Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Guðrún Helgadóttir:
    Virðulegi forseti. Það er heldur dapurlegt að við skulum standa með tvö þingmál fyrir framan okkur þar sem farið er fram á að hvalveiðar verði stöðvaðar. Um það ályktaði Alþingi árið 1982. Ég held að það sé nefnilega ekki rétt hjá hæstv. ráðherra að þessi stefna okkar verði ekki mótuð úr ræðustól á Alþingi. Ég held að ástæðan fyrir því að þessi tvö þingmál liggja nú fyrir sé sú að menn sjá að hún verður að mótast í ræðustól á Alþingi. Svo er nú komið.
    Ég held, hæstv. forseti, að ég hljóti að taka nokkurn tíma í að útskýra um hvað allt þetta mál snýst. Bæði er að hér eru nú nýir þingmenn frá okkar fyrri umræðum um þetta mál og jafnframt held ég að það sé alveg nauðsynlegt að fólk skilji um hvað þetta mál snýst og hefur alltaf snúist.
    Með aukinni þekkingu mannsins á umhverfi sínu hefur orðið æ ljósara hversu afdrifaríkt kann að reynast ef einstakir hlekkir í lífkeðju jarðarinnar bresta. Íslendingar hafa tekið virkan þátt í samstarfi þjóða heims um verndun lífríkisins, varnir gegn mengun landa, lofts og lagar og þáttur Íslendinga í gerð hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna var Íslandi til sóma. Á vettvangi Norðurlandaráðs höfum við Íslendingar lagt á okkur mikla vinnu. Á síðasta þingi ráðsins var samþykkt tillaga, sem ég var 1. flm. að, um varnir gegn mengun hafa og stranda á norðurhveli jarðar þar sem skorað var á ráðherranefndina að láta gera samræmda áætlun um þau mál. Sú áætlun liggur nú fyrir og verður rædd á aukaþingi Norðurlandaráðs nú í nóvember. Allir íslensku sendifulltrúarnir skrifuðu undir þessa tillögu, ég vil taka það fram.
    Jafnframt liggur fyrir þessu aukaþingi umfangsmikil áætlun um varnir gegn mengun umhverfisins og svo mikilvægt þykir þetta mál að nú er í fyrsta skipti að ég hygg haldið aukaþing Norðurlandaráðs í nóvember. En því er ekki að neita að það er erfitt að vera Íslendingur þessa dagana og ræða umhverfismál á alþjóðavettvangi. Það er erfitt. Og haldi menn að fulltrúar Íslands hafi notað sér þá stöðu og reynt að ná sér niðri á pólitískum andstæðingi, skulum við segja, þó að við hæstv. ráðherra séum nú orðnir samherjar, þá er það rangt. Ég hef meira að segja varið okkur Íslendinga í þessu máli í ræðustól á Norðurlandaráðsþingi og bent þeim góðu Skandínövum á að þeim væri nær að staðfesta hafréttarsáttmálann áður en þeir færu að blanda sér í hvað við værum að gera í þessu máli. En ekki fylgdi alveg hugur máli. Það skal ég játa.
    Það hefur ekki verið neinn ágreiningur um sjálfsagðan þátt okkar í samvinnu þjóða um umhverfismál fyrr en tekist hefur að gera okkur nú að viðundri á alþjóðavettvangi vegna hvalveiðimálsins sem nú sýnist komið í óleysanlegan hnút eins og hér hefur verið varað við og ég varaði við fyrir mörgum árum. Það verður því ekki með sanni sagt að við þessu hafi ekki verið varað, en e.t.v. höfum við gert of lítið af því að skýra eðli málsins fyrir almenningi og þess vegna hættir mörgum til að ruglast á aðalatriðum og aukaatriðum málsins. Því er ekki að

neita að nokkuð bar á því í ræðu hv. 1. flm. þess lagafrv. sem hér liggur fyrir.
