Efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Hér hafa orðið, eðlilega, nokkuð miklar umræður um þetta dagskrármál og á engan hátt skal það lastað því að hér er vissulega um mikilsvert mál að ræða. Ég skal þó reyna að lengja ekki mjög þessa umræðu, en nokkrir hv. þm. hafa vegið að ýmsum forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar að því er varðar þetta mál, og einhverra hluta vegna telst ég einn af þeim, og mér þykir því hlýða að gera, í örstuttu máli að ég vona, að umræðuefni það sem menn hafa hér fyrst og fremst sagt um afstöðu verkalýðshreyfingar og verkalýðsforustu til þessa máls.
    Ég vil þó eigi að síður í upphafi míns máls vekja sérstaka athygli á því að mér finnst að hv. stjórnarandstöðuþingmenn hafi hér fyrst og fremst rætt um orsakir og nánast lögmæti gagnvart stjórnarskrá fyrir því að leggja fram bráðabirgðalög að því er varðar það frv. sem hér um ræðir og efni þess. ( EgJ: Ég minntist ekki á það.) Ég var ekki, hv. þm., búinn að nefna nein nöfn. En kannski vík ég aðeins að ræðu hv. þm., skrifara, síðar. Ég get að vísu gert það strax því að hann var einn af þeim fáu hv. stjórnarandstæðingum ásamt hv. 4. þm. Vestf. sem véku að málefnum þessa frv. en ekki orsökinni fyrir því að málið var lagt fram í formi bráðabirgðalaga og spurningunni um hvort það hafi verið réttmætt eða ekki. Um það hef ég að vísu ekki mjög ákveðnar skoðanir lögfræðilega, um stjórnarskráratriði eða slíkt, en í mínum huga er enginn vafi á því að allar kringumstæður sem þá ríktu og nánast ríkja enn voru þess knýjandi að eitthvað yrði gert.
    Ég get raunar tekið undir með hæstv. menntmrh., þó að við séum að vísu ekki alltaf sammála, að það var nánast ekki um nema tvær leiðir að velja eftir að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar sagði af sér. Það var annaðhvort um að velja að efna til kosninga í því andrúmslofti sem þá var og er kannski að einhverju leyti enn, atvinnufyrirtæki meira og minna stöðvuð, atvinnuleysi blasandi við og grunnatvinnugreinar efnahagslífsins komnar í þrot, sumar orðnar alveg þrot í framleiðslu. Á hinn bóginn var, mátti segja, spurning um að efna til stjórnarsamstarfs þess sem nú hefur verið efnt til og ég er út af fyrir sig ekkert að segja að komi til með að leysa allan þann vanda sem við blasir í efnahagslífi þjóðarinnar. Það hvarflar ekki að mér. En ég tek það eigi að síður fram, þannig að það fari ekki fram hjá hv. þingdeildarmönnum, að ég er stuðningsmaður þeirrar ríkisstjórnar sem var mynduð undir forsæti hæstv. núv. forsrh. Ekki vegna þess að ég sjái allt gott í þeim efnum. Það er ýmislegt sem ég hef við að athuga í þeim efnum. En ég sá eigi að síður enga aðra lausn ef menn ekki vildu beina málum á þá braut að efna til tveggja, þriggja eða fjögurra mánaða kosningabaráttu, stjórnarmyndunarviðræðna og upplausnar enn þá meiri í þjóðfélaginu en var á þessum tíma.
    Sumir segja: Stjórnarflokkarnir fyrrverandi áttu að ganga undir dóm kjósenda og að vissu leyti kann það að vera rétt, en einhvern tíma kemur að því að þessir fyrrverandi stjórnarflokkar ganga undir þann dóm og

verða þá dæmdir að verðleikum og ekki síður þeir sem höfðu um það frumkvæði að slíta fyrrverandi stjórnarsamstarfi. Þeir hljóta engu síður að ganga undir sinn dóm hjá kjósendum. ( EgJ: Í sjónvarpi?) Það kann vel að vera að það verði í sjónvarpi. Það skal ég ekki um segja. En mér býður svo í grun að þeir hinir sömu kunni að hljóta sömu örlög hvort sem það kann að verða í sjónvarpi eða á öðrum vettvangi. ( EgJ: Slíta ríkisstjórn í sjónvarpi, stjórnarsamstarfi.) Það er ekki um það að ræða fyrir aðila sem slitu fyrrv. ríkisstjórn að slíta núverandi stjórnarsamstarfi í sjónvarpi. Það hlýtur að heyra undir aðra, hv. þm. Egill Jónsson. En nóg um það í bili.
