Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Árni Gunnarsson:
    Herra forseti. Í mínum huga er það mál, sem hér er til umræðu, tvíþætt. Í fyrsta lagi snertir það umhverfismál að mjög verulegu leyti og þá um leið viðskiptahagsmuni Íslendinga erlendis, bæði austan hafs og vestan. Í öðru lagi hlýtur inn í þessa umræðu að blandast sú efasemd, sem komið hefur fram hjá ýmsum vísindamönnum, að réttur okkar til vísindahvalveiða sé vefengjanlegur.
    Ég hirði ekki um það, herra forseti, á þessari stundu að fara um frv. sem hér er til umræðu mjög mörgum orðum. Fyrir Sþ. liggur nú þáltill. sem ég hef flutt og hef samið með það fyrir augum að hún gæti verið útgönguleið í því erfiða máli sem hér er til umræðu.
    Ég vil láta það koma fram strax í byrjun að mér finnst fráleitt að samþykkja lög eins og hér er lagt til að verði gert. Það bindur hendur stjórnvalda um of og dregur úr þeim sveigjanleika sem stjórnvöld þurfa að hafa í máli af þessu tagi til að geta leyst það.
    Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni að við Íslendingar erum sljóir í umhverfismálum. Þessi sljóleiki hefur komið fram í margvíslegum myndum á undanförnum árum og snertir okkur innan lands mjög mikið. Við höfum ekki gætt að okkur í sambandi við okkar eigin umhverfismál og á ég þá sérstaklega við uppfok lands, landeyðingu, frágang á sorpi, frárennsli, hvernig gengið er frá hvers konar úrgangsefnum, hættulegum, eitruðum o.s.frv. Þetta er smátt og smátt að koma okkur í koll. Við höfum ekki skynjað þau umhverfisslys sem orðið hafa bæði vestan hafs og austan og hafa miklu meiri áhrif á afstöðu almennings til umhverfismála almennt en hér á landi. Á okkur brenna ekki þau vandamál sem t.d. brenna á íbúum Mið-Evrópu um þessar mundir, súrt regn, deyjandi vatn, deyjandi fiskur í vötnum og ám, deyjandi höf. Náttúruspjöllin og náttúruslysin eru orðin svo stórkostleg, eru orðin svo mikil að við lítið verður ráðið. Umhverfisverndarmenn á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum hafa miklar áhyggjur af þessum málum. Þeir, því miður, blanda saman umhverfismálum á landi og í sjó og t.d. verndun hvalastofna. Ég segi því miður vegna þess að ég tel ekki vera rétt að blanda þessu tvennu saman. Baráttan fyrir því að halda lífi í tilteknum stofnum dýrategunda á að vera aðskilin baráttunni gegn mengunarslysum á landi og í sjó.
    Engu að síður er það svo að ég hygg að við höfum vanmetið styrkleika umhverfisverndarmanna, því miður. Ég vil benda á að ég hef undir höndum skoðanakönnun sem gerð var í Vestur-Þýskalandi snemma í sumar af fyrirtæki sem heitir Buston Marsteller sem er alþjóðlegt markaðsfyrirtæki með skrifstofur í 30 löndum. Þessi könnun var gerð fyrir kanadískt fyrirtæki. Við getum auðvitað í samhengi við það velt því fyrir okkur hvers vegna Kanadamenn eru að láta gera skoðanakönnun í Vestur-Þýskalandi á afstöðu almennings til umhverfisverndarmála.
    Til að gera mönnum grein fyrir því hversu sterkan stuðning þessi umhverfisverndarsamtök eiga í

Vestur-Þýskalandi vil ég benda á helstu niðurstöður þessarar könnunar. Þar voru menn í fyrsta lagi beðnir um að meta mikilvægi umhverfisverndarmála í samhengi við atvinnumál, efnahagsmál, verðbólgu og kjarnorkuafvopnun. Takið eftir. Kjarnorkuafvopnun. 40% þeirra sem svöruðu töldu umhverfisverndarmálin annaðhvort mun mikilvægari eða nokkru mikilvægari, 50% töldu þau svipuð að mikilvægi, en aðeins 6% lítilvægari. 47% þeirra sem voru spurðir sögðust fylgjast sæmilega með aðgerðum umhverfisverndarsamtaka, en 11% mjög vel. 32% sögðust ekki fylgjast mjög vel með aðgerðunum, og aðeins 5% sögðust alls ekki fylgjast með slíkum aðgerðum. 36% svarenda sögðust ákveðið fylgjandi málstað Greenpeace-hreyfingarinnar, grænfriðunga, í Evrópu, og önnur 29% sögðust vera nokkuð fylgjandi þeim málstað. Þannig voru 65% fylgjandi þessari hreyfingu sem menn hafa vogað sér hér á landi að kalla hryðjuverkamenn og blanda því miður saman Sea Shepherd-samtökunum, sem ég met einskis, og grænfriðungahreyfingunni sem ég met mikils, m.a. fyrir störf sem hún hefur unnið óbeint í okkar þágu, með baráttunni gegn endurvinnslustöðinni í Dounreay, með baráttunni gegn því að eiturefnum verði hent í Norður-Atlantshafið, með baráttunni fyrir því að menn gæti almennt að því að við búum öll í einum heimi og þurfum --- eigum aðeins þessa einu plánetu í raun og veru --- öll að gæta að því að eyðileggja ekki náttúruna sem elur okkur og heldur í okkur lífinu.