    Þegar menn tala um Alþjóðahvalveiðiráðið er ég ekki viss um að menn geri sér alveg ljóst hvað Alþjóðahvalveiðiráðið er. Menn segja hvað eftir annað: Þetta er ómöguleg stofnun. Þarna eru þjóðir sem aldrei hafa séð hval o.s.frv. Alþjóðahvalveiðiráðið er ekki nýleg uppfinning þrýstihópa um allan heim eins og oft hefur verið látið í veðri vaka. Árið 1946 gerðu hvalveiðiþjóðir með sér sáttmála um skipan hvalveiða og gekk hann í gildi 10. nóv. 1948. Íslendingar tilkynntu þátttöku sína 10. mars 1947 og hafa verið aðilar að honum æ síðan. Löngu áður höfðu menn verið uggandi um ofveiði á hvölum og t.d. bannaði Alþingi Íslendinga hvalveiðar árið 1915 og nær 20 ár liðu þar til þær voru leyfðar á ný. Þá voru engir þrýstihópar viðriðnir bannið og hvorki Greenpeace né Sea Shepherd eða önnur slík samtök þannig að þeir aðilar, sem oft er vitnað til og kennt um þessi vandræði sem við erum í, voru þá vart fæddir eða a.m.k. á barnsaldri. Alþjóðahvalveiðiráðið var því og er alþjóðastofnun sem starfar sjálfstætt, var upphaflega komið á fót af hvalveiðiþjóðum til þess að fylgjast með viðgangi hvalastofnanna og koma í veg fyrir ofveiði. En ólíkt ýmsum hliðstæðum stofnunum starfar ráðið ekki undir yfirstjórn Sameinuðu þjóðanna vegna andstöðu nokkurra ríkja við slíkt fyrirkomulag.
    Fjölmargar þjóðir aðrar en hvalveiðiþjóðir eru nú aðilar að ráðinu þar sem öllum er löngu ljóst að verndun lífríkisins er ekki einkamál einnar þjóðar fremur en annarrar heldur siðferðileg skylda alls mannkyns.
    Síðan hafa komið upp sögusagnir hvað eftir annað um starfsemi Alþjóðahvalveiðiráðsins, fundir séu með þeim hætti að ekki sé sómi að og hafa slíkar fullyrðingar margsinnis komið fram hér í fjölmiðlum. Væri ekki ráð að upplýsa hvernig Alþjóðahvalveiðiráðið vinnur?
    Því er skipt í þrjár starfsdeildir, vísindanefnd, tækninefnd og allsherjarnefnd. Vísindanefnd ráðsins rannsakar vísindaleg gögn og upplýsingar og leggur mat sitt á það sem þar kemur fram. Vísindanefndin beitir ekki atkvæðagreiðslu heldur leggur fram tilmæli og greinargerðir til tækninefndarinnar. Þess vegna er auðvitað ekki óalgengt, eins og gerist á
vísindalegum vettvangi, að menn greini á í niðurstöðum sem frá nefndinni og sérnefndum hennar koma þar sem vísindamenn telja sig vita sáralítið um háttu og lífshlaup hvalanna þó að þeir sem alls ekkert vita telji sig þess umkomna að fullyrða að hvalastofnarnir séu ekki í minnstu hættu.
    Tækninefnd ráðsins er fullskipað þing og það sitja sendifulltrúar aðildarríkjanna. Þar er beitt atkvæðagreiðslu og einfaldur meiri hluti nægir til að vísa málum til allsherjarnefndar eða stöðva þau, en þar er endanleg ákvörðun tekin. Þegar ákvörðun er tekin í allsherjarnefnd þarf aukinn meiri hluta eða 3 / 4 atkvæða. Þannig á að vera tryggt að engar ákvarðanir verði teknar nema með samþykki yfirgnæfandi meiri hluta aðildarríkjanna. Lýðræðið innan ráðsins er þó

enn styrkt með því að sé eitthvert aðildarríki ósátt við ákvörðun ráðsins á það rétt á að mótmæla henni innan 90 daga. Alþjóðahvalveiðiráðið er því stofnun sem leggur vísindalegar niðurstöður til grundvallar við ákvarðanatöku, en er ekki samkunda þrýstihópa.
