Plútonflutningar
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 11 hef ég leyft mér að bera fram svofellda fsp. til hæstv. utanrrh. um plútonflutninga:
    ,,Hvað hafa íslensk stjórnvöld aðhafst vegna ráðgerðra loftflutninga með geislavirkt plúton frá Evrópu til Japans yfir Norður-Atlantshaf?``
    Þetta er fsp. Í sambandi við hana minni ég á umræður sem fram fóru í Sþ. utan dagskrár að mínu frumkvæði 2. maí sl. um upplýsingar sem þá höfðu komið fram um ráðgerða flutninga á geislavirku plútoni frá Evrópu til Japans samkvæmt samningi sem undirbúinn hafði verið á Bandaríkjaþingi og staðfestur var af Bandaríkjaforseta sl. vor. Í þessari umræðu hér í Sþ. kom fram frá talsmönnum allra þingflokka að þeir höfðu miklar áhyggjur af þessu máli og hæstv. forsrh. lýsti því yfir að ríkisstjórnin mundi taka á því við hlutaðeigandi stjórnvöld og m.a. mundi hann í væntanlegri opinberri heimsókn sinni til Bandaríkjanna á fund Reagans Bandaríkjaforseta flytja mál Íslendinga varðandi þetta tilefni.
    Hér er um að ræða stórfellt hagsmunamál Íslendinga og það sætir vissulega furðu að mál þetta skuli hafa verið til meðferðar á þingi í Bandaríkjunum og víðar án þess að íslensk stjórnvöld fengju um það vitneskju og gætu tekið á málinu meðan það var þar á umræðustigi. Það þarf ekki hér að rifja upp eða fjölyrða um það hvaða vá það væri fyrir Íslendinga, efnahagslega hagsmuni okkar og umhverfi ef slys yrði vegna ráðgerðra flutninga með geislavirkt plúton yfir norðurskautið frá Evrópu til Japans. Ég hef því leyft mér, virðulegur forseti, að spyrja hæstv. utanrrh. um það hvað stjórnvöld hafa síðan sl. vor aðhafst vegna þessara ráðgerðu loftflutninga. Mér er vissulega kunnugt um það sem fulltrúa í utanrmn. að utanrrn. hefur gert margt til að afla upplýsinga um þetta efni og það tel ég þakkarvert. Við þurfum hins vegar hér á Alþingi að fá vitneskju um hvað stjórnvöld hafa í raun gert og hver er staða þessa máls.