Hvalveiðibann
Miðvikudaginn 26. október 1988

     Jón Sæmundur Sigurjónsson:
    Herra forseti. Forsendur fram komins frv. um hvalveiðibann virðast vera í stuttu máli þær að minni hagsmunir skuli lagðir til hliðar fyrir meiri. Það sem vafalaust hefur hrint flm. af stað til flutnings þessa frv. er hins vegar sú ákvörðun verslunarauðhringsins Tengelmann í Þýskalandi að hætta að kaupa umtalsvert magn af niðursuðuvörum frá okkur Íslendingum. Auðhringurinn Tengelmann í Þýskalandi hefur getið sér mjög gott orð fyrir umhverfisvernd og staðið þar mjög framarlega í flokki og hefur tekið þar á málum þannig að menn hafa tekið eftir. Þannig hefur auðhringurinn ákveðið að selja ekki skjaldbökusúpur vegna þess að skjaldbökur voru í útrýmingarhættu. Hann hefur ákveðið að selja ekki froskalappir af því að froskar voru í útrýmingarhættu. Og þessi verslunarkeðja hefur m.a. ákveðið að selja ekki alls konar ,,spray"-dósir vegna þess að útstreymi af gasi úr þeim gæti hugsanlega haft varanleg skemmdaráhrif á ósonlagið. Þetta eru allt saman aðgerðir sem eru mjög af hinu góða og allir umhverfisverndarsinnar og þeir sem hugsa alvarlega um þau mál geta ekki annað en fagnað þessum aðgerðum. Þetta hafa verið beinskeyttar aðgerðir og þær hafa borið árangur. Þær hafa verið til fyrirmyndar og margir aðrir ættu að taka þær upp eftir þeim, sérstaklega þó hvað varðar þessar ,,spray"-dósir. Það ættum við Íslendingar kannski líka að horfa á.
    Hvernig snýr þá hvalamálið við þessum auðhring? Jú, þeir hafa ákveðið að kaupa ekki niðursuðuvörur frá Íslandi. Það er ekki ráðist á hvalaafurðir eða neitt slíkt eins og í hinum tilfellunum. Þeir ákveða sem sagt ekki að eftirleiðis muni þeir ekki selja hvalkjöt eða einhverjar hvalaafurðir vegna þess að þær hafa yfirleitt ekkert verið til sölu hjá þessum auðhring. Í fyrri tilfellunum var ekki hætt við að kaupa vörur frá Frakklandi vegna froskalappa og skjaldbökusúpa, það var ekki hætt við að kaupa vörur frá öllum öðrum löndum í Evrópu sem hugsanlega framleiddu einhverjar ,,spray"-dósir vegna þessa. Nei, það var ákveðið að selja ekki vörurnar sjálfar sem voru viðkomandi hverjum málaflokki fyrir sig. En í okkar tilviki er ráðist á Íslendinga og allt sem íslenskt er. Ekki hvalaafurðir. Þær voru ekki til. Og þetta hefur verið stefnan yfirleitt, að ráðast á saklausa þriðju aðila. Það er ráðist að niðursuðuvörum, það er ráðist að ullarsölumönnum okkar, það er ráðist að fisksölumönnum okkar og það er ráðist að Flugleiðum. Allt saman saklausir þriðju aðilar, ef svo má að orði komast, sem ekkert hafa með hvalveiðar að gera. Þetta er póll í hæðinni sem alls ekki er hægt að viðurkenna á nokkurn hátt, en það má finna fjölda dæma þar sem viðlíka stefna hefur verið viðhöfð og oftast nær hafa menn haft fyrirlitningu á slíkum aðgerðum. Oftast nær hafa menn yfirleitt ekki tekið undir það að sú stefna hafi verið á réttum forsendum.
    Eitt af því sem Þjóðverjum sjálfum finnst eitt hið mesta ranglæti sem viðgengist hefur gagnvart þeim sjálfum er ásökunin um hina svokölluðu ,,kollektivschuld``, þ.e. að allir Þjóðverjar séu samsekir