    Ég sagði í upphafi að ég skyldi ekki verða langorður um þetta mál, en ég sagði líka að mér fyndist að velflestir stjórnarandstæðingar gerðu formið að meira umræðuefni en efnisatriði þess máls sem hér er um að ræða. Ég tek það skýrt fram að það er efi í mínum huga um hvort þær ráðstafanir sem verið er að gera með þessum bráðabirgðalögum nægja til þess að reisa við nánast úr rústum atvinnulíf víðs vegar á landsbyggðinni, grunnatvinnulífið sem er sjávarútvegurinn, hvort þær ráðstafanir nægja sem hér er verið að gera til að reisa það við úr rústum. Ég get út af fyrir sig tekið undir að það er vafi í mínum huga hvort þessar ákvarðanir nægja til þess. En þeir sem gagnrýna hvað harðast að þær nægi ekki hljóta að líta til fortíðarinnar og þess ættu hv. þm. Egill Jónsson, Guðmundur H. Garðarsson, Halldór Blöndal að líta til líka. ( GHG: Þessi ræða fer alveg fyrir ofan garð og neðan hjá mér, hv. þm.) Því er ég ekki hissa á því að raunveruleikinn fer yfirleitt fyrir ofan garð og neðan hjá hv. þm. þannig að það kemur mér ekki á óvart í þessum efnum frekar en öðrum. ( GHG: Hvað finnst þér rangt í þessu?) Já, ég þekki það af langri reynslu, hv. þm. --- Herra forseti. Það er mér að meinalausu þó að hv. þm. líði illa og grípi fram í þannig að ég get beðið. En mér kemur það ekki á óvart þó að einhverjum hv. þm. líði illa undir þessum umræðum í ljósi fortíðar og kannski kem ég að því síðar.
    Ég ætla fyrst að víkja aðeins að einu eða tveimur atriðum sem hv. þm.
Halldór Blöndal, ef ég man rétt, hv. 2. þm. Norðurl. e., vék að í upphafi ræðu sinnar. Hann fór að venju vítt um svið en gerði eigi að síður að aðalumræðuefni formsatriði bráðabirgðalaganna, þörfina á þeim undir þeim kringumstæðum sem þá voru og hvort þau hafi verið rétt gagnvart stjórnarskránni. Ég hef áður sagt: Um það skal ég ekkert fullyrða hér því að í mínum huga var það ekkert vafamál að það þurfti ráðstafanir á stundinni vegna þess hvernig ástandið var í atvinnulífinu, ekki síst úti á landsbyggðinni og trúlega ekki síður í kjördæmi hv. þm. Halldórs Blöndals, Norðurlandi eystra. ( GuðmÁ: Skiptir þá stjórnarskráin engu máli?) Að sjálfsögðu, hv. þm. Guðmundur Ágústsson, skiptir stjórnarskráin máli. En ungir þingmenn ættu að temja sér að byggja á því hvernig ástandið er hverju sinni. Menn lifa ekki endalaust á lögfræðiaðstoð eða einhverju slíku. Menn þurfa

lifibrauð. Og hvaðan hafa menn það? Ætli þeir hafi það ekki af fiskvinnslunni, sjávarfanginu sem heldur uppi nánast öllu lífi í þessu þjóðfélagi? Því ættu þessir ungu menn að temja sér að líta til þess hluta atvinnulífsins sem er grunnur þess þjóðfélags sem við byggjum á. Ég dreg ekki í efa að stjórnarskráin hefur sitt hlutverk. En ég segi eigi að síður: Lífið er nú einu sinni svo að oft verða einstaklingar, forsvarsmenn stéttarfélaga, forustumenn í þjóðfélagsmálum að gera fleira en gott þykir. Kannski þessi hv. þm. Borgfl., Guðmundur Ágústsson, hafi aldrei þurft að gera annað en honum hefur best líkað og ef svo er, þá er það vel. En hann er trúlega einn af fáum sem hafa getað lifað lífinu þannig að gera aldrei neitt annað en sem mönnum hefur þótt best. Ég er ekki einn af þeim. Ég hef, kannski sem betur fer, þurft að upplifa það að gera fleira en gott þykir og það verður almenningur í þessu landi að upplifa þó að einhverjir einstaklingar, ungir eða aldnir, hafi sloppið við slíkt.
    Ég held að menn geti ekki almennt bundið sig algerlega við lagaforsendur í þessum efnum. Prinsip er að vissu leyti mikils virði og ég tek undir það sem margir hafa hér sagt að að því er varðar verkalýðshreyfinguna er samningsfrelsið eitt af grundvallaratriðum þeirrar hreyfingar sem hafa ber í heiðri. En það er líka ástæða til þess fyrir forustumenn verkalýðshreyfingar að gæta að hinum almennu hagsmunum þess fólks sem þeir eru umbjóðendur fyrir. Það er fleira hagsmunir en kaupið eitt og sér í krónum talið.
    En ég ætlaði fyrst að víkja að hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann sagði nánast í upphafi sinnar ræðu að sá sem hér stendur hefði lagt fyrstu rýtingsstunguna í bak fyrrv. hæstv. fjmrh., formanns Alþfl., að því er varðaði afstöðu til matarskattsins. Það er erfitt að þurfa að rifja það upp fyrir meðalgreindum hv. þm. að það er ekki ár síðan umræðan fór fram um þetta mál. Ég hafði hreina og klára afstöðu í því máli alveg frá upphafi. Það var engin rýtingsstunga þar. Þar skiptust menn á málefnalegum skoðunum og mín afstaða lá fyrir. Ég talaði gegn málinu, greiddi atkvæði gegn því, en hv. þm. Halldór Blöndal talaði með því og greiddi atkvæði með því. Svona breytast menn í skoðunum, sumir hverjir, eftir því hvernig mánuðir líða.
