Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Flm. (Hreggviður Jónsson):
    Hæstv. forseti. Hér er tekið til umræðu frv. til laga um hvalveiðibann. Flm. eru Hreggviður Jónsson og Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir.
    Í grg. segir m.a.:
    ,,Þann 2. febr. 1983 var samþykkt eftirfarandi þingsályktun á Alþingi:
    ,,Alþingi ályktar að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða, sem kunngerð var með bréfi til ríkisstjórnarinnar dags. 2. sept. 1982, verði ekki mótmælt af Íslands hálfu.``
    Með þessari þingsályktun var ótvírætt ákveðið að fara eftir samþykktum Alþjóðahvalveiðiráðsins, en um leið var í nefndaráliti um tillöguna innleiddur sá tvískinnungur sem hinar svokölluðu vísindaveiðar eru byggðar á. Ekki verður hér frekar rætt um það sem liðið er, því verður ekki breytt.
    Það fer ekki á milli mála að málflutningur náttúruverndarsamtaka víða um heim hefur áhrif, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Sú ,,mannlega`` ímynd, sem dregin er upp af hvölum í fjölmörgum sjónvarpsþáttum og þá ekki hvað síst í barnatímum, gerir hvalveiðar afar ógeðfelldar í hugum hundraða milljóna manna. Áhrif frjálsra náttúruverndarsamtaka eru víða sterk; það sést best á því að nokkur erlend fyrirtæki hafa hætt kaupum á íslenskum fiskafurðum af þessum sökum. Í setningu þessara laga felst ekki viðurkenning á réttmæti málflutnings náttúruverndarmanna. Hér er hins vegar horfst í augu við blákaldar staðreyndir og minni hagsmunir lagðir til hliðar fyrir meiri. Hvalveiðibann til fjögurra ára gefur okkur tóm til að skoða þessi mál vandlega. Eftir þann tíma má aflétta þessu banni eða framlengja eftir því hvað við teljum best fyrir hagsmuni okkar þá.``
    Hæstv. forseti. Undanfarna daga hafa farið fram miklar umræður í fjölmiðlum um hvalveiðar okkar Íslendinga. Hafa þessar umræður spunnist vegna aukins þrýstings á útflutningsfyrirtæki okkar sem flytja út sjávarafurðir. En nokkrir mikilvægir viðskiptaaðilar þeirra hafa hætt að kaupa afurðir eða gefið til kynna að svo kynni að verða.
    Það frv. til laga sem hér liggur fyrir er aðeins staðfesting á því ástandi sem skapast hefur. Í því felst hvorki viðurkenning á rökum náttúruverndarsamtaka víða um heim né útilokun á hvalveiðum í náinni framtíð.
    Umhverfismál njóta æ ríkari skilnings almennings um allan heim. Þetta á ekki hvað síst við um efnahagsbandalagslöndin, en til þessara landa fer langstærsti hluti útflutnings okkar ásamt til Bandaríkjanna. Án sölu á fiskafurðum til þessara landa blasir gjaldþrot við okkur. Það mannúðarsjónarmið sem hvalfriðungar bera í brjósti er um margt skiljanlegt og sú mannlega ímynd sem hvalir vekja hjá annars svo harðbrjósta heimi er sláandi. Eins og allir hafa getað fylgst með undanfarna daga er barátta hvalavina fyrir þremur gráhvölum út af Alaska slík að maður hlýtur að taka það til íhugunar. Það að bæði stórveldin skuli láta í té stórfellda aðstoð sýnir best hve þessi sjónarmið eru sterk og höfða til manna um

allan heim.
    Í Morgunblaðinu 23. okt. 1988 segir, með leyfi forseta: ,,Samúðarbylgja rís með málstað grænfriðunga. Grænfriðungar telja sig hafa himin höndum tekið í baráttu sinni gegn hvalveiðum vegna þjóðarsamúðar sem vaknað hefur í Bandaríkjunum með þremur gráhvölum er berjast fyrir lífi sínu í ísnum skammt frá bænum Barrow í Alaska. Fregnir af hvölunum í vökinni hafa verið aðalfréttir fjölmiðla alla vikuna og hafa sjónvarpsmyndir af dýrunum höfðað til tilfinninga almennings í Bandaríkjunum. Nú telja vísindamenn sig eygja leið til að koma hvölunum út úr ísnum á auðan sjó, eftir að vakir hafa verið sagaðar í hann. Er reynt að beina hvölunum eftir þeim í átt til hafs.``
    Hér þarf raunar ekki vitnanna við. Þetta segir mikið um hvernig við stöndum að þessu máli. Sú samúðarbylgja sem fylgir þessu um allan heim er mjög sláandi og er byggð á tilfinningum og við eigum erfitt með að færa rök gegn því.