    Rekjum okkur aðeins aftur. --- Ég bið hv. þingheim að hafa þolinmæði með mér vegna þess að ég hef ekki oft talað í þessu máli og hyggst því gera það nokkuð rækilega hér.
    Sumarið 1972 var haldin í Stokkhólmi fyrsta alþjóðaráðstefna Sameinuðu þjóðanna um umhverfismál og tóku 113 ríki þátt í henni. Á ráðstefnunni var rætt um helstu vandamál í samskiptum mannsins og lífríkis jarðarinnar. Þar kom m.a. fram að nauðsyn bæri til að auka rannsóknir á lífi hvalanna og tilmælum var beint til Alþjóðahvalveiðiráðsins um að það beitti sér fyrir frestun á hvalveiðum og stórauknum rannsóknum á hvalastofnunum. Tilmælin hlutu góðar undirtektir og fulltrúar Íslands greiddu þeim atkvæði sitt. Þar með höfðu Íslendingar tekið ábyrgð á viljayfirlýsingu um stöðvun hvalveiða um sinn.
    Á 24. ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins, sem haldinn var tveim vikum seinna, bar hins vegar svo við að fulltrúar Íslands greiddu atkvæði gegn tillögu sem aðalritari Stokkhólmsráðstefnunnar bar fram fyrir hönd aðildarríkjanna, en hún var um stöðvun hvalveiða í ábataskyni í tíu ár. Hið sama gerðist á 25. ársfundi ráðsins og um árabil skipuðu Íslendingar sér síðan í hóp þeirra þjóða sem höfnuðu frestun á hvalveiðum. Kann ég engar skýringar á þessari afstöðubreytingu.
    Sumarið 1982 samþykkti Alþjóðahvalveiðiráðið síðan bann við hvalveiðum frá og með árinu 1986 og til ársins 1990 svo að tóm gæfist til að rannsaka stærð hvalastofnanna sem margir vísindamenn óttuðust að væru í útrýmingarhættu. Hvalveiðiþjóðum var þannig veittur aðlögunartími í 3 1 / 2 ár þar til veiðum yrði hætt. Norðmenn, Sovétmenn og Japanar mótmæltu banninu þegar, en á Alþingi Íslendinga var eftirfarandi ályktun samþykkt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun hvalveiða, sem kunngerð var með bréfi til ríkisstjórnarinnar dags. 2. sept. 1982, verði ekki mótmælt af Íslands hálfu.``
    Tillagan kom fram, eins og hér hefur áður komið fram, frá meiri hluta utanrmn. og ég held ég muni það rétt að sjálfur hæstv. núv. sjútvrh. hefði orð fyrir nefndinni, en nefndin hafði til afgreiðslu þá þáltill. hv. þm. Eiðs Guðnasonar um að banninu skyldi mótmælt. Minni hluti nefndarinnar, þ.e. hv. utanrmn., lagði fram aðra tillögu samhljóða tillögu Eiðs. Atkvæðagreiðslan fór fram með nafnakalli og samþykktu 29 þingmenn að banninu yrðu ekki mótmælt, 28 að því skyldi mótmælt.
    Eins og hæstv. ráðherra minntist á áðan kom fram í nál. bæði minni hl. og meiri hl. vilji til að stórauka rannsóknir á hvalastofnunum hér við land. Það var þó ekki fyrr en haustið 1984, nær tveim árum seinna, að sjútvrh. skipaði nefnd til að undirbúa hvernig

rannsóknunum skyldi háttað. Hinn 21. febr. 1985, þegar nefndin hafði skilað verki sínu, fól ráðherra Hafrannsóknastofnun að semja áætlun um rannsóknir á hvalastofnunum og undruðust menn nokkuð hversu seint var af stað farið þar sem bannið skyldi taka gildi þann 1. janúar 1986 eða eftir aðeins tíu mánuði.
