Efnahagsaðgerðir
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Egill Jónsson:
    Herra forseti. Það fer nú fram býsna mikil almenn umræða um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar og er það að sjálfsögðu ekki að ófyrirsynju og svo virðist sem ýmsir þeir sem var erfitt að fá til liðs við ríkisstjórnina þegar hún var sett á laggirnar séu nú að tala sig inn í það að verða stuðningsmenn hennar og er það að sjálfsögðu af góðu einu. Á ég þar sérstaklega við síðasta hv. ræðumann. Það er að sjálfsögðu afar auðvelt að fjalla um þessi mál núna á eldhúsdagsvísu, til þess eru ærin tilefni, þótt ég ætli að sneiða hjá því a.m.k. að langsamlega mestu leyti.
    Ég ætla að leyfa mér, eins og hefur verið gert við þessa umræðu, að vitna aðeins til orða Guðjóns B. Ólafssonar, reyndar þeirra sömu og hv. síðasti ræðumaður gerði, sem hann viðhafði í dagblaðinu Tímanum laugardaginn 15. okt. sl. en þar segir hann, með leyfi forseta:
    ,,Ef við förum örlítið aftur í tímann þá liggur það fyrir að á árinu 1986 hækkaði verð á sjávarafurðum á erlendum markaði svo mikið að sú hækkun skilaði þjóðarbúinu 10 milljörðum króna meira fyrir nánast sama magn afurða og árið á undan.`` Á árinu 1986 komu sem sagt 10 viðbótarmilljarðar inn í hagkerfið og inn í sjávarútveginn.
    Síðan segir Guðjón frá því að þetta hafi haldið áfram á árinu 1987, en síðan hafi brugðið til verri vegar á þessu ári. Það sem hefur gerst er að þessir 10 milljarðar sem góðærið 1986 skilaði og sams konar aðstæður fram eftir ári 1987 sköpuðu hafa farið út úr hagkerfinu og rekstri sjávarútvegsins. Sá vandi sem við stöndum frammi fyrir núna stafar af þessum breyttu aðstæðum.
    Ég veit ekki til þess að við slíkar uppsveiflur, sem að framan eru greindar og hafa reyndar komið oft áður í okkar óstöðuga hagkerfi, hafi verið lagt í varasjóði. Það sem hefur rekið á fjörur í þeim efnum hefur á hverjum tíma farið til uppskipta í þjóðfélaginu og svo fór einnig nú, þess vegna er komið eins og raun ber vitni.
    Nú er það að sjálfsögðu með misjöfnum hætti sem menn lýsa þessu ástandi og það eru ýmsar tilvitnanir og ýmsar skýringar sem hafa komið fram á síðustu dögum og vikum. Ég minni á orð hæstv. forsrh. sem hann viðhafði þegar hann var að undirbúa stofnun núv. ríkisstjórnar þar sem hann lýsti því yfir að þolinmæði hans í aðgerðum gagnvart sjávarútveginum væri fyrir löngu þrotin, eins og hann orðaði það. Og hæstv. menntmrh. sagði áðan frá því að ríkisstjórnin hefði bjargað efnahagsmálum þjóðarinnar á elleftu stund, eins og hann orðaði það. Svo kom síðasti hv. ræðumaður, Skúli Alexandersson, og sagði að frv. ríkisstjórnarinnar, þ.e. bráðabirgðalögin sem hér eru til umræðu, væru björgunartæki í þessum efnum. Þetta er allt saman snyrtilega orðað. Þetta er allt saman snyrtilega orðað. Forsrh. var búinn að missa þolinmæðina fyrir lifandi löngu, hæstv. menntmrh. segir að björgunin hafi komið á elleftu stundu og hv. þm. Skúli Alexandersson talar um að aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem felast í bráðabirgðalögunum,

séu björgunartæki. Menn skulu vel taka eftir þessu. Það er þess vegna grundvallaratriði þegar þessi umræða fer fram að menn athugi sem allra nákvæmast í hverju þetta björgunartæki er fólgið, hvað það er sem hefur bjargað á elleftu stundu eins og hæstv. menntmrh. komst að orði áðan. Og yfir það ætla ég að fara örfáum orðum.