    Það voru sem sagt 36% sem sögðust sterklega fylgjandi málstað Greenpeace-hreyfingarinnar í Evrópu og önnur 29% sögðust vera nokkuð fylgjandi þeim málstað, 65% fylgjandi þessari hreyfingu í Vestur-Þýskalandi.
    Ég held, eins og ég sagði áðan, herra forseti, að við höfum vanmetið þessar hreyfingar. Það er auðvitað auðvelt að vera vitur eftir á. Engu að síður hygg ég að við hefðum þurft að vakna dulítið fyrr og gera okkur grein fyrir því að þessar hreyfingar eru að ná verulegri fótfestu með þeim málstað og með þeim málflutningi að við séum, Íslendingar, þau ómenni að drepa saklausa hvali. Þetta síast inn í almenning smátt og smátt. Þetta hefur keðjuverkandi áhrif og minn uggur er sá að þessi áhrif séu nú að koma fram með meiri hraða og í ríkari mæli en nokkru sinni fyrr. Ég hygg að sú
"langavitleysa`` sem hefur átt sér stað í Barrow í Alaska þar sem fjölmiðlar bæði í Evrópu og Bandaríkjunum hafa flutt fréttir af baráttu risaveldanna tveggja fyrir því að bjarga tveimur hvölum sem eskimóarnir á staðnum vildu líklega gjarnan drepa og éta. Ég hygg að þessi auglýsing sé þess eðlis að hún muni prenta inn í hvert mannsbarn í Bandaríkjunum og í Evrópu að þarna séu á ferðinni einhvers konar gæludýr sem beri að vernda og verja með öllu móti, með öllum tiltækum ráðum.
    Ég er mjög hræddur um að þessi auglýsing fyrir grænfriðunga hafi þegar haft þau áhrif að verslanakeðjan Stop and shop í Boston hætti að kaupa af okkur vörur. Og ég óttast að framhald verði á

þessari þróun og því miður óttast ég mjög að þetta muni gerast hraðar og örar en nokkurn mann grunar. Það er af þessum ástæðum sem ég og fleiri höfum vakið máls á því að við yrðum að endurskoða afstöðu okkar til vísindahvalveiða. Þetta er ekki nein ólíkindaósk. Hún er byggð á því að ég og fleiri óttumst að undirstöðuatvinnuvegir þessarar þjóðar, sem nú eiga auk þess í miklum erfiðleikum og munu standa frammi fyrir miklum erfiðleikum á næstunni, verði fyrir áfalli sem varla verður bætt. Ég minni á að þó að það brenni kannski ekki heitt á okkur hér í Reykjavík brennur það heitt á Dalvíkingum þegar niðurlagningarfyrirtæki þar verður að loka dyrum sínum og segja upp 10--15 manns. Það brennur líka heitt á Húsvíkingum þar sem atvinnulíf er mjög erfitt þegar annað niðurlagningarfyrirtæki stendur frammi fyrir því að þurfa að loka dyrum sínum og segja upp fólki. Það brennur líka á Akureyringum þar sem stærsta niðurlagningarfyrirtæki landsins er og þarf hugsanlega að draga stórlega úr rekstri sínum.
    Þetta er ekkert einfalt mál. Kannski er ótti minn mestur gagnvart því að skaðinn sé skeður í þessu máli, að það sé búið að sverta góðan orðstír íslenskrar þjóðar svo mjög að um þau sár verði ekki bundið, a.m.k. ekki í bráð. Þetta eru mín áhyggjuefni út af þessu máli. Þau eiga ekkert skylt við móðursýki né hræðsluáróður eða neitt af því tagi eins og kokhraustir menn hafa viljað halda fram. Og kokhraustir þykja mér þeir fiskútflytjendur sem gera lítið úr áróðri þeirra umhverfisverndarmanna.
