Plútonflutningar
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Svar hæstv. ráðherra við fsp. minni er langt frá því að vera fullnægjandi. Mér kemur satt að segja mjög á óvart að heyra það viðhorf, sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra, að það sé ekkert að óttast í sambandi við þetta mál fyrir okkur Íslendinga vegna þess að til þeirra flutninga á plútoni sem hér um ræðir komi ekki fyrr en að nokkrum árum liðnum ef yfirleitt. Ég veit að hæstv. ráðherra telur sig hafa að baki upplýsingar frá sendiráðum Íslands, en hvað segja þær upplýsingar okkur? Þær staðfesta það að flutningur á geislavirku plútoni er ráðgerður milli Evrópu og Japans, nákvæmlega eins og fram kom hér í umræðum utan dagskrár sl. vor. Þó að varautanríkisráðherra Bandaríkjanna hafi fullyrt, að sögn hæstv. ráðherra, að engar áætlanir liggi fyrir um slíkt held ég að reyndin sé allt önnur. Það er auðvitað spurning hvað menn skilja undir orðinu ,,áætlun``, hvort skipulegar ráðagerðir um slíka flutninga eru ekki áætlun þótt ekki hafi verið staðfest samningsbundið. Það kemur fram í mörgum gögnum, sem ég hef undir höndum, varðandi þetta mál að ráðagerðir um þessa flutninga liggja fyrir og það er í gangi undirbúningur að þessum flutningum þó að stefna hafi ekki verið endanlega mótuð. Það er búið að gera samning, gerðan af Bandaríkjaþingi og staðfestan af Bandaríkjaforseta milli Japans og Bandaríkjanna sem gerir ráð fyrir því að plúton verði endurunnið í miklu magni, plúton sem upprunnið er í Bandaríkjunum og endurvinna á í Evrópu, og verði flutt til Japans loftleiðis að því er flestar ráðagerðir lúta að.
    Það er rétt sem hæstv. ráðherra segir. Menn hafa talað um aðra möguleika. En hverjir eru þeir möguleikar? Ég hef hér t.d. bréf frá sendiráði Íslands í París frá 29. sept. 1988 sem vísar til upplýsinga frá 29. apríl 1988 þar sem sendiherra Íslands í París greinir frá skoðunarferð sem hann fór í til La Hague á vesturodda Normandí þar sem er stærsta kjarniðjuver í Frakklandi og jafnframt hið stærsta á Vesturlöndum að því er segir í þessari greinargerð. Það kemur þar fram að engar ákvarðanir hafi að vísu verið teknar í þessu máli og það er reynt að hugga sendiherrann með því að þetta sé ekkert fastfrágengið, en í þessu yfirliti, svo og í orðsendingunni frá Tókíó sem hæstv. ráðherra vitnaði til og í mörgum greinargerðum sem ég hef undir höndum, m.a. tengdar hinum breska þm. sem hæstv. ráðherra vitnaði til og áhugahópum í Bretlandi sem eru að fylgjast með þessu máli. Niðurstaða mín er sú að íslensk stjórnvöld eigi að taka á þessu máli fast og ákveðið, fylgja eftir þeim áhyggjum sem lýst hefur verið, virðulegur forseti, og mótmæla þessu og taka málið upp á alþjóðavettvangi hvar sem því verður við komið því að hér eru stórhættuleg áform uppi sem snerta undirstöðuhagsmuni Íslendinga.