PCB-mengun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Það kemur fram í svari hæstv. ráðherra að reglur varðandi þetta efni eru vægast sagt mjög ófullkomnar hérlendis og það fellur ekki undir sérstakar varúðarráðstafanir ef ég hef skilið hæstv. ráðherra rétt. Hér séu engar sérstakar reglur varðandi PCB. Það eitt út af fyrir sig eru náttúrlega mikil tíðindi. Hér er um að ræða eitt umtalaðasta eiturefni sem mengunarvald sem hefur orðið tilefni umræðna víða um lönd. Ég er hérna með eitt rit frá Rororo-útgáfufyrirtækinu sem lýsir því hvernig lyfjafyrirtækið Sandoz umgekkst þessi mál og um hneyksli sem því tengdist og svo er lengi hægt að rekja.
    Ég skrifaði svolítið um umhverfismál og hættur af mengun fyrir allnokkru í bók sem kom út 1974. Þar gat ég sérstaklega um PCB sem væri náskylt DDT skordýraeitrinu, en jafnvel enn viðsjárverðara, eins og ég orðaði það í þessu riti, og vísaði til að það væri notað við plastgerð og í raf- og kæliiðnaði. Þetta mál var mjög umrætt í kringum 1970. Við erum stödd á árinu 1988 og á Íslandi gilda engar sérstakar reglur um þetta efni. Það er náttúrlega mikið umhugsunarefni hvernig það getur farið fram hjá þeim sem eru að vinna að þessum málum að þetta efni sé flutt til landsins og af því stafi hætta. Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til þess að taka fastar á þessu máli en ég skildi af hans orðum í sambandi við setningu reglna þar að lútandi. Hitt er jafnframt mikið umhugsunarefni ef menn telja sig ekki hafa efni á því að fylgja þessum málum eftir með nauðsynlegum rannsóknum og eftirliti. En það er að koma hér fram í hverju málinu á fætur öðru að það skortir fjármagn til lágmarkseftirlits með mengunarvöldum, í þessu máli hér og varðandi mengun af völdum fiskeldis samkvæmt svari sem hæstv. heilbrmrh. hefur lagt fyrir Alþingi nýlega. Þetta gengur auðvitað ekki. Þetta er hneisa. Við þetta má ekki lengur búa.