Frumvarp um efnahagsaðgerðir
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég hafði beðið um orðið um þingsköp í lok fundarins áður en honum var frestað, áður en þingflokksfundir hófust, þannig að hæstv. forseta var ljóst að ég hafði einhverjar óskir eða athugasemdir fram að færa varðandi umræðuna. En á hinn bóginn sá hæstv. forseti ekki ástæðu til þess að inna mig eftir því hvað ég hafði í huga en virðist hins vegar hafa rætt það mál við ýmsa þm. aðra í deildinni.
    Ég vil segja við formann fjh.- og viðskn., hv. 3. þm. Vesturl., að það væri auðvitað ástæða til þess að fresta fundinum til þriðjudags ef þess væri að vænta að formaður fjh.- og viðskn. eða kannski einhverjir af ráðherrum Alþfl. gætu verið viðstaddir umræðuna. Ég bað um það við 1. umr. þessa máls að reynt yrði að ná í ráðherra Alþfl. þannig að þeir gætu verið viðstaddir umræðuna, en ég hef ekki séð þeim bregða fyrir, ekki einu sinni í leiftursýn. Hins vegar hef ég tekið eftir því að hv. 3. þm. Vestf. telur sig vera sérstakan talsmann Alþfl. í þessu máli og er það e.t.v. vegna þess að hann er meiri áhugamaður um efni frv. sem hér liggur fyrir heldur en aðrir þm. í Alþfl. Ég vil sem sagt ítreka þá beiðni mína að fundurinn geti haldið áfram. Ég man ótal dæmi um að þingdeildarfundir hafi verið í báðum deildum þegar um meiri háttar mál hefur verið að ræða og fundum hefur verið fram haldið til kvöldmatar en hitt held ég að sé fátíðara, þegar þannig hefur staðið á, að önnur deildin sé send heim en hin látin vinna áfram. Ég vil finna að þessu og vil ítreka að ég legg áherslu á að umræðan geti haldið áfram viðstöðulaust. Það er ekki aðeins að við hér í stjórnarandstöðunni ætlumst til þess að málið komist til nefndar þannig að ýmislegt það sem í bráðabirgðalögunum er skýrist svo menn geti áttað sig á því hvað býr á bak við bráðabirgðalögin. Það eru ekki einungis við þingdeildarmenn sem óskum eftir að þessi mál skýrist heldur ótal aðilar úti í þjóðfélaginu sem þurfa að leita til þessa Atvinnutryggingarsjóðs sem hér er gert ráð fyrir að staðfesta með frv. sem hér hefur verið lagt fram.