Frumvarp um hvalveiðibann
Þriðjudaginn 25. október 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það liggur fyrir að hæstv. sjútvrh. hefur óskað þess að 1. umr. um frv. til l. um hvalveiðibann verði frestað til morgundags þar sem hann sitji nú kirkjuþing. Svo er nú komið að neðri deild Alþingis Íslendinga er óstarfhæf vegna fjarvista hæstv. ráðherra því að bæði sjútvrh. og viðskrh. eru fjarverandi og því ekki hægt að sinna eðlilegum þingstörfum, en einu frumvörpin sem liggja fyrir deildinni verða ekki rædd nema með viðveru hæstv. ráðherra. Ég þykist og vita að minnihlutastjórn Steingríms Hermannssonar vildi auðvitað helst að ekki færu fram þingfundir í neðri deild Alþingis og því hafa öll helstu frumvörp stjórnarinnar verið lögð fram í Ed. þar sem stjórnin óttast að þau verði felld hér í deildinni. Það er því vonum seinna að hæstv. forseti sjái til þess að ráðherrar mæti hér á þingfundum.