Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Jón Kristjánsson:
    Herra forseti. Þau rök sem hv. flm. þess frv. sem hér er til umræðu beita eru einkum á þá leið að með hvalveiðum í vísindaskyni sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni, hvalveiðar séu ekki afgerandi efnahagsmál fyrir okkur Íslendinga, áróðursstríðið sé tapað og nú sé rétti tíminn til að lýsa því yfir að við hættum hvalveiðum um sinn.
    Það kann rétt að vera að eins og nú er komið séu þær hvalveiðar sem nú eru stundaðar ekki afgerandi efnahagsmál fyrir okkur Íslendinga og víst er það að markaður fyrir frystan fisk í Bandaríkjunum og útflutningur á lagmeti eru meiri hagsmunir sem við verðum að líta til. Við munum standa það af okkur efnahagslega að hætta þeim hvalveiðum sem við stundum nú þótt ekki megi gleyma því í umræðunni að hér er þó um atvinnu nokkurs hóps manna að ræða og lifibrauð. Þrátt fyrir þetta er málið þó miklu stærra í mínum huga og langt frá því að vera svona einfalt.
    Hvalveiðimálið allt snýst um grundvallaratriði, það snýst um sjálfsákvörðunarrétt smáþjóðar til þess að nýta auðlindir sínar og til þess að rannsaka þær með nýtingu þeirra í huga. Málið snýst um langtímahagsmuni þessarar þjóðar. Það krefst þess að hugsað sé lengra fram í tímann en til nokkurra mánaða og lengra en til fjögurra ára. Það er þessi staðreynd sem gerir málið flókið og viðkvæmt. Matsatriðin verða fleiri þegar hagsmunir þjóðarinnar eru vegnir, langtímahagsmunir, móti þeim hörðu staðreyndum sem við stöndum frammi fyrir í dag.
    Staðreyndir málsins nú eru þær að við eigum á alþjóðavettvangi í höggi við áróður umhverfisverndarmanna sem hafa það að markmiði að hvalir séu ekki veiddir. Markmiðið er ekki að hætta hvalveiðum um sinn eða rannsaka þá með það í huga að þeir verði veiddir síðar. Áróðurinn byggir á því að hvalir séu ekki undir neinum kringumstæðum deyddir af manna völdum. Þessi áróður hefur orðið svo áberandi að hann hefur náð eyrum forustumanna ýmissa fyrirtækja sem hafa skipt við okkur Íslendinga. Þetta er sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir, að viðskiptasambönd eru í hættu af þessum sökum. Þrátt fyrir það tel ég mjög óheppilegt á þessu stigi að gefast nú upp í málinu og lýsa yfir því að við hættum hvalveiðum um tíma. Þetta mál snýst einfaldlega um hvort hvalveiðum verði haldið áfram við Ísland eða ekki.
    Við höfum langt frá því í hendi sigur í þeim slag og getum ekki vitað á þessari stundu hvort þessi atvinnuvegur á framtíð fyrir sér eða ekki. Við eigum það síður en svo víst að geta tekið upp hvalveiðar að fjórum árum liðnum ef við hættum nú og drögum úr þeirri rannsóknaáætlun sem nú er í gangi. Á uppgjöf okkar nú mundi verða litið sem mjög afgerandi sigur í orustu, sigur þeirra sem vilja leggja hvalveiðar niður um alla framtíð. Það kann einhver að segja að við mundum þola slíkt, en tveimur mjög veigamiklum spurningum er ósvarað í því efni. Fyrri spurningin er sú: Hvað mun fylgja á eftir varðandi aðra dýrastofna? Og sú seinni er: Hvaða áhrif mun slíkt hafa á lífríkið

í hafinu?
    Fyrri spurningunni er erfitt að svara og svarið við þeirri seinni liggur ekki heldur í augum uppi. En það versta er þó við allt þetta mál að vísindamenn okkar skuli ekki fá tóm eða samstöðu til að leita fullnægjandi svars við síðari spurningunni.
