Einnota umbúðir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli hér með fsp. Mér kom í hug svipað og henni að ár er liðið frá því að þetta var rætt hér á Alþingi og hæstv. þáv. og núv. heilbrmrh. var hálfhvumpinn yfir því að málið skyldi tekið upp af því það væri verið að vinna að því og það væri bara þó nokkuð komið áleiðis innan ráðuneytisins. Ég ætla hæstv. ráðherra ekki annað en hinn besta vilja í þessu máli, en ég tek undir að það gengur auðvitað ekki að stórmál af þessu tagi séu í sífelldum undandrætti af því að nefndir koma ekki frá sér tillögum, hafa ekki komið sér að því að vinna nauðsynlegar tillögur. Ef þannig er háttað málum verður að setja aðra í verkin þannig að þetta dragist ekki úr hömlu. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að taka svolítið fastar á í þessu efni.