    Í öðru lagi minntist hv. þm. á afstöðuna til kvótamálsins. Um það urðu hér kannski mestar umræður líka fyrir innan við ári og enn rifja ég upp að meðalgreindir þingmenn í þessari hv. deild ættu að muna þessar umræður. ( SalÞ: Hvernig flokkar hv. þm. greindarvísitölu?) Ja, það fer kannski eftir hvernig hv. þm. Halldór Blöndal talaði. ( GHG: Svona gera menn í einræðisríkjunum.) Ég er afskaplega ánægður með að hv. þm. Sjálfstfl. á alla bóga líður illa undir þessum umræðum, bæði til vinstri og hægri og í hliðarsölum. Það skiptir engu máli hvar menn standa í þessum efnum að því er varðar íhaldið. ( GHG: Þeir sem flokkast undir greinda menn mega hafa skoðun en aðrir ekki.) Þeir sem flokkast undir greindarvísitölu eiga að muna hvað gerist frá mánuði til mánaðar. Það

er mín meginskoðun og það er venjulegur máti að mínu viti í umræðum og afstöðu til þessara mála. Menn geta ekki leyft sér að hafa mismunandi skoðun á sama máli frá einum mánuði til annars og ég tala nú ekki um að gera öðrum þingmönnum upp aðrar skoðanir og ummæli á þessum tíma. Þetta flokkast að sjálfsögðu undir greindarvísitölu, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Ég hef að vísu ekki meint þetta til þess hv. þm. sem var að grípa fram í hvað mest. (Gripið fram í.) Kannski er það rétt hjá hæstv. menntmrh. að menn ættu að breyta um vísitölu, taka upp greindarvísitölu í stað lánskjaravísitölu. Það væri kannski réttasta lausnin á því máli sem menn eru nú að deila um. Þá kæmi kannski ýmislegt í ljós, hæstv. menntmrh., sem allir hafa ekki séð fyrir í þessum efnum. --- Ég sé að hv. meðdeildarþingmenn mínir ætla að lengja mína umræðu að því er þetta varðar. ( EgJ: Ósköp liggur þingmanninum mikið á allt í einu.) Nei, það er síður en svo. En ég vil gefa þeim sem liggur enn þá meira á tækifæri til að tala.
    En ég ætla að víkja að kvótanum og þeim ummælum sem hv. þm. Halldór Blöndal viðhafði um þau mál. Það er varla þörf á að rifja það upp að þingdeildarmönnum hér í Ed. eru ljósar þær umræður sem fóru hér fram líklega í desember, endaðan nóvember eða desember á sl. ári um kvótamálið. Þó að ég segi sjálfur frá hef ég líklega verið hvað harðastur eða með harðari andstæðingum
þess máls hér í hv. deild og flutti æðimargar brtt. og víðtækar gegn málinu. Talaði gegn því, greiddi atkvæði gegn því. En hv. þm. Halldór Blöndal, sem hér gerði þetta að umræðuefni, talaði hvað harðast með því og greiddi atkvæði með því. Og svo ber hann mér á brýn að menn séu komnir í hnappeldu, ég og hv. þm. Skúli Alexandersson, til þess að styðja nánast allt sem hæstv. fyrrv. og núv. sjútvrh. muni segja í þessum efnum. ( GHG: Það vitum við.) Það er síður en svo, hv. þm. Guðmundur Garðarsson, þegar þingmaðurinn loksins kemst í stólinn frá öðrum erfiðum verkefnum. ( GHG: Það er hvalamálið.) Hvalamálið, já. Mikið vildi ég að ég gæti verið í þeim umræðum nú, en því er ekki að heilsa. En ég ítreka að menn þurfa ekki að blanda kvótamálinu saman við það sem hér er til umræðu. Menn eru með því að reyna að leiða fólk afvega í hinni almennu umræðu um þau mál sem hér er verið að ræða, um efnahagsmálin og þær forsendur sem við hljótum að byggja á í þessum efnum.
    Hér hafa menn, eðlilega, gert að umræðuefni afstöðu forustumanna verkalýðshreyfingarinnar til bráðabirgðalaganna. Ég tók eftir því að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði í ræðu sinni hér held ég í gær, ef ég man rétt, að hann hefði einu sinni greitt atkvæði á Alþingi með því að skerða samningsfrelsið. Ég held ég muni þetta rétt. Ég held hins vegar eða ég veit ekki betur en hv. þm. hafi verið samþykkur þeim bráðabirgðalögum sem gefin voru út í maí sl. og vörðuðu samningsfrelsið eða sviptingu þess, frestun, og ég veit ekki betur en hv. þm. hafi einnig verið samþykkur og að sagt var, sem

ég ber nú ekki ábyrgð á, einn af frumkvöðlum tillagna þingflokks Sjálfstfl. á sl. hausti um enn frekari skerðingar á samningsfrelsi og kauprýrnum. ( GHG: Tillögumaður.) Tillögumaður ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal. ( GHG: Tillögumaður.) Tillögumaður, já. Rétt! Það er rétt eftir tekið. Ég sagði eigi að síður að ég ber ekki ábyrgð á þessu því að ég hef ekki staðreyndir fyrir því máli og yfirleitt fer ég ekki með mál nema ég hafi sannanir nánast fyrir því að rétt sé. En þetta var á orði haft og því ekki mótmælt. En eigi að síður: Eitt skipti samþykkt á Alþingi, tvö skipti tillögur eða samþykki í þingflokki viðkomandi pólitísks flokks fyrir þessum atriðum. Ég er ekki að segja þetta vegna gagnrýni á þennan hv. þm., alls ekki. En það er nauðsynlegt, þegar menn tala eins og hér hefur verið talað, að þetta sé rifjað upp.
