Ríkisábyrgð á launum
Þriðjudaginn 18. október 1988

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Láru V. Júlíusdóttur fyrir þetta frv. sem er mjög þarft. Hún rekst náttúrlega oft á það í sínu starfi hversu nauðsynlegt það er að svona lög séu sett og það tel ég mig líka hafa gert í gegnum mín störf. En ég vil samt sem áður benda á það að ef Atvinnuleysistryggingasjóður á að hlaupa undir bagga í svona málum, sem ég tel hárrétt og nauðsynlegt og ég mun fylgja þessu hér í gegnum deildina og þingið eins og ég get, þá þarf náttúrlega að varast það að rýra eða ganga á Atvinnuleysistryggingasjóð því það er nauðsynlegt að hann sé öflugur, geti greitt úr vanda verkafólks. Það er verkafólk sem á þennan sjóð. Það var verkafólk sem keypti hann með hluta af þeim launakröfum sem það gerði árið 1956 ef ég man rétt. Það er verkafólk sem á Atvinnuleysistryggingasjóð og það á að nota hann til að bæta hag þess í hvaða mæli sem er.
    Ég þakka flm. fyrir þetta frv. og ég skal ekki lengja þennan fund með því að hafa fleiri orð. Ég skal bara halda áfram að fylgja því gegnum deildina.