    Hinn 11. apríl eða 1 1 / 2 mánuði seinna, og takið eftir: 1 1 / 2 mánuði seinna skilaði Hafrannsóknastofnun áætlun sinni um hvalveiðar í vísindaskyni. Framkvæmdaáætlun lá síðan fyrir í byrjun maí og samningur var gerður við Hval hf. og undirritaður 14. maí 1985 þar sem fyrirtækinu var falið að annast veiðar á 80 langreyðum og 40 sandreyðum árlega meðan bannið væri í gildi undir yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar. Má segja að hér hafi verið unnið rösklega þegar loks var af stað farið.
    Andvirði hvalaafurðanna skyldi renna óskipt til greiðslu kostnaðar sem tengdist hvalarannsóknum, en afgangurinn ef einhver yrði skyldi renna í sérstakan sjóð sem ekki má nota til annars en hvalarannsókna. Íslenska ríkið skal samkvæmt samningnum ekki leggja fram fé til rannsóknanna og hugsanlegt tap af rekstrinum er algerlega á ábyrgð Hvals hf. Áætlunina um árlegt veiðimagn skal endurskoða í upphafi hvers árs.
    Já, það verður að segjast eins og er að hér voru höfð snör handtök. Fullyrt var að margir vísindamenn hefðu unnið að áætluninni, en ekki mun
stofnun eins og t.d. Náttúruverndarráð hafa komið mikið þar við sögu. Áætlunin fór síðan til Alþjóðahvalveiðiráðsins, fyrst til vísindanefndarinnar að venju en samkvæmt sáttmálanum frá 1946 á ráðið fyrst og fremst að fjalla um veiðimagn. Veruleg gagnrýni kom fram á áætlunina í vísindanefndinni og undirnefndum hennar sem fjalla um hinar ýmsu stofntegundir og töldu margir að óþarft væri að veiða svo mikið magn. Þegar væru til sýni sem nægðu til rannsókna og áhugaverðara væri að leggja áherslu á talningu á lifandi dýrum. En eins og fram kom áðan ganga mál ekki til atkvæða í vísindanefndinni. Heimild til veiða í rannsóknaskyni var þegar að finna í sáttmálanum frá 1946 og reglugerð samkvæmt henni, en hér þótti ýmsum að um of mikið magn væri að ræða. Þá var minnst á hugsanlega hagsmunaárekstra við fyrirtækið sem veiðina átti að annast og þar með að kosta hinar vísindalegu rannsóknir.
    Enn bentu menn á að í hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna væru skýr ákvæði um flökkustofna sjávardýra og eru hvalir þar sérstaklega tilnefndir. Segir þar að aðildarríkin skuli vinna saman að verndun sjávardýra og í samvinnu við alþjóðastofnanir að verndun hvalastofnanna. Nægir að minna á 64., 65. og 120. gr. hafréttarsáttmálans sem margir hv. alþm. hér þekkja. Hvalirnir eru þannig teknir sérstaklega fyrir vegna þess að þeir ferðast um öll heimsins höf svo að engri þjóð er auðvelt að eigna sér stofnana.
    Íslensk stjórnvöld hirtu ekkert um athugasemdir vísindanefndarinnar og veiðarnar hófust.
    Á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Malmö í maí 1986 komu fram athugasemdir við fjármögnun

veiðanna. Menn höfðu ekki gert sér ljóst að veiðarnar yrðu stundaðar í ábataskyni og rannsóknirnar fjármagnaðar með sölu afurða. Eftir harða orrahríð var samþykkt ályktun um að Íslendingar nýttu 51% afurðanna af veiddum hvölum innan lands, en veitt heimild til að flytja 49% á erlendan markað. Þetta leyfi var veitt í samræmi við ákvæði í sáttmálanum frá 1946 um að veiðiþjóðir nýti þau dýr sem veidd eru.