    Nú er það eitt og sér kauprán eða að verja hagsmuni launafólks. Það er í mínum huga tvennt ólíkt. Auðvitað hefðu menn getað haldið til streitu bæði í maí og í september að kaupið hækkaði eins og gert var ráð fyrir í samningum og þá annað eftir því. Og þá hlýtur að vera spurningin: Var það fólk sem ég m.a. tel mig vera forsvarsmann fyrir betur sett undir þeim kringumstæðum að allt héldi áfram eins og var samið um eða var betra, var hagkvæmara fyrir þetta fólk að fara aðra leið, þá leið sem bráðabirgðalögin gera ráð fyrir?
    Ég ítreka enn og held því skýrt fram að samningsrétturinn er ein af grundvallarforsendum frjálsrar verkalýðshreyfingar og hann ber að virða. En ég segi eigi að síður að það er forustumanna hverju sinni, það er þeirra hlutverk að þurfa að velja milli mismunandi slæmra kosta hverju sinni. Og ég spyr fulltrúa á hv. Alþingi, fulltrúa þess fólks í atvinnulífinu sem stóð frammi fyrir annaðhvort atvinnuleysi eða þverrandi atvinnu og áframhaldandi atvinnuleysi: Var það þess hagur að halda þessu áfram eins og mál hefðu stefnt hefði ekkert verið að gert? ( HBl: Var þingmaðurinn sammála formanni Alþfl. um niðurfærsluleiðina?) Niðurfærsluleiðina? Það er gott að hún kemur hér á dagskrá. Ég get út af fyrir sig verið sammála hæstv. forsrh. að það var mjög slæmt að menn könnuðu ekki þá leið til hlítar. Þeirri leið var nánast vísað út af borðinu án þess að menn væru búnir að kanna hana til hlítar. Ég er ekki að segja að hún hefði reynst fær, en það var ekkert sem benti til þess að það væri ekki rétt að kanna þá leið eins og aðrar leiðir í efnahagsmálum. ( GHG: Var ekki Alþfl. búinn að hafna þeirri leið?) Nei, það er rangt hjá hv. þm. að Alþfl. hafi hafnað þeirri leið. Hitt var svo rétt, og það ætti hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson að taka upp, að formaður Sjálfstfl. og þáv. forsrh. setti þau skilyrði --- ja, nú vitna ég til hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar sem hefur lengi verið í forustusveit og er verkalýðssinni að því er ég best veit, var lengi í forustusveit verkalýðshreyfingar, nú vitna ég til þess: Var það skynsamlegt af forustumanni pólitísks flokks, hvort sem það var Þorsteinn Pálsson eða einhver annar, að biðja verkalýðshreyfinguna um stimpil á samningsfrestun eða lækkun launa? Var það

skynsamlegt? Þetta var auðvitað sett fram til þess að loka þeirri leið af þessum hv. sjálfstæðismanni og hæstv. forsrh. í þeirri ríkisstjórn, beinlínis til þess að loka henni að mínu viti. (Gripið fram í.) Það var út af fyrir sig alveg vonlaust --- bíddu augnablik, hv. þm. Halldór Blöndal, ef ég má bara klára þessa setningu getur hv. þm. fengið orðið þó að ég sé hér --- það var auðvitað beinlínis sett fram að mínu viti til þess að koma í veg fyrir að sú leið yrði könnuð til hlítar. Það er vonlaust að ætlast til þess bara út af prinsippum að forusta verkalýðshreyfingar eða forsvarsmenn hennar leggi blessun sína yfir slíka gjörð. Það er um tómt mál að tala. Það eru nánast blindir pólitískir foringjar
sem ætlast til slíks að mínu viti. (Gripið fram í.) Það var ekkert komið á það stig, hv. þm. Halldór Blöndal. En hver var tillaga þáv. hæstv. forsrh. um lækkun launa? Hún var ekki um að frysta þessi 2,5% sem áttu að koma núna í haust. Hún var um það að lækka launin um 9% til viðbótar. ( GHG: Hvað um hlutaskipti?) Það var ekkert komið til umræðu. Menn komu í veg fyrir það og þar á meðal hæstv. forsrh. Þorsteinn Pálsson. Hann kom í veg fyrir að þessi mál yrðu rædd í botn. (Gripið fram í.) Já, gleymum því nú ekki. Það er nú brennimerkt þeirri forustu, gengisfelling og gengisfelling æ ofan í æ. En þetta er auðvitað meginmálefnið.