    Það er þá í fyrsta lagi að það er settur á stofn sérstakur sjóður, Atvinnutryggingarsjóður, sem fær heimild til skuldbreytinga upp á 6,2 milljarða kr. Þar af er eigið ráðstöfunarfé sjóðsins 1,2 milljarðar, en hinn hluti skuldbreytingarþarfarinnar eða heimildarinnar verður að gerast með skuldaskilum, skuldamillifærslu í gegnum sjóðinn. Þetta er sú björgunaraðgerð. Síðan kemur heimild fyrir sjóðinn að ráðstafa 800 millj. til endurskipulagningar í fyrirtækjum. Þetta eru verkefni sjóðsins samkvæmt lögunum. Af þessu ráðstöfunarfé fær sjóðurinn 1 milljarð að láni eða heimild til þess að taka 1 milljarð að láni og hitt fær hann með öðrum hætti eins og tilgreint er í lögunum, bæði með væntanlegum auknum tekjuskatti eða tekjuskattsviðauka og vegna þess að framlag, sem gengið hefur til Atvinnuleysistryggingasjóðs, er fært yfir í Atvinnutryggingarsjóð. Þetta eru bjargráðin að því sem snertir sérstaklega skuldaskil í þessari atvinnugrein.
    Þá komum við að því hvernig rekstur sjávarútvegsins er bættur við þessar aðstæður. Það er gert eins og kunnugt er með tvennum hætti. Það er gengisfelling upp á 3%, og hefði einhvern tímann ekki þótt mikil björgunaraðgerð, og síðan er heimilt að greiða til frystingarinnar 800 millj. kr. Þetta eru ákvarðanirnar sem teknar eru til að treysta grundvöllinn að þessum rekstri. ( SkA: Þetta er byggðastefna, en dugir skammt.) Ég vek athygli deildarinnar á þessu innskoti frá hv. þm. Skúla Alexanderssyni sem sagði áðan að þessi bráðabirgðalög væru björgunartæki núv. ríkisstjórnar gagnvart atvinnulífinu í landinu. Þegar hann er kominn í sæti sitt segir hann að það dugi skammt. ( ÞK: Það sagði ræðumaður að það leysti ekki vandann.) Það er furðulegt ef björgunartæki sem þetta leysir ekki vanda. Ég vil ekki misskilja þau ummæli. En það sem skiptir hér máli er hins vegar það, sem öllum ætti að
vera ljóst, að það er ekki annað gert til að tryggja rekstur sjávarútvegsins og bæta afkomuna en þetta tvennt. ( SkA: Hv. þm. sagði að það væri verið að lengja hengingarólina.) Það er að sjálfsögðu ýmislegt ókomið í ljós í sambandi við þessi bráðabirgðalög, en það er líka annað farið að skýrast. M.a. það hvert greiðslur berast úr þessum 800 millj. kr. pósti. Og hvert skyldu þær fara, a.m.k. að meginhluta? Þær fara til að greiða áfallin vanskil í Landsbankanum og öðrum viðskiptabönkum. Þær koma nefnilega ekki til ráðstöfunar inn í fyrirtækin. ( SkA: Frá tímabili ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar?) Ja, meðal annars. Enda er ekki langt um liðið. En það skiptir ekki meginmáli nema ef það dugir í þessum efnum að metast um hvenær vandann hefur borið að höndum. Það hélt ég að væri ekki aðalatriðið heldur hvernig

björgunartækin reynast. Og þá er það með þeim hætti að ekkert kemur til ráðstöfunar í sjávarútveginn nema 3% gengisfelling. Menn vita væntanlega hvað það dugar eins og ástandinu hefur verið lýst hér við þessa umræðu. Þetta eru aðalatriði málsins.