    Þáttur vísindamanna innan vébanda Háskóla Íslands og viðhorf þeirra til rannsókna Hafrannsóknastofnunar eru einhver einkennilegasti þátturinn í þessu máli öllu.
    Allar ákvarðanir sem teknar eru í fljótræði á þessari stundu í þessu erfiða máli eru mjög óheppilegar. Það hefur ekki heyrst enn að umhverfisverndarmenn hafi haft þann árangur af áróðursherferð sinni að fá almenning í okkar viðskiptalöndum til að hætta að kaupa íslenskar vörur eða afurðir. Hins vegar hafa þeir náð þeim árangri að forsvarsmenn einstakra fyrirtækja hafa lagt eyrun við og hætta er á því að þau hætti að skipta við okkur og geri alvöru úr þeim hótunum. Ástæðurnar geta verið margþættar og skulu hér nefndar örfáar.
    1. Að forustumenn þessara fyrirtækja séu umhverfisverndarmenn eins og mun vera í einu tilfelli og hlusti af þeim sökum grannt.
    2. Að menn vilji forðast óþægindi eða umtal og áróður grænfriðunga eða vilji af einhverjum ástæðum nota þetta mál til að losa sig við íslenska sölumenn. Ég er þeirrar skoðunar að við verðum að auka kynningu og beita okkur að þessum hópi manna sérstaklega og koma okkar málstað áleiðis til þeirra og réttum upplýsingum um hvað við höfum gert í þessu máli. Við verðum að meta hvaða möguleika við höfum til að koma málstað okkar á framfæri. Sá málstaður byggist á sjónarmiði yfirgnæfandi meiri hluta Íslendinga, að hvalurinn sé náttúruauðlind sem á að rannsaka og nýta skynsamlega. Við höfum verið í fararbroddi í skynsamlegri nýtingu auðlinda hafsins og við viljum vinna áfram á þeim vettvangi. Versti kosturinn er að láta undan hótunum í þessu máli. Við höfum fylgt sveigjanlegri stefnu í hvalveiðimálinu og auðvitað þarf sú stefna alltaf að vera í endurskoðun. Mest er þó um vert að við höldum samstöðu okkar
út á við og upphefjum ekki innbyrðis deilur á viðkvæmum augnablikum í þessari baráttu.
    Ég geri ekki lítið úr erfiðleikum þeirra útflutningsfyrirtækja okkar sem hafa orðið fyrir hótunum út af þessu máli, síður en svo. Hins vegar er þetta ekki í fyrsta skipti í sögu okkar sem við sætum þvingunum í viðskiptum. Við höfum hingað til sigrast á þeim þvingunum og það er von mín að svo verði einnig nú. Það er nauðsynlegt að aðstoða þau útflutningsfyrirtæki sem nú eiga í erfiðleikum við að kynna okkar málstað og veita þeim alla hugsanlega aðstoð í markaðsleit erlendis.
    Eins og fram hefur komið hér í ræðum hv. þm., og vil ég þá einkum nefna ræðu hv. 2. þm. Austurl., hef ég ekki orðið var við annað en hér hafi hingað til á Alþingi og í utanrmn. þingsins ríkt bærileg samstaða um stefnuna í hvalveiðimálum. Það ber að harma ef sú samstaða brestur.
    Ég vil segja þetta að lokum: Ég undirstrika að við

Íslendingar höfum ekki stundað nú í seinni tíð rányrkju á auðlindum hafsins. Ég mun ekki undir neinum kringumstæðum styðja slíkt eða styðja veiðar á dýrategundum í útrýmingarhættu. Hitt er rétt, að við verðum að taka á í mörgum þáttum umhverfismála sem varða mengun umhverfis, lofts, láðs og lagar. Hlutur okkar liggur þar eftir á mörgum sviðum. En það ber að vara við því sérstaklega að blanda því saman við þetta mál í umræðu á hv. Alþingi. Framlag okkar til umhverfismála í heiminum ætti að vera að gera stórátak á þessum sviðum. Það væri miklu meira framlag en þó að við hættum í þeirri rannsóknaráætlun sem nú stendur yfir og gefumst upp fyrir hótunum.