    Ég er ekkert hissa á því þótt hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sé ekki bara efins heldur gagnrýni að samningar séu ógiltir. Það er afskaplega slæmt mál og undir það tek ég, Guðmundur H. Garðarsson, heils hugar. En ég er nú einu sinni einn af þeim fáu hér á hv. Alþingi sem verða að hafa skoðun bæði hér og í hreyfingunni og það er einu sinni svo að ég reyni að hafa sömu skoðun á báðum stöðum. Ég get ekki leyft mér, eins og sumir aðrir hafa gert í gegnum tíðina, að hafa eina skoðun hér og aðra í hreyfingunni. Það fer ekki saman við mitt hugarfar. Ég verð að hafa þessa skoðun og síðan stend ég eða fell með henni. Ég vil ekki upplifa, eins og margir hafa gert úr forustusveit bæði Alþb. og Sjálfstfl. og kannski víðar, að menn hafi eina skoðun á Alþingi til sama málsins en aðra úti í hreyfingunni. Það eru ekki heilsteyptir persónuleikar sem þannig haga sér. Það er miklu betra að hafa hina sömu skoðun og standa og falla með henni.
    Mér kemur oft í hug að það er afskaplega þægilegt að vera bara þingmaður, þurfa ekki að bera ábyrgð á einu eða öðru. En það er erfiðara að axla líka ábyrgð úti í hreyfingunni, í stéttarfélögunum eða í hreyfingunni sem heild. En það er nú einu sinni svo, og það tek ég undir með hæstv. menntmrh., að auðvitað er það verkalýðsflokka að axla ábyrgð og forustumanna þeirra. Þeir geta ekki verið stikkfrí og eiga ekki að vera það. Þeir verða að hafa skoðun og eiga auðvitað að hafa sömu skoðun hvar sem þeir eru staddir. ( GHG: Það er bara eins og íhaldið sé að tala.) Kannski það sé svo, enda var það svo, ef ég man rétt, og þá vitna ég líka til þess sem áður var sagt, að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson var

meðbiðilsmaður hv. þm. Matthíasar Bjarnasonar að því að biðla til Alþb. um samstarf. Er það ekki rétt, hæstv. menntmrh.? ( GHG: Hann á að geta svarað fyrir það.) ( Menntmrh.: Það voru svo margir á listanum.) Það kann að vera að þeir hafi verið miklum mun fleiri og kannski hefur sú ræða sem hér var flutt í gær af hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni verið í þeim dúr eða vegna þess. Og kannski ætti ég að samhryggjast hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að bíða skipbrot í þeim efnum.
    En svona er málið í mínum huga. Og þá vík ég að því sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir sagði fyrr við umræðuna. Mér þykir slæmt að hv. þm. er ekki hér til staðar, en flokkssystir er hér. --- Ja, nú er ekki víst að maður megi segja flokkssystir. Þingsystir, kannski miklu frekar, hv. þm. eða hv. þingkonu er hér til staðar. ( SalÞ: Konur eru líka menn.) Það er rétt. Þess vegna sagði ég . . . ( HBl: Líka fyrir vestan.) En ekki fyrir austan? Er dregið þar í dilka? Já, þá veit maður það.
    En hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir orðaði það svo að sumir verkalýðsforingjar gæfu lítið fyrir samningsréttinn. Ég hefði gjarnan viljað fá vitneskju um hverjir þessir sumir eru. Ég veit ekki til þess að verkalýðsforingjar hafi talað á þessum nótum. Svo kann að vísu að vera án þess að ég viti um, en ef svo er vil ég fá að vita hverjir það eru því að það er ósanngjarnt að halda svona ræður á hv. Alþingi og láta alla þá sem teljast verkalýðsforingja liggja undir þessum grun.
    Ég get ekki stillt mig um að víkja að enn einu dæmi um hvernig hv. þm. og borgarfulltrúar Kvennalistans haga sér í umræðum um þessi mál.