    Í Morgunblaðinu þriðjudaginn 18. okt. 1988 er haft viðtal við forustumenn nokkurra þjóða um þessi mál, m.a. hæstv. forsrh. Steingrím Hermannsson. Hann segir þar, með leyfi forseta:
    ,,Við höfum fyrst og fremst verið að undirbúa okkur undir það að Alþjóðahvalveiðiráðið taki þessi mál til skoðunar árið 1990. Hins vegar tel ég vel koma til greina að fella niður veiðar næsta ár, sérstaklega ef hægt er að halda öllum þáttum hvalrannsókna úti, svo sem talningu, en niðurstöður hennar eru mjög mikilvægar fyrir fund ráðsins 1990.``
    Þessi ummæli hafa í raun opnað þetta mál töluvert mikið og þau urðu til þess að koma frekara skriði á það. Þegar forsrh. ræðir um að vel komi til greina að hætta hvalveiðum hljótum við að taka mark á því. En í sama blaði er einnig viðtal við framkvæmdastjóra frá fyrirtækjum okkar í Bandaríkjunum.
    Magnús Friðgeirsson segir, með leyfi forseta: ,,Við reiknum ekki með því að úr þessu verði samið við Long John Silver's um sölu á flökum á þessum ársfjórðungi.``
    Þetta eru alvarleg tíðindi. Og við hljótum að spyrja hvort við getum haldið svo áfram, hvort við getum lokað augunum fyrir þessu.
    Þá segir í sama blaði einnig þann 18. október, í viðtali við Magnús Gústafsson forstjóra: ,,Bein áhrif af mótmælum Greenpeace og annarra hvalfriðunarsamtaka eru orðin talsverð og fara vaxandi. Þau hafa orðið til þess að við höfum misst af samningi við stóran viðskiptavin. Skólar í Massachusetts, Maine, Alabama, Kaliforníu og Chicago kaupa sumir hverjir ekki fisk lengur og stórir viðskiptavinir hafa af þessu miklar áhyggjur. Þegar ekki dugir að fara að samþykktum Hvalveiðiráðsins og semja við bandarísk stjórnvöld hljótum við að verða að endurskoða hvalveiðistefnuna,,, sagði Magnús Gústafsson, forstjóri Coldwater Seafood. Þá sagði hann enn fremur: ,,Þessi þróun er slæm. Skólarnir eru okkur mikilvægir, en mikilvægast er að íslenskur fiskur fái ekki á sig það orð að hann eigi ekki að borða. Við höfum rökin okkar megin, en það dugir bara ekki til. Almenningur

vill ekki að hvalur sé drepinn. Hann stendur í þeirri meiningu að allar hvalveiðar hafi verið bannaðar vegna þess að stofnarnir voru hættkomnir.``
    Þetta er meginsjónarmiðið: ,,Við höfum rökin okkar megin, en það dugir bara ekki til. Almenningur vill ekki að hvalur sé drepinn.`` Og hann segir enn fremur: ,,Við verðum að endurskoða afstöðu okkar svo að meiri hagsmunum verði ekki fórnað fyrir minni.``
    Í Morgunblaðinu 19. okt. 1988 er viðtal við hæstv. utanrrh. Þar segir hann með leyfi forseta: ,,Yfirlýsingar um kúvendingu í hvalveiðimálinu komu á afar óheppilegum tíma.`` og ,,Hvað sem líður öllum ágreiningi um hvalamálið svokallaða, réttmæti eða nauðsyn vísindaveiðanna, verð ég að segja að yfirlýsingar forsrh. um að það sé að vænta kúvendingar af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar svo fyrirvaralítið sem raun ber vitni komi á afar óheppilegum tíma.``
    Já, yfirlýsingin frá forsrh. kom á afar óheppilegum tíma. Hún opnaði málið og breytti stöðunni. Við hljótum að taka mark á forsrh. --- eða er það ekki?