    Raunasöguna sem hér á eftir fylgdi þekkja flestir. Snemma árs 1986 fóru að berast fregnir um að helstu kaupendur hvalaafurða okkar, Japanar, mundu e.t.v. ekki halda viðskiptum áfram meðan á hvalveiðibanninu stæði af ótta við að glata með því fiskveiðiréttindum sínum innan bandarískrar lögsögu. Japanar áttu um þetta leyti í málaferlum í Bandaríkjunum um gildi svokallaðra Packwood/Magnusson-laga, en þau heimila Bandaríkjamönnum að beita viðskiptabanni á þjóðir sem stofna dýrategundum í útrýmingarhættu, og þessi réttarhöld standa enn. Þeir kváðust banna innflutning á hvalaafurðum Íslendinga til Japans ef til greina kæmi að Bandaríkjamenn beittu áðurnefndum lögum vegna innflutningsins.
    Niðurstaða málaferlanna varð sú um sinn að forseti Bandaríkjanna hefði nokkurt svigrúm í hverju tilviki til að beita viðskiptabanni svo að engin yfirlýsing kom frá Japönum að sinni um kaup á hvalafurðum frá Íslandi. En samningar létu á sér standa og augljóst var að þeir héldu að sér höndum.
    Sama ár, virðulegi forseti, fór svo sending af hvalkjöti áleiðis til Japans og er öllum í fersku minni hvernig fyrir þeirri sendingu fór í Hamborg. Samkvæmt samningi milli Efnahagsbandalagsríkjanna er óheimilt að flytja um hafnir aðildarríkjanna afurðir af dýrum sem talin eru í útrýmingarhættu og kjötið var sent aftur heim til Íslands. Og menn spurðu í undrun hvernig þetta mætti gerast, hvort viðskrn. hefði ekki haft minnstu vitneskju um þennan samning þegar það veitti umrætt útflutningsleyfi. En það var lítil svör að hafa á þeim bæ. Hið sama endurtók sig síðan með hvalkjötssendingu sem átti að komast til Japans yfir hið stóra Rússland og endaði för sína í Finnlandi.
    Ársfundur Alþjóðahvalveiðiráðsins var enn haldinn í Bournemouth í júní sl. ár og nú harðnaði leikurinn. Ástralíumenn lögðu fram tillögu þess efnis að hvalveiðar Íslendinga samræmdust ekki samþykktum ráðsins um undanþágu til hvalveiða í vísindaskyni. Framkvæmdahluti tillögunnar var samþykktur með atkvæðum 16 þjóða, sex voru á móti og níu sátu hjá. Inngangur tillögunnar var samþykktur með 19 atkvæðum, fjórir voru á móti og átta sátu hjá. Fulltrúar Íslands höfðu lagt fram tillögu um að frestað yrði að fjalla um vísindaáætlunina til næsta fundar þar sem Bandaríkjamenn höfðu fengið samþykkt að um hana færi fram atkvæðagreiðsla, en tillaga Íslendinganna var felld. Það kom Íslendingunum á fundinum eflaust á óvart hversu lítinn stuðning málflutningur þeirra hlaut. Hæstv. sjútvrh. varð enda þungur í skapi og tók að hóta að Íslendingar segðu

sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Skynsamur maður eins og ráðherrann veit mætavel að hann hefur ekkert umboð til þess að hóta því.Þar yrði Alþingi Íslendinga að koma til sögunnar, hygg ég. Auk þess mundi úrsögn úr ráðinu á engan hátt bjarga okkur út úr þessu endemis vandræðamáli.