    Menn hafa því miður verið að bera saman aðstöðu Íslendinga í þessu máli við aðstöðu okkar í landhelgisstríðunum, t.d. 1973 og 1976. Það er ekki samanburðarhæft. Í landhelgisstríðunum 1973 og 1976 höfðum við almenningsálitið í heiminum með okkur. Nú höfum við það á móti okkur. Spurningin um sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar, hvort sé verið að fórna honum með því að nefna það að við getum endurskoðað stefnu okkar gagnvart vísindahvalveiðum, er líka út í hött. Sjálfsákvörðunarréttur þjóðarinnar yrði í engu skertur þótt sú ákvörðun yrði tekin að rétta fram einhverja sáttarhönd í þessu máli, þannig að menn gætu með reisn gengið frá því, bæði þeir sem hér búa og þeir hinir sem gegn okkur berjast. Það er stundum betra að beygja sig dulítið en að brotna. Ég hygg að í þessu máli gildi það harða lögmál að við ráðum ekki þróuninni. Við ráðum því ekki sem er að gerast úti í hinum stóra heimi. Við höfum hvorki mannafla, fjármagn né aðstöðu til þess að berjast gegn þeim gegndarlausa áróðri sem að okkur hefur verið beint, því miður. Þessar staðreyndir eru borðliggjandi og við verðum að horfast í augu við þær.
    Ég hefði kosið t.d. að við ættum miklu meira samstarf við hvers konar umhverfisverndarsamtök í Evrópu og Bandaríkjunum, einkum og sér í lagi þau samtök sem berjast fyrir því að Norður-Atlantshafið fái að vera í friði fyrir hvers konar eiturefnum, úrgangi og óþverra sem í það er fleygt. Ég hef miklu minni áhyggjur af því þó að við tækjum þá ákvörðun að hætta hvalveiðunum en að hér um höf í kringum

Ísland sigla á hverri viku fjölmörg skip sem eru kjarnorkuknúin. Og hafa menn, eins og ég hef áður sagt, velt fyrir sér hvað mundi gerast ef slys yrði um borð í einu af þessum skipum, það rækist á sker neðan sjávar og geislavirkt kælivatn læki út í nágrenni við gotstöðvar þorsksins sem allir eru að tala um að stærri fiskar éti? Slíkt umhverfisslys þýddi gjaldþrot íslenska ríkisins á örfáum árum.
    Ég held að við ættum að snúa við blaðinu í þessum málum, í raun og veru er það meginatriðið, og gera okkur grein fyrir í hvers konar heimi við lifum, og að við erum ekki ein þjóð. Við störfum í samfélagi þjóða og okkur ber að virða óskir annarra þjóða eins og þær virða okkar óskir.
    Herra forseti. Ég sagði í upphafi að þetta mál væri tvíþætt. Annar þátturinn er vald umhverfisverndarsamtakanna gagnvart okkur, hinn þátturinn er spurningin um það hvort nauðsynlegt sé að veiða hval til að stunda þær rannsóknir sem nú eru stundaðar og hvort við í raun höfum heimild til þess frá Alþjóðahvalveiðiráðinu að veiða hval í vísindaskyni. Á það hafa verið bornar brigður.
    Ég ætla ekki á þessu stigi, vegna þess einfaldlega hversu viðkvæmt þetta mál er, að hefja umræðu eða lesa upp úr þeim gögnum sem ég hef undir höndum, en þau eru talsverð, um vísindahvalveiðar. Ég ætla hins vegar að minna á það að íslenskir líffræðingar virðast ekki sammála um hvort nauðsynlegt sé að drepa hvalinn til að halda áfram rannsóknum á hvölum. Þetta hefur komið mjög skýrt fram, því miður. Ég harma það að menn skuli ekki vera sammála í
jafnveigamiklu máli. Mér sýnist t.d. að líffræðingar sem starfa við Háskóla Íslands hafi aðra skoðun á þessu máli en líffræðingar sem starfa hjá Hafrannsóknastofnun. Ég vil benda á áskorun til ríkisstjórnar Íslands sem henni var send í júlí 1987 og er undirrituð --- ég hef nú ekki talið það --- líklega af 20 líffræðingum. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa nokkur orð úr þessari ályktun. Þar segir:
    ,,Við undirritaðir líffræðingar fögnum auknum rannsóknum á lifandi hvölum hér við land en skorum jafnframt á ríkisstjórn Íslands að virða tímabundið veiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins, hætta hvalveiðum og kosta rannsóknir á hvalastofnum með öðrum hætti en með ágóða af hvalveiðum. Alþjóðahvalveiðiráðið samþykkti árið 1982 stöðvun veiða frá 1986 til 1990 meðan aflað væri víðtækari gagna um hvalastofnana. Þessi samþykkt var tímabær enda sýnt að hvalir hafa hvergi staðið undir veiðum til langframa.
