Frumvarp um efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði reyndar ekki mikið um þingsköp heldur notaði þetta til einhverra ómerkilegra árása á ríkisstjórnina. Ég ætla hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni að ég sé ekkert athugavert við fundarstjórn forseta og þá vinnutilhögun sem hann hefur lýst hér, þ.e. að það verði haldið áfram umræðunni um þetta mál á þriðjudag sem er næsti fundardagur þessarar deildar. Ef hv. þm. Halldór Blöndal veit ekki hvernig við höfum skipulagt vinnuna hér á þessu þingi þá er það þannig að næsti þriðjudagur er eðlilegur fundartími þessarar deildar. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, á morgun, klukkan tíu í fyrramálið er gert ráð fyrir fundi í Sþ. sem sjálfsagt mun standa allan daginn. Það hefur ekki verið venja að hafa fundi á föstudögum nú um sinn og á mánudögum eru fundir í Sþ. og á þriðjudaginn er næsti fundur í þessari deild. Þá höfum við nægan tíma til að ræða frv. og hlusta á allar þær ræður sem hv. þm. Halldór Blöndal kýs að halda, svo skemmtilegt sem það nú kann að verða.