    Í þeirri stöðu sem málið er í nú, virðulegur forseti, stendur þetta eftir: Stórir og mikilvægir viðskiptaaðilar okkar erlendis hóta nú að hætta við okkur verslun. Af því hef ég a.m.k. áhyggjur. Vel má vera að hæstv. ríkisstjórn sé svo hraust til sinnis að hún eigi ekki órólega stund yfir þeirri þróun mála sem nú á sér stað. En það sem verra er er þetta: Orðstír Íslendinga í
umhverfismálum hefur beðið hnekki sem örðugt verður að hreinsa okkur af. Virðing manna fyrir vilja Íslendinga til að halda gerða samninga við aðrar þjóðir hefur dofnað svo um munar. Og eins og áður segir: Miklum viðskiptahagsmunum þjóðar okkar hefur verið stefnt í hættu sem menn þora varla að horfast í augu við.
    Ástæða þessa alls er einfaldlega sú að Íslendingum hefur ekki tekist að fá þjóðir heims til að skilja nauðsyn þessa hvaladráps og þær telja hvalveiðar Íslendinga ekki samræmast stefnu Alþjóðahvalveiðiráðsins sem mörkuð var 1982.
    Menn kunna að spyrja: Getur þjóðin verið án tekna af hvalaafurðum? Árið 1986 voru útflutningstekjur fyrir þessa vöru 185 millj., en fyrir allan útflutning okkar fengust 45 milljarðar. Svarið hlýtur því að vera já. Okkur munar ekkert um þetta þegar um er að ræða þjóðartekjur. Er slíkt atvinnuleysi í landinu að ógerlegt væri að finna starfsmönnum Hvals hf. önnur störf ef hvalveiðum yrði hætt? Ég held að svarið hljóti að vera nei. Og það sem er orðið næstum grátbroslegt í stöðu málsins eins og hún er nú: Ég hygg að enginn maður yrði glaðari ef hann fengi að hætta hvalveiðum en marg- og títtnefndur Kristján Loftsson sem ég held að hljóti að vera orðinn afar þreyttur á þessum atvinnuvegi sínum uppi í Hvalfirði og yrði allra manna glaðastur ef hann fengi að hætta hvalveiðum að sinni.
    En það sem þjóðin á auðvitað rétt á er að fá skýringu á þessu hagsmunamati. Það er löngu ljóst að þvermóðska íslenskra stjórnvalda leiðir ekki til neins í þessu máli. Stefna Íslendinga í þessu máli er töpuð, virðulegur forseti. Deilan um hvalveiðarnar er töpuð fyrir Íslendinga og engin leið út úr henni nema hætta hvalveiðum. Vissulega hefur hæstv. ráðherra rétt fyrir sér að það er ekki verið að veiða hval núna, en það nægir ekki heiminum. Við þurfum að segja við heiminn hér og nú: Við ætlum ekki að veiða einn einasta hval fyrr en hvalveiðibanninu lýkur árið 1990. Menn sætta sig ekki við neinar orðalagsbreytingar úr þessu. Málið snýst ekki um það.
    Íslendingar eru ekki einir í heiminum og kjánaleg þjóðremba sem gripið hefur verið til lítillækkar okkur aðeins í augum umheimsins. Við getum hins vegar lagt stóran skerf til umhverfismála með rannsóknum á lifandi hvölum í hafinu í kringum landið.

    Eitt er það atriði sem ekki hefur komið fram í þessu máli sem er hlutur fjölmiðla. Þeir sem kunnugir eru málum í Bandaríkjunum, og það er ég ekki, hafa sagt mér, og það getur raunar hver sagt sér sjálfur, að fjölmiðlakeðjan í Bandaríkjunum er ákaflega flókin. Áróður er óralengi í gegnum þá keðju. Það eru ekki allir Bandaríkjamenn að horfa á sömu sjónvarpsstöðvarnar á hverju kvöldi eins og gerist víða annars staðar. Það tekur því þó nokkurn tíma að ná til almennings þannig að skoðun sé mótuð. Nú hefur það gerst og þá getur ekkert stöðvað það almenningsálit, og að einhver íslenskur ráðherra eyði fjármunum þjóðarinnar ótæpilega í að senda embættismenn út og suður, vestur um haf og hvert á land sem er til að útskýra samþykktina í Malmö eða samþykktina í Bournemouth eða einhverjar orðalagsbreytingar í einhverjum samningum virkar einungis hlægilega á fólkið í þessum löndum.