    Ekki alls fyrir löngu var fulltrúi Kvennalistans í borgarstjórn, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, stödd í viðtalsþætti hjá Páli Heiðari Jónssyni í útvarpinu og viðhafði þau orð að ég meðal annarra tveggja einstaklinga hefðum fullyrt --- og taki menn nú eftir --- hefðum fullyrt að við mætum samningsréttinn einskis virði nú orðið. Það er afskaplega þægilegt að geta leyft sér slíka hluti. En þetta er ábyrgðarlítið að mínu viti eða nánast ábyrgðarlaust tal. Ég hefði gjarnan viljað spyrja þennan kvennalistafulltrúa um það hvar og hvenær ég hefði viðhaft þessi orð. En það gefst auðvitað ekki tækifæri til þess. Mér sýnist að í borgarstjórn hjá þeim kvennalistakonum gildi sama reglan um undanfærsluleið í öllum hlutum eins og er á hv. Alþingi, undanfærsluleið, taka aldrei ábyrgð. ( SkA: Svo sú leið er til líka, uppfærsla, undanfærsla og niðurfærsla?) Já, já. Allt saman til. Og það hélt ég að hv. þm. Skúli Alexandersson vissi. ( SkA: Þetta er nýtt orð, undanfærsluleið.) Nei, nei, nei, nei. Þetta er rangt. Þetta er gamalt orð. ( VS: Þetta er nýtt í efnahagsmálum.) Nýtt í efnahagsmálum? Það kann að vera að málfræðin færist yfir á önnur svið en hún hefur verið á undangengin ár. --- En mér finnst nánast móðgun við þá einstaklinga sem eru starfandi í málum eins og í verkalýðshreyfingunni að
viðhafa slík orð án þess að þeir geti þá svarað fyrir

sig. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt að kvennalistakonur hagi málflutningi sínum á þennan hátt. Það getur verið kannski afskaplega þægilegt að geta alltaf verið stikkfrí, hafa aldrei skoðun, meina aldrei neitt, segja alltaf allt annað. En ég uni því ekki að ég sé borinn slíkum sökum án þess að ég hafi til þess unnið. En ég er reiðubúinn til að svara fyrir það hafi ég sagt það.
    Launamálin. Höldum aðeins áfram með þau. Hverjum hefði verið gerður greiði með áframhaldandi launastefnu eins og hefði verið gert ef bráðabirgðalög eða aðgerðir hefðu ekki komið inn í? Hefðu hin almennu verkalýðsfélög innan Verkamannasambandsins, innan Alþýðusambandsins haft stöðu til að knýja á um leiðréttingu launa og réttinda? Er það líklegt í ljósi þess að velflest atvinnufyrirtæki á landsbyggðinni, sem 80--90% af vinnandi fólki hefur atvinnu sína af, er líklegt að þetta fólk hefði fengið uppreisn æru með þessi atvinnufyrirtæki í lamasessi? Spyrji nú hver sig án þess að menn séu að tala um pólitík í þessum efnum.
    Mér finnst afskaplega ólíklegt að neitt af því fólki sem ég telst vera forsvarsmaður fyrir hefði fengið leiðréttingu sinna launa í kjölfar þess að samningar hefðu verið lausir um áramót. En á þessu geta verið mismunandi sjónarmið, eðlilega. A.m.k. á mínu svæði fullyrði ég að ekkert af því fólki sem vinnur í hraðfrystiiðnaði, við fiskvinnslu hefði getað sótt leiðréttingu sinna launa á þessum tíma. Það kann að vera breytilegt eftir landshlutum, en á mínu svæði hefði það ekki gerst. Auðvitað hlaut ég að hafa þá skoðun í verkalýðshreyfingunni sem hlaut að sýna mér fram á að ég ætti að hafa sömu skoðun á Alþingi þegar löggjafinn ætti hlut að málum. Það getur ekki farið milli mála í mínum huga.
    En hverjir voru það sem hefðu getað fengið samningsrétt um áramótin? Það voru m.a. BSRB-menn. Á engan hátt er ég að segja að þeir séu oflaunaðir eða ofdekraðir nema síður sé, sumir hverjir. Þeir hefðu hugsanlega getað sótt um starf um áramót. Allar sjálftökustéttirnar, sem menn tala um, hefðu getað sótt sitt, sem spyrjast ekkert fyrir um hvað þjóðfélagið þoli heldur hafa sitt á þurru.
    Flugmenn. Hefði ekki verið afskaplega vinsælt að sleppa þeim lausum um áramót á sama tíma og verkafólk í frystiiðnaðinum og víðar hefði nánast þurft að lifa á sama? Hefði verið skynsamlegt að sleppa flugmönnum lausum þá? Ég er alveg handviss um að verkalýðssinnaður maður eins og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson er mér sammála um að það hefði ekki verið skynsamlegt. Það hefði ekki þjónað hagsmunum þeirra umbjóðenda sem við erum talsmenn fyrir, verkafólks, verslunarfólks og annarra í láglaunastétt, nema síður væri. Þeir aðilar sem ég hef hér gert að umræðuefni, ýmsir úr BSRB-stétt, flugmenn, sjálftökustéttirnar, BHMR-menn eða hvað það heitir, hafa klifrað upp eftir bakinu á hinu almenna launafólki. Þeir hafa gert það svo árum skiptir að hagnýta sér brautryðjendastarf hins almenna verkafólks, notfæra sér það í sinni launabaráttu til

hagnaðar. Áttu forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar að ýta undir að það yrði gert nú undir þeim kringumstæðum sem við búum við?
