Einnota umbúðir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):
    Virðulegi forseti. Þann 11. maí sl. samþykkti Alþingi svohljóðandi ályktun, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa frv. til l. um framleiðslu, innflutning og notkun einnota umbúða hér á landi.``
    Hér á landi hafa ekki gilt nein lög eða reglur vegna notkunar einnota umbúða, en undanfarin ár hafa margir lýst miklum áhyggjum af þróun þessara mála hér á landi og sent frá sér yfirlýsingar varðandi einnota umbúðir. Strax árið 1975 á náttúruverndarþingi voru þessi mál mikið rædd og á síðasta náttúruverndarþingi var samþykkt áskorun til Alþingis um að setja sem fyrst lög og reglugerðir um notkun þessara umbúða og margir fleiri hafa sent frá sér yfirlýsingar varðandi þetta mál. Það var því ekki að ástæðulausu að Alþingi samþykkti þessa ályktun sl. vor.
    Í umræðum um till. þegar hún var lögð fram þann 29. okt. 1987 kom m.a. fram hjá hæstv. heilbrmrh. að Hollustuvernd ríkisins hafði þá þegar hafið athugun á notkun einnota umbúða hér á landi. Gerði ráðherrann þá ráð fyrir að í lok mánaðarins, þ.e. í október 1987, yrðu reglugerðardrög varðandi einnota umbúðir afgreidd frá stjórn stofnunarinnar og þaðan, eins og segir orðrétt í ræðu ráðherrans, með leyfi forseta, ,,síðan afgreidd til ráðuneytisins til umfjöllunar og þá auðvitað athugunar á því hvort ekki þarf jafnframt því að setja slíka reglugerð að breyta lögum.``
    Það er því eðlilegt að spyrja hvað þessu máli líður og hef ég leyft mér að gera það með fsp. sem kemur fram á þskj. 18 og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað líður undirbúningi frv. til laga um einnota umbúðir, sbr. ályktun Alþingis 11. maí 1988?``