Ríkisábyrgð á launum
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Flm. (Lára V. Júlíusdóttir):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyt. á lögum nr. 23 frá 28. maí 1985, um ríkisábyrgð á launum. Flm. með mér að þessu frv. er Jón Sæmundur Sigurjónsson.
    Frv. gerir ráð fyrir breytingu á lögum um ríkisábyrgð á launum, á 10. gr. laganna þannig að greinin orðist svo:
    ,,Hafi krafa samkvæmt lögum þessum á hendur ríkissjóði verið framseld glatast réttur til greiðslu hennar úr ríkissjóði. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans eftir að skiptameðferð á búi vinnuveitandans hófst, né heldur ef krafan hefur verið að fullu eða að hluta til framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.``
    2. gr. laganna fjallar um það að lögin öðlist þegar gildi.
    Tilgangur þessa frv. er fyrst og fremst sá að skapa starfsmönnum gjaldþrota fyrirtækja svigrúm til að fá greiddar atvinnuleysisbætur á meðan beðið er eftir greiðslu úr ríkissjóði skv. lögum um ríkisábyrgð á launum.
    Lög um ríkisábyrgð á launum hafa gilt hér allt frá árinu 1974. Á árinu 1985 voru þau endurskoðuð og gildandi lög eru nr. 23 frá 1985. Tilgangur þeirrar endurskoðunar var einmitt að sníða af þá annmarka sem voru á lögunum frá 1974, en þrátt fyrir það hafa enn komið í ljós gallar á lögunum og þessu frv. er ætlað að sníða að mínu mati stærsta gallann af lögunum eins og þau eru í dag.
    Það er alkunna og hefur borið hér á góma í þinginu í dag að gjaldþrot fara mjög í vöxt hér á landi og þeir starfsmenn, sem láta af störfum vegna þess að fyrirtæki sem þeir starfa hjá verða gjaldþrota, eru æ fleiri.
    Einn stærsti gallinn á því kerfi sem við búum við er sá langi tími sem líður frá því að fyrirtækið verður gjaldþrota og þar til launamaður fær laun sín greidd skv. lögunum um ríkisábyrgð á launum þar sem nokkrir mánuðir líða frá því að fyrirtæki er lýst gjaldþrota þar til krafa er endanlega gerð upp hjá ríkisábyrgð á launum. Þennan tíma sem líður er launamaður launalaus og hefur það valdið verulegum vandkvæðum þegar þannig hefur staðið á.
    Ákvæði laganna um ríkisábyrgð á launum kveða á um að launakrafa sé send félmrh. eftir að bú atvinnurekanda hefur verið lýst gjaldþrota jafnframt því sem lýsa skal kröfunni í þrotabúið. Þegar félmrh. hefur síðan borist greiðslukrafan, þá skal hann leita umsagnar skiptaráðanda áður en krafan er greidd út. Þótt skiptaráðanda sé heimilt að taka afstöðu til kröfunnar án undangengins skiptafundar hefur reynslan sýnt að þessi ferill er æði tímafrekur, einkum þegar gjaldþrot verða úti á landi. Þótt starfsmenn leiti aðstoðar verkalýðsfélags og lögfræðinga við frágang þessara krafna, þá fer mikill tími í bréfaskriftir og bið eftir afstöðu þeirra sem afstöðu eiga að taka og á meðan býr starfsfólkið við það að fá engin laun greidd.
    Ég minni á það ástand sem skapaðist fyrir

nokkrum dögum á Ísafirði þegar rækjuvinnsla O. N. Olsen varð gjaldþrota og fólkið stóð uppi launalaust og þarf að bíða í nokkra mánuði eftir að fá bætur vegna gjaldþrotsins.
    Fyrir nokkrum árum var sú leið reynd þegar svona stóð á að benda fólki á að sækja um atvinnuleysisbætur. Atvinnuleysistryggingasjóður greiddi bætur vegna tveggja fyrirtækja sem urðu gjaldþrota, þar á meðal Blikksmiðjunnar Vogs í Kópavogi, og síðan voru bætur Atvinnuleysistryggingasjóðs dregnar frá kröfunni í þrotabú atvinnurekanda, en þegar Atvinnuleysistryggingasjóður hugðist síðan endurkrefja félmrn. um þessar greiðslur, þá var erindi sjóðsins synjað með vísan til álitsgerðar ríkislögmanns þar sem hann taldi að félmrh. væri ekki skylt að endurgreiða Atvinnuleysistryggingasjóði útgreiddar atvinnuleysistryggingabætur.
    Eftir að þessi afstaða ráðuneytisins lá fyrir í nóvember 1985 hefur Atvinnuleysistryggingasjóður alfarið hafnað því að greiða atvinnuleysisbætur þegar svona hefur staðið á þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um og hefur sjóðurinn í rökstuðningi sínum vísað til þess að ekki sé heimild til að greiða atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem umsækjandi á kröfu á launum fyrir og vísar þar með til bréfs félmrn. á sínum tíma sem studdist við álit ríkislögmanns.
    Það frv., sem hér er lagt fram, gerir ráð fyrir því að heimild 10. gr. laga um ríkisábyrgð á launum sé rýmkuð þannig að Atvinnuleysistryggingasjóði verði veitt heimild til að ganga inn í kröfu launamanns um bætur vegna launa á uppsagnarfresti með sama hætti og verkalýðsfélögum er heimilt í dag. Þegar kröfu verður síðan lýst í þrotabú liggur fyrir hversu háa upphæð viðkomandi launamaður hefur fengið greidda frá Atvinnuleysistryggingasjóði og sú upphæð verður síðan dregin frá kröfu hans. Þetta er svona einfalt uppgjör sem fer þá fram á milli Atvinnuleysistryggingasjóðs og ríkissjóðs.
    Þótt nú sé fyrir hendi heimild fyrir verkalýðsfélög að ganga inn í kröfur launafólks við gjaldþrot er það fátítt að félögin treysti sér að ganga inn í kröfurnar. Þar ræður mestu hversu háar launaupphæðirnar eru. Það er einungis á færi stærri félaganna að leggja slíkar fjárhæðir út. Þannig er fólki í raun
mismunað eftir því hversu stór gjaldþrotin eru og hvar á landinu þau eiga sér stað.
    Það er hlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs að greiða fólki bætur í atvinnuleysi og með þeirri leið sem hér er lögð til verður sjóðnum gert kleift að endurkrefja ríkissjóð um þær bætur sem starfsmenn gjaldþrota fyrirtækja eiga rétt til og launafólk þarf ekki lengur að bíða í vikur og mánuði eftir launum sem það sannanlega á rétt á.
    Það er rétt að taka það fram að kostnaður við þetta frv. er enginn. Hér er einungis um það að ræða að sveigjanleiki í ríkiskerfinu verði aukinn þannig að Atvinnuleysistryggingasjóði verði gert kleift að greiða út bætur þegar þessar aðstæður skapast. Ég vil ítreka það að daglega berast fréttir af nýjum gjaldþrotum.

Það eru æ fleiri starfsmenn sem standa uppi launalausir vegna þess að fyrirtækin eru gjaldþrota. Atvinnuástand á mörgum þessum stöðum er afar bágborið þannig að þarna er fjöldi fólks sem stendur uppi slyppur og snauður og þarf að sæta því að bíða í mánuði og jafnvel ár eftir uppgjöri úr ríkisábyrgð á launum.
    Ég vil að lokum leggja til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og félmn.