    Þá er sagt frá í Morgunblaðinu 19. okt. 1988 yfirlýsingu Sölustofnunar lagmetis og í henni segir, með leyfi forseta: ,,Stjórn Sölustofnunar lagmetis vill eindregið lýsa yfir stuðningi við hugmyndir um að tafarlaust verði tekin ákvörðun um að fresta hvalveiðum Íslendinga í vísindaskyni á næsta ári. Nauðsynlegum vísindarannsóknum á hvalastofnum verði lokið án frekari veiða. Það er mat þeirra aðila innan Sölustofnunar lagmetis sem gerst þekkja til að lífæð íslensks lagmetisiðnaðar sé í stórhættu í framhaldi af ákvörðun Tengelmann-samsteypunnar um að stöðva kaup á íslensku lagmeti. Áætlaður heildarútflutningur lagmetis á yfirstandandi ári er að verðmæti 1,5 milljarðar kr., þar af um tæp 60% til Vestur-Þýskalands.
    Stjórn Sölustofnunar lagmetis vefengir ekki rétt okkar Íslendinga til hvalveiða, en ljóst er að Greenpeace og önnur samtök umhverfisverndarmanna hafa meiri áhrif á þorra almennings en gert hefur verið ráð fyrir. Þess vegna ályktar stjórn Sölustofnunar lagmetis að ekki verði hjá því komist í ljósi síðustu atburða að endurmeta stefnu stjórnvalda í hvalamálinu og stöðva veiðarnar þar sem gífurlegir hagsmunir eru í hættu hjá íslenskum útflutningsiðnaði. Það er von okkar að stjórnvöld bregðist fljótt við svo að takast megi að koma á viðskiptum á ný við hið þýska fyrirtæki og ekki komi til stöðvunar hjá lagmetisiðjunum eins og nú lítur út fyrir.``
    Í Morgunblaðinu 23. okt. 1988 er vitnað til háskólarektors í brautskráningarræðu, en hann segir þar, með leyfi forseta: ,,Hvalveiðistefnan skaðar hagsmuni okkar. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af friðun hvala að sinni. Hvalveiðar hafa legið niðri í áratugi fyrr á þessari öld án þess að valda offjölgun hvala eða raska lífríki sjávar svo vitað sé.``
    Og í Dagblaðinu 24. okt. segir Gísli Már Gíslason líffræðingur, með leyfi forseta: ,,Alþjóðahvalveiðiráðið hefur í tvígang samþykkt ályktunartillögur sem hvetja Íslendinga til að draga heimildir til vísindaveiða til

baka. Það höfðu komið fram efasemdir um gildi vísindaveiða í vísindanefnd Hvalveiðiráðsins. 1987 samþykkti Alþjóðahvalveiðiráðið að hvalveiðiheimildir Íslendinga fullnægðu ekki þeim skilyrðum sem sett voru 1986 um sérstakar veiðiheimildir og því skorað á Íslendinga að draga veiðiheimildir til baka.
    Í vor var þessi ályktunartillaga samþykkt með breyttu orðalagi þar sem Íslendingar eru minntir á að þeir hafi ekki farið að tillögu ráðsins frá árinu áður. Það er því ekki hægt að segja að við förum eftir stefnu Alþjóðahvalveiðiráðsins í vísindaveiðum okkar eins og forsrh. hefur haldið fram,,, sagði Gísli Már Gíslason líffræðingur sem setið hefur fundi Vísindaráðs.
    Í sama blaði er viðtal við hæstv. sjútvrh. Halldór Ásgrímsson þar sem hann lætur í ljós skoðun sína á ræðu háskólarektors og segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Ég er ósammála þeirri skoðun háskólarektors sem hann lét frá sér fara í ræðu sinni um hvalveiðistefnu okkar Íslendinga við brautskráningu háskólastúdenta á laugardaginn. Líffræðideild Háskólans hefur unnið gegn hvalarannsóknum okkar Íslendinga um langan tíma, en ég var að vonast til þess að það yrði ekki látið í ljós með þessum hætti.``
    Hann segir enn fremur: ,,Ég hef hingað til litið svo á að Háskólinn ætti að sinna vísindalegum rannsóknum á hafinu í kringum landið, en því miður hafa þeir ekki sýnt Hafrannsóknastofnun neinn áhuga í langan tíma. Þetta er mjög alvarlegt mál.``
    Ég tek undir það að þetta er mjög alvarlegt mál. Það er mjög alvarlegt þegar Háskólinn er sakaður um að sinna ekki vísindastörfum og þegar ráðherra sakar okkar æðstu menntastofnanir um að sinna ekki vísindarannsóknum og þeir hafi ekki rétt fyrir sér. Það er mjög alvarlegt mál.
    Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er lagt fram er tákn breyttra tíma, nýrra áherslna sem munu verða í umræðum og framkvæmdum á alþjóðavettvangi í framtíðinni. Þjóðir heimsins eru hægt og hægt að átta sig á umhverfismálum og átta sig á því að þau skipta þar einnig máli. Þetta mál er angi af því. Þegar hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson hóf máls á því að breyta ætti áherslum í hvalveiðimálum tóku margir mark á því. Þegar hann sagði í áðurnefndu viðtali við Morgunblaðið, með leyfi forseta, ,,að stjórnvöld hefðu miklar áhyggjur af þeim viðskiptahagsmunum sem kunna að vera í húfi og að vel komi til greina að fella niður veiðar næsta ár`` tókum við mark á ummælum forsrh., sérstaklega var þó þetta úti í hinum stóra heimi þar sem þessi ummæli hafa vakið athygli og fjöldi manna heldur að um sé að ræða stefnubreytingu hjá ríkisstjórn Íslands. Hér á landi taka menn e.t.v. minna mark á orðum hæstv. forsrh. og láir þeim það enginn.
    Ræða dr. Sigmundar Guðbjarnasonar, rektors Háskóla Íslands, sl. laugardag við brautskráningu kandídata er að minni hyggju einhver besta ræða sem flutt hefur verið lengi hér á opinberum vettvangi. Ég sé ástæðu til að endurtaka þann hluta hennar sem kemur þessu máli við, með leyfi forseta, en hann

sagði:
    ,,Á undangengnum mánuðum höfum við fylgst með sorglegu sjónarspili í íslenskum stjórnmálum. Slíkar deilur, sem við erum vitni að, skerða traust og virðingu stjórnmálamanna okkar. Barlómur og úrtölur dynja á okkur í fjölmiðlum, hrakspár og svartsýni draga þrótt og kjark úr fólkinu. Ástæðan fyrir því að okkur skortir kjark er ekki sú að lífið sé erfitt. Lífið er erfitt af því að okkur skortir kjark --- sagði Seneca forðum.
    Nú þrengir að á erlendum mörkuðum fyrir íslenskar útflutningsafurðir vegna stefnu í hvalveiðimálum. Það þarf kjark til að kyngja stolti og stefnu sem ekki reynist farsæl. Flestum landsmönnum er ljóst að hér þarf að taka mið af raunveruleikanum en ekki óskhyggju. Hvalveiðistefnan skaðar hagsmuni okkar. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af friðun hvala að sinni. Hvalveiðar hafa legið niðri í áratugi fyrr á þessari öld án þess að valda offjölgun hvala eða raska jafnvægi í lífríki sjávar svo vitað sé. Deilt er einnig um arðsemi fjárfestinga til lands og sjávar, um ofbeit og landeyðingu, um hagkvæmni í fiskveiðum og fiskvinnslu og fleira mætti telja.``
    Þá segir hann einnig: ,,Nú er svo komið víða í Evrópu að jarðvegur er spilltur og óhæfur til ræktunar, drykkjarvatn óneysluhæft og hafið svo mengað að fiskurinn verður óætur.``
    Já, þessi orð eru stór og þau hljóta að vekja okkur til umhugsunar um þessi mál með nýjum hætti, bæði hvað varðar hvalveiðar, hvað varðar umhverfismál og hvað varðar mengun hafsins. Það er kominn tími til að Alþingi og ríkisstjórn Íslands marki sér nýja stefnu, hugsi þessi mál upp á nýtt. Ég held að menn ættu að taka undir orð rektorsins sl. laugardag. Þau eru gagnmerk og við eigum að fara og vinna eftir þeim.