    Við skulum athuga að nú hefur myndast skoðun í Þýskalandi og það gerist miklu hraðar. Og ég vil spyrja virðulegan forseta: Eru menn aldeilis alveg rólegir yfir þessari þróun mála? Mér finnst það slíkt ábyrgðarleysi að líkast sé sem hér sitji sofandi sauðir, og bið ég nú afsökunar, virðulegi forseti, á orðalaginu. Ég tel að þetta mál sé af þeirri stærðargráðu að hér verði hv. alþm. að taka höndum saman, setja niður allar fyrri deilur og finna lausn á þessu máli. Og hún er ofur einföld. Við erum búin að veiða það sem við þurfum að veiða. Við eigum nóg sýni. Jafnvel þó það væri ekki satt ættum við að segja það. Ég held þó að það sé heilagur sannleikur. Við eigum hins vegar að segja: Við erum tilbúin til að stunda rannsóknir á lifandi dýrum. Ég get fullvissað hv. þingheim að íslenska ríkið þarf ekki að borga eina krónu af því. Samtök um allan heim eru miklu meira en fús til að kosta þær rannsóknir þann dag sem við hættum að veiða hval. Svo einfalt er það. En á meðan við höldum áfram að veiða fáum við auðvitað ekki eina krónu úr nokkrum slíkum sjóði.
    Ég skal nú, virðulegur forseti, fara að stytta mál mitt. Af mínum flokki er það að segja að hans stefna í þessum málum er ljós. Um hana hefur landsfundur Alþb. ályktað og þeirri stefnu ber okkur að fylgja.
    Að lokum, virðulegur forseti. Hæstv. sjútvrh. sagði áðan: Eigum við að víkja fyrir hótunum? Hvað næst? Hvað verður okkur bannað að veiða næst? Og þetta var gáfuleg spurning. Það getur nefnilega gerst með hvað sem er vegna þess að það er löngu ljóst að engin þjóð á neinar auðlindir jarðarinnar. Við eigum auðlindir jarðarinnar öll saman og þeim verður ekki bjargað úr þeim háska sem þær eru í nú nema í friði og sátt við aðrar þjóðir og í samvinnu við þær. Ekkert einasta mál sem varðar verndun umhverfisins er einkamál neinnar einnar þjóðar. Jörðin er og verður sameiginleg eign okkar allra. Það er ekki minna mál fyrir okkur uppi á Íslandi ef regnskógum Suður-Ameríku verður eytt en það er fyrir þá sem þar búa. Þetta getur hvert mannsbarn sagt sér sjálft.
Ósonlag jarðarinnar er ekki íslenskt vandamál og verður ekki ef einhverjir hafa haldið það.

    Ég bið því að lokum, virðulegur forseti og hv. þingheimur, ég bið þess að um þetta mál verði nú rætt með öðru orðalagi en hingað til og við tölum um það vandamál sem við stöndum frammi fyrir hér og nú. Það er dagljóst að það er meira en skortur á stjórnvisku og viti til að stjórna þjóð að þrjóskast enn við og halda áfram að tala um einstök ,,paragröf`` í einhverjum samningum. Íslenska ríkisstjórnin á að segja: Við höfum þegar veitt þann hval sem á að veiða meðan á banninu stendur. Við munum halda hins vegar áfram rannsóknum á lifandi dýrum.
    Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.