    Ég segi enn að þrátt fyrir að ég sé eindregið þeirrar skoðunar að ríkisvaldið eigi ekki að grípa inn í löglega gerða kjarasamninga stéttarfélaga og aðila vinnumarkaðar . . . ( EgJ: Og á samt að gera það, segir þú.) Nei, ég er þeirrar skoðunar að það eigi helst ekki að gera það. En stundum getur það gerst að nauðsyn brýtur lög. ( EgJ: Já, já, þá á að gera það.) Ég minni á það í þessu sambandi að kannski hafa einhverjir hv. þm. í Ed. staðið oftar að slíkri löggjöf en sá sem hér stendur í ræðustól. Ég man ekki betur en hv. þm. Egill Jónsson hafi staðið að bráðabirgðalöggjöfinni í maí. Ég veit ekki betur en hv. þm. hafi stutt sinn þingflokk í september í tillögum, að mér er sagt, hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar og Halldórs Blöndals sem bornar voru fram af þáv. hæstv. forsrh. til enn frekari kjaraskerðingar. ( EgJ: Þetta eru fullgildar afsakanir fyrir hv. þm.) Þetta eru ekki afsakanir, síður en svo. Þetta eru engar afsakanir. Það eru engar afsakanir í því fólgnar þó að menn segi rétt frá. Það er alveg nýtt í mínum huga ef það eru afsakanir að segja rétt frá hlutum. Ja, maður lærir ýmislegt í hv. deild og það er líklega rétt sem hæstv. menntmrh. sagði að þetta er auðvitað besta deildin.
    Nei, hv. þm. Egill Jónsson. Hér eru engar afsakanir og ég tel mig ekki þurfa að bera fram neinar afsakanir. Ég spyr hv. þm. Egil Jónsson um það: Hefði hans verkafólki á Austurlandi, hinu almenna verkafólki, verið betur borgið með því að þeir launasamningar, sem ég er ekki á nokkurn hátt að segja, nema síður sé, að hafi verið of háir á sínum tíma þegar þeir voru gerðir, og ég ítreka að það eru ekki launin hjá almennu launafólki sem voru að sliga þjóðfélagið, síður en svo, en hefði fólki á Austurlandi verið betur borgið með því að láta samningana ganga fram eins og lög gerðu ráð fyrir og verðhækkanir gengju í kjölfarið? Svari nú hver fyrir sig og hv. þm. Egill Jónsson líka. Hefði verkafólki í frystihúsum á Austurlandi verið betri greiði gerður með því að þetta væri gert þó að ég viðurkenni fullkomlega prinsippið í því að það
hefði átt að gerast? ( SkA: Svaraði skrifarinn ekki?) Hv. skrifari er að skrifa það sem hann ætlar að segja, sýnist mér. En þetta er atriði sem hver og einn verður að gera upp við sig og þora að hafa afstöðu og hina sömu á þeim stöðum sem á að taka afstöðu á.
    Ég sagði í upphafi að auðvitað væri ýmislegt í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar sem væri ekki mér að skapi, en hafandi verið í pólitík eða forustumaður í stéttarfélagi í yfir 30 ár hef ég upplifað það að fá ekki allt sem ég vildi í gegnum slíkt starf. Kannski er það flestum fyrir bestu og reynir mest á þolrif einstaklingsins að þurfa að kljást við athöfnina hverju sinni.
    Ég get alveg tekið undir með Guðmundi H. Garðarssyni að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóðinn. Það er mjög slæmt mál að skerða tekjur hans í því ástandi sem nú er. En ég

hlýt að minna á að slíkt hefur áður verið gert, því miður, en kannski meira núna en hefur áður verið gert. En það er nú einu sinni svo að að því er varðar Atvinnuleysistryggingasjóð hlýtur ríkissjóður alla tíð og alla vega að vera ábyrgur fyrir því sem þar er að gerast. Séu tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs skertar þannig að hann geti ekki staðið undir sínu hlutverki hlýtur ríkissjóður að vera ábyrgur. En ég er ekki að segja að þetta eigi að gera svona. Auðvitað á þessi sjóður að halda sínum tekjustofnum þannig að hann geti staðið við sínar skuldbindingar sem ríkið hefur lagt á hann.
    Við skulum líka hafa það í huga að hér er ekkert venjulegt ástand við að eiga í atvinnumálum. Það hefur enginn gagn af því þó að kaupið sé 10 kr. hærra á tímann ef engin atvinna er. Það er auðvitað grundvallarforsenda fyrir því að almennt fólk í þessu landi geti lifað að atvinna sé fyrir hendi og í áframhaldi af því að laun séu greidd eins og fólk þarf til þess að lifa af átta stunda vinnudegi. En grundvallarforsendan er atvinnan og atvinna á hinum ýmsu svæðum er ekki fyrir hendi eins og er, því miður. Það er það sem við er að kljást nú.
