja um það hver þessi viðskilnaður er fer ég ekki að gera Alþingi grein fyrir því. Ég skal fara með dylgjur inn á fund í flokksfélaginu hjá mér og segja að þeir hafi verið að skrökva en ég fer ekki að gera hinu háa Alþingi grein fyrir því. Þetta er nú virðingin sem hinn nýi hæstv. fjmrh. ber fyrir Alþingi og ég trúi því tæpast að um þetta eigi stjórnarflokkarnir allir samleið, að bera þessa litlu virðingu fyrir Alþingi.