    Þá segir í Morgunblaðinu 26. október, í dag, að fyrirtækið Aldi, sem er einn stærsti viðskiptavinur Sölustofnunar lagmetis, sé að hugsa um að hætta viðskiptum við okkur. Það er stór samningur sem þarna er í húfi, upp á 400 millj. kr. Í viðtali við blaðið segir framkvæmdastjóri Sölustofnunar lagmetis, Theódór S. Halldórsson, með leyfi forseta:
    ,,Ef það nær fram að ganga að þessi viðskipti stöðvast og minni hagsmunir séu þannig teknir fram yfir meiri, þá leiðir það til þess að atvinnuöryggi í verksmiðjunum er stefnt í hættu og margra ára markaðsuppbygging er eyðilögð og stoðum kippt undan mörgum verksmiðjum í lagmetisiðnaði.`` Hann bætti við að þær verksmiðjur sem aðallega yrðu fyrir þessu væru á Norðurlandi og hér á suðvesturhorninu. Ég ætla ekki að telja það upp hér, en það sýnir hversu alvarlegt þetta mál er.
    Hæstv. forseti. Eins og kemur fram í umræddri frétt frá því í dag eru mikil verðmæti í húfi og hagsmunir sem eru margfalt meiri eru hagsmunir okkar af hvalveiðum. Hér er um að ræða atvinnu hundraða manna og gjaldþrot fyrirtækja sem eru í hópi þeirra fáu sem fullvinna sjávarafurðir okkar í neytendaumbúðir á erlendan markað. Niðurlagningarverksmiðjur, á Ísafirði Böðvar

Bjarnason, í Hafnarfirði Norðurstjarnan, í Kópavogi Ora, á Húsavík Hik, á Dalvík Pólstjarnan, á Akureyri K. Jónsson, flytja út vörur að verðmæti 1,5 milljarða kr. fob á ári. Þetta varðar ekki aðeins niðurlagningu á rækju, síld og fleiru heldur er hér einnig um að ræða niðurlagningu á kavíar og grásleppuhrognum, um það bil fyrir litlar 100 millj. kr. eða 40--50 þúsund
kassar af kavíar. Þessi framleiðsla fer að stórum hluta á Þýskalandsmarkað. Þetta snertir því grásleppukarla um allt land og þeir eru ófáir. Keppinautar okkar í Danmörku og Svíþjóð mundu glaðir grípa tækifærið til að ná til sín þessum viðskiptum og niðurlagningu á óunnum vörum frá Íslandi sem síðan yrðu seldar undir dönskum og sænskum vörumerkjum. Það er ljóst að þessi iðnaður okkar er hruninn ef ríkisstjórnin tekur ekki af skarið strax og lýsir yfir hvalveiðibanni, a.m.k. til 1990 þótt æskilegt sé að gera það til fjögurra ára eins og fram kemur í lagafrv. sem hér liggur fyrir.
    Hæstv. forseti. Staða okkar gefur tilefni til að hugsa til framtíðar, reyna að gera okkur grein fyrir því hvað framtíðin ber í skauti sér. Ég tel að við eigum að gerbreyta áherslum okkar í þessum málum og taka upp nána samvinnu við öll frjáls náttúruverndarsamtök beggja vegna Atlantsála. Við getum t.d. boðið þeim að hafa höfuðstöðvar sínar hér. Við eigum að taka forustu í umhverfismálum í heiminum. Með samvinnu við þessi samtök getum við það. Framtíð fiskveiða, framtíð lífríkis, bæði í andrúmslofti og í hafi, er svo stórt mál að við getum ekki látið hjá líða að hefja ótrauðir baráttu á þeim sviðum. Samtakamáttur frjálsra náttúruverndarsamtaka um allan heim er vaxandi og við skulum taka höndum saman við þau og tryggja komandi kynslóðum að hér verði hægt að búa.
    Ég tek undir með dr. Sigmundi Guðbjarnasyni að lífið er erfitt af því að okkur skortir kjark, kjark til að horfast í augu við staðreyndir og hætta hvalveiðum um sinn. Við eigum réttinn, við tökum einir ákvörðun í þessu máli, en látum ekki fara fyrir okkur eins og ökumanninum sem átti réttinn, tók hann og lést í árekstrinum. Við skulum heldur slaka á og halda lífi.
    Ég hef lokið máli mínu og legg til, hæstv. forseti, að frv. verði vísað til sjútvn. Nd.