    Það er líklega rétt, sem hér hefur komið fram í umræðum, að bæði formannafundur Alþýðusambands Íslands og formannafundur BSRB og einstök stéttarfélög innan þessara samtaka hafa mótmælt þessum bráðabirgðalögum og það er síður en svo að við neitt slíkt sé að athuga. ( EgJ: Greiddi þingmaðurinn atkvæði þar?) Hann var ekki þar, því miður, þannig að það er ekki hægt að vísa til þess. En það er greinilegt að þingmaðurinn sem hér stendur og talar hefur lýst sinni skoðun á málinu og hann hlýtur samkvæmt sínu eðli þó það sé ekki eðli annarra að greiða atkvæði samkvæmt því sem hann talar. Það er ekkert undarlegt við það þó að samtök launafólks, hvort sem um einstök stéttarfélög er að ræða eða heildarsamtök, mótmæli því að það sé skertur samningsréttur hjá tilteknum félögum eða samböndum. Það er þeirra skylda að halda svo á málum. Og því aðeins verja þau sinn rétt að þau haldi vöku sinni í þeim efnum. Það er kannski tvennt ólíkt hvort menn eru að segja já, eins og Alþýðusamband Íslands, við hlutum sem hefur verið gengið á þeirra rétt með, eða hvort þeir láta það yfir sig ganga. Það er tvennt ólíkt. Verkalýðshreyfingin hefur því miður oft og tíðum þurft að láta ýmislegt yfir sig ganga sem hún er andvíg í eðli sínu.
    Þetta er sambærilegt við hv. þm. Þeir láta ýmislegt yfir sig ganga í stjórnarsamstarfi þó að þeir séu andvígir því á eðlilegum forsendum. --- Ég sé að hv. þm. Salome Þorkelsdóttir bendir á sig. Það kann vel að vera að svo hafi verið. (Gripið fram í.) Já, í hv. þm. Ætli hv. þm. sem hér talar fái ekki fyrst og fremst yfirskriftina að hafa verið uppreisnarmaður í sínum þingflokki frekar en samþykkjandi og ég uni því vel. En það er einu sinni svo að menn verða oft að gera fleira en gott þykir og oft verða menn að taka við skulum segja næstversta kostinn í þessum efnum.
    Ég skal, herra forseti, ekki lengja frekar þessar

umræður nema tilefni gefist til þess í áframhaldi. En ég vil eigi að síður taka undir það, sem hér var sagt að ég held af hv. 7. þm. Reykn. Júlíusi Sólnes, að ég er sammála því viðhorfi að hinir almennu sjóðir séu staðsettir á þeim svæðum þar sem í þá er greitt. Ég hef verið aðalhvatamaður að slíku og bendi þá t.d. á orlofsféð sem við Vestfirðingar vorum frumkvöðlar að að yrði greitt á þeim slóðum þar sem það fellur til. Svo er um fleiri sjóði. Bæði Atvinnuleysistryggingasjóð og fleiri. Þetta er auðvitað sjálfsagt og um þetta ættu menn ekki að þurfa að hafa pólitískan ágreining. Þetta er svo sjálfsagt að um það ættu menn að geta sameinast.
    Ég vil líka taka undir það, sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði, að ég hefði miklu frekar viljað sjá fjármunum sem er gert ráð fyrir að fari í atvinnuvegasjóðina ráðstafað öðruvísi, ég er ekki alveg viss um að ég hafi það orðrétt, því að þeir hafa trúlega alveg eins getað og ekkert síður farið í gegnum Byggðastofnun sem er fyrir. Það hefði ekki þurft að setja á nýtt apparat til að útdeila þeim. Ég hefði miklu fremur viljað sjá það. ( SalÞ: Af hverju var það þá gert?) Já, það er nú stóra spurningin. Af hverju var
ýmislegt gert í stjórnartíð hv. þm. Salome Þorkelsdóttur án þess að hún réði hvernig það var gert? Þetta er hlutur sem við stöndum frammi fyrir. Einn og einn ræður kannski ekki öllu, en það er ýmislegt sem menn beygja sig í duftið fyrir sumir hverjir. Ekki ég. En ég held að það hefði ekkert orðið síðra. Þarna er stofnun sem er til staðar, gæti haft þetta hlutverk og sinnt því þannig að ég hefði miklu frekar viljað sjá að Byggðastofnun hefði fengið þetta fjármagn til þess að sjá um afhendingu eða útdeilingu, hvernig menn vilja tala um það, en setja á stofn nýjan sjóð í þessum efnum. Ég er ekki að tala þvert um hug minn í þessum efnum, þetta eru mínar skoðanir sem ég tel rétt að komi hér fram.
    Ég vil að lokum segja þetta, herra forseti. Hvað sem menn segja um þessi bráðabirgðalög og þó að ég hafi ýmislegt við þau að athuga stend ég að þeim. En ég geri það vegna þess að ég sá ekkert annað frambærilegra í þeirri stöðu sem okkar þjóðfélag var komið í eftir ýmislegt sem á undan gekk. Ég skal ekki nefna neitt í þeim efnum sérstaklega. En eftir það sem á undan gekk sá ég ekki aðra möguleika, aðra en demba þjóðfélaginu út í kosningabaráttu sem hefði þýtt þriggja, fjögurra, fimm mánaða áframhaldandi óvissu í efnahagsmálum, óvissu sem hefði leitt til enn frekari gjaldþrota víðs vegar um land, atvinnuleysis og ég veit ekki hvað má segja í viðbót við það. Þetta eru kannski höfuðástæðurnar fyrir því að menn töldu sig nauðbeygða til að taka saman höndum og reyna að átta sig á leiðum, feta sig áfram þó að ég viðurkenni að með stjórnarsáttmálanum hafa menn ekki fundið neinn endanlegan sannleika í þessum efnum.