    Alþingi Íslendinga ákvað í febrúar 1983 að mótmæla ekki samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins um stöðvun hvalveiða árin 1986 til 1990. Samkvæmt samningi sjútvrn. fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar við Hval hf. er markmið núverandi hvalarannsókna ,,að auka vísindalega þekkingu á ástandi hvalastofna hér við land og skapa nauðsynlegan grundvöll til endurmats á áhrifum veiðistöðvunar á hvalastofnana fyrir árið 1990.``
    Rannsóknir Hafrannsóknastofnunar á lifandi hvölum

eru líklegar til að bæta verulega þekkingu á fjölda, útbreiðslu og atferli hvala og gera kleift að meta veiðiþol hvalastofna við landið. Sama verður ekki sagt um vísindaveiðarnar. Þrátt fyrir söfnun gagna með hvalveiðum í áratugi hefur ekki reynst unnt að ákvarða stærð og veiðiþol hvalastofna hér við land. Núverandi veiðar í vísindaskyni breyta þar litlu um. Hvalveiðar okkar Íslendinga eru því ekki réttlætanlegar eins og á stendur og við teljum rangt að kenna þær við vísindi.``
    Þetta sögðu þessir heiðursmenn í júlí 1987 og undirrita þessa ályktun, nærri 20 líffræðingar að ég hygg.
    Það hafa heyrst raddir sem segja að það sé misræmi í túlkun þeirrar ályktunartillögu sem samþykkt var, eða ekki samþykkt raunar, það voru aldrei greidd atkvæði um hana, á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í Auckland. Út í þetta hirði ég ekki að fara. Ég hefði í raun vonað að þessi umræða þyrfti ekki að fara fram. Ég hafði vonað að ríkisstjórnin tæki einhverja ákvörðun í þessu máli og þá kannski um einhverja ótímabundna frestun, fyndi sér útgönguleið þannig að þessi umræða þyrfti ekki að fara fram og þyrfti ekki að skipta okkur upp í hópa, andstæða hópa. Þetta er kannski að hluta til tilfinningamál vegna þess að við kunnum að tengja þetta öðrum umhverfismálum, þó að ekki sé í eðli sínu rétt að gera það. Og ég vil lýsa því yfir, af því að hæstv. sjútvrh. er kominn í stól sinn, að ég virði stefnufestu hans í þessu máli og hef virt hana á undanförnum árum, met hann sem stjórnmálamann. Hins vegar hefur þróunin orðið öðruvísi en við ætluðum. Mál hafa tekið nýja stefnu og munu halda áfram að gera það í auknum mæli að mínu mati. Í því er minn ótti fólginn.
    Ég tel því tvímælalaust að við eigum að reyna að leysa þetta mál áður en við verðum fyrir enn þá meira tjóni sem ég óttast að verði fyrr en síðar, því miður. Svo mikið tel ég vald þessara umhverfisverndarsamtaka. Peningaeign þeirra er með ólíkindum. Í þeirri könnun sem ég nefndi áðan kom fram að ótrúlegur fjöldi almennings í Vestur-Þýskalandi sendir þessum samtökum peningaframlög reglulega. Þau hafa geipilega fjármuni til að stunda áróðursstríð sitt. Ég er sannfærður um að ástæðan fyrir því að þeir beina spjótum sínum að okkur Íslendingum og vilja fá okkur til að stöðva þessar veiðar endanlega er sú að þar með vilja þeir brjótast inn í hóp þeirra þjóða sem enn stunda hvalveiðar. Fá fordæmi. Að það verði fordæmisgefandi að Íslendingar taki ákvörðun um að fresta vísindahvalveiðum. Ég hygg að þetta sé meginástæðan fyrir því að þeir hafa ráðist á okkur af meiri heift en aðra, fyrir utan það að auðvitað eiga þeir mjög erfitt með, þó að þeir hafi gert það, að hafa nokkur áhrif á t.d. útflutningsmál Japana, eins og réttilega kom fram í ræðu ráðherra hér áðan.
    Herra forseti. Ég sagði að ég mundi ekki vilja fara út í umræðu um þá ályktunartillögu sem var mikið deiluefni á Auckland-fundinum og skilning og

skilgreiningu manna á þeirri tillögu um það hvort réttur okkar sé tvímælalaus eða ekki til þessara vísindahvalveiða. En ég skora á alla sem hlut eiga að máli og einhverju fá ráðið í þessu máli að taka þetta mál nú þegar í stað til alvarlegrar endurskoðunar. Ég segi þessi orð vegna þess að ég er í hjarta mínu sannfærður um að við eigum eftir að bíða mikinn hnekki ef við höldum áfram óbreyttri stefnu.