fyrir það að flokkur nasista á sínum tíma, sem ekki fékk meira en 40% í frjálsum kosningum og framdi valdarán í þeirra landi, skuli hafa stofnað til annarrar heimsstyrjaldarinnar, skuli hafa valdið því að fjöldi gyðinga var sendur í gasklefa og annað slíkt, að þessi ásökun skuli gilda um alla Þjóðverja yfirleitt á hvaða aldri sem þeir eru og í hvaða flokki sem þeir annars hafa staðið. Hvort sem þeir hafa nokkurn tímann stutt nasista á nokkurn hátt eða ekki er það hróplegt ranglæti, segja Þjóðverjar, ásökunin um ,,kollektivschuld``, að allir Þjóðverjar skuli undir sömu sökina seldir. Þetta geta allir réttsýnir menn tekið undir. Auðvitað er þetta rangt. Af hverju er þarna ráðist á þriðju aðila sem gjörsamlega eru saklausir af viðkomandi verknaði? Þegar ,,terroristar`` taka flugvélar og ráðast að fólki með morðum og limlestingum, alsaklausum farþegum, bera menn venjulega fyrirlitningu fyrir slíkum aðgerðum vegna þess að jafnvel þótt málstaðurinn sé góður eða ekki góður bitna afleiðingar hans alla vega á þeim sem ekkert hafa með viðkomandi mál að gera. Það má segja að með aðgerðum sínum samþykki auðhringurinn Tengelmann ásökunina um ,,kollektivschuld``, að hún hafi verið rétt. Þeir ákveða að kaupa ekki niðursuðuvörur frá Íslandi vegna þess að einhverjir á Íslandi veiða þar hval. Ef við viljum ganga langt getum við sagt að með aðgerðum sínum samþykki auðhringurinn Tengelmann jafnvel og réttlæti árás terrorista á ólympíuþorpið í Munchen á sínum tíma. Að vísu voru það sakleysingjar sem fyrir árásinni urðu, en málstaðinn hefði einhvern veginn verið hægt að réttlæta þannig að árásin hefði átt rétt á sér. Við verðum að gera okkur grein fyrir því þegar við sjáum svona afskræmd dæmi að Tengelmann er kominn á ákaflega lágt plan.
    Tengelmann-samsteypan mun t.d. ekkert aðhafast þegar fiskurinn tekur að minnka í sjónum vegna þess að hvalurinn étur fiskinn sjálfan eða hann étur fæðuna sem fiskurinn étur. Tengelmann mun ekkert aðhafast þegar kostnaðurinn við ormatínslu er orðinn slíkur í okkar frystihúsum að við getum varla ráðið við það. Og þegar neytandinn í Þýskalandi segist ekki vilja borða fisk af því
að hann sé fullur af ormi og neytandinn skynjar ekki samhengið mun Tengelmann heldur ekkert aðhafast. Hann mun sennilega neita að selja fisk af því að neytandinn vilji hann ekki, fiskurinn sé fullur af ormi.
    Okkur er neitað um rannsóknir á okkar eigin lífríki í sjónum í kringum landið. Okkur er neitað um möguleikana á rannsóknum á hugsanlegum skaðvaldi á þeim fiskistofnum sem eru undirstaða alls lífs á Íslandi. Okkur er neitað vegna þess að menn niðri í Evrópu hafa ekki hugmynd um ástand lífríkis kringum Ísland og hafa út af fyrir sig ekki neinar sérstakar áhyggjur af því lífríki.
    Þegar og ef við hættum hvalveiðum og nauðsynlegum rannsóknum á hvölum erum við ekki að beygja okkur fyrir skynsamlegum rökum heldur fyrir grófri valdbeitingu. Ég vil ekki beygja mig ofan í það duft með því að kalla á lagaboð okkar sjálfra

þess efnis. Ég tel þess vegna að það frv. til laga sem hér hefur verið lagt fram sé tímaskekkja og mun ekki gefa því atkvæði mitt.