    Það er ekki ágreiningsefni frá minni hendi að sjávarútvegurinn standi frammi fyrir miklum erfiðleikum og að efnahagsdæmið, sem þjóðin stendur núna frammi fyrir, sé stórt og erfitt. En ég er hissa á að menn skuli ekki tala meira um hvað felist í frv. og hvaða vanda það leysir. Það er þeim mun einkennilegra að þegar betur er skoðað dylst það ekki að ríkisstjórninni er þetta ljóst. Þannig var það ein af fyrstu yfirlýsingum hins hógværa og orðvara forsrh. að gengið þyrfti að lækka í áföngum. Það var einn fyrsti boðskapur hans eftir að ríkisstjórnin settist að völdum. Gengið þyrfti að lækka í áföngum. Og nú nýlega hafa fjölmiðlar haft eftir þessum sama hæstv. forsrh. að raungengi krónunnar væri enn skráð 15% of hátt. Enn fremur hefur það verið haft eftir forsrh. að ekki væru tök á því að leiðrétta það með gengisfellingu, væntanlega þá ekki einu sinni í áföngum, heldur yrði það að gerast með lækkun verðlags í landinu. Þetta eru björgunaraðgerðirnar sem öll þolinmæðin hafði brostið á eins og núv. forsrh. lýsti í útvarpinu á dögunum. Það liggur sem sagt fyrir að afkoman eftir þessar aðgerðir í sjávarútvegi er með þeim hætti að það þyrfti að verða 15% gengisfelling svo að nákvæmlega sé vitnað til orða hæstv. forsrh. eins og fjölmiðlar hafa haft eftir honum. ( Forsrh.: Nei, ég sagði aldrei gengisfelling.) Raungengi væri 15% of hátt ( Forsrh.: Það er allt annað mál.) og það þyrfti að ná þessu raungengi niður, hæstv. forsrh., með því að lækka verðlag að því marki í þjóðfélaginu. Hæstv. forsrh. segir þá frá því hér á eftir hvernig hann ætlar að breyta raungengi krónunnar, það ætti ekki að standa á því, með lækkuðu verðlagi í landinu eins og hann hefur áður sagt. Þetta er björgunaraðgerðin eins og hún lítur út eftir þeirra eigin orð. Það er áreiðanlega miklu hollara og uppbyggilegra fyrir hina almennu pólitísku umræðu í þjóðfélaginu að fjalla um málið með þeim hætti að það verði skýrt við þessa umræðu m.a. og umfjöllun í deildinni hvaða árangri bráðabirgðalögin skila.
    Sannleikurinnn er nefnilega sá að forsvarsmenn fiskvinnslufyrirtækja hafa þegar í stað orðið fyrir miklum vonbrigðum. Þeir hafa komist að raun um að hér er um afar ófullkomnar aðgerðir að ræða. Og eins og sumir þeir sem eru í forsvari fyrir þau fyrirtæki hafa orðað það: Þær væru einungis til þess gerðar að lengja í hengingarólinni. ( SkA: Það hefur áður komið fram.) Það getur vel verið að hv. þm. Skúli Alexandersson sjái einhverja björgunaraðgerð fólgna í því að lengja í hengingarólinni með þeim hætti sem þessi bráðabirgðalög gera ráð fyrir. ( SkA: Ef menn ná til jarðar er þetta allt í lagi.)
    Hér hef ég fjallað um það sem sérstaklega skiptir máli í sambandi við þessar aðgerðir. Það er að sjálfsögðu ýmislegt fleira sem kemur fram í bráðabirgðalögunum en skiptir minna máli nema þá að

því er varðar breytingar á kaupliðum og kaupbindingu. Kannski felst björgunaraðgerðin í því. Hún felst ekki í því að það sé bættur rekstur í sjávarútvegi. Hún felst ekki í því að það séu færðar til skuldir í landinu. Kannski er það, sem menn hafa fundið á elleftu stundu eins og hæstv. menntmrh., að björgunaraðgerðir felist í því að skerða kjörin í landinu. Það væntanlega skýrist í umræðunni á eftir.
    En m.a. af þeirri ástæðu má ég til með að fá upplýst hvað felst í ákvæðum 18. gr. laganna þar sem segir að 3. tölul. 29. gr. búvörulaganna falli niður. Ég hef lesið líka skýringar við þá grein. Og af því að hér eru væntanlega einhverjir bændavinir inni úr stjórnarliðinu er afar þýðingarmikið að fá vitneskju um það, m.a. þeirra vegna, hvað felst í þessari ákvörðun eða hvernig eða hvort hún verður með einhverjum hætti bætt. Í þessu felst nefnilega kjaraskerðing fyrir þá bændur landsins sem stunda sauðfjárrækt upp á u.þ.b. 1 / 5 hluta af launatekjum þeirra. Það hlýtur að vera að menn hafi gert sér grein fyrir því hvernig á að bæta þeim bændum sem stunda sauðfjárrækt í landinu 20% launaskerðingu, t.d. umfram aðra bændur landsins. Það er þess vegna afar þýðingarmikið að fá svör við þessu, sem vitað er, að það eru engir bændur í landinu og sjálfsagt engin stétt í landinu sem býr við þrengri kost en einmitt þessir bændur og hefur þurft að leggja jafnmikið á sig á síðustu árum til þess að takast á við mikil framleiðsluvandamál. Það getur þess vegna
tæpast annað verið en að þessi aðgerð sé hugsuð til enda og það ætti þar af leiðandi ekki að vera þröngt um svör við þessari spurningu þegar líður á þessa umræðu.