Mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf.
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Aðeins eitt orð út af ræðu síðasta ræðumanns.
    Lögum er fylgt. Það er sameiginleg niðurstaða ráðuneytanna tveggja, og var það í sumar, að 12. gr. aðalsamningsins, sem eru gild lög á Íslandi, á að nota varðandi mengunarvarnirnar í Straumsvík. Magnús Kjartansson, sem var áberandi langbesti ráðherra iðnaðarmála sem hefur komið úr Alþb., fann þetta líka út á sínum tíma. Þeir sem síðar komu úr þeim flokki og tóku við þessum málaflokki virðast ekki hafa skilið þetta enn. Um þetta eru til gögn sem hæstv. iðnrh., ef hann væri hérna, mundi sjálfsagt sýna hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Það sem skiptir máli og menn eiga að tala saman um hér í þessum þingsal er þetta: Það liggur fyrir samningur á milli ráðuneytanna. Samningurinn gengur út á að Hollustuverndin undirbýr fyrir hönd heilbrmrn. tillögur sem iðnrn. mun fara með í viðræður við Íslenska álfélagið og þar munu jafnframt verða fulltrúar heilbrmrn. Það var ráðgert að þessar umræður gætu farið fram í október eða jafnvel september sl., en tillögur hafa dregist. Ég ætla ekkert að fara að verja núv. hæstv. iðnrh., en það verður auðvitað að segja sannleikann eins og hann er, að þessi framgangur gerist á grundvelli laga, enda er aðalsamningurinn við Ísal lög á Íslandi, ef það skyldi hafa farið fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Og ég treysti stjórnvöldum fyrir því að fara með þetta mál þannig að fullur sómi sé að, enda ætluðu menn sér að fara í þessar umræður til að ná þeim árangri sem skylt er fyrir yfirvöld að ná. Það er allt saman staðfest. Nú er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson stuðningsmaður þessarar ríkisstjórnar og ég veit að það eru hæg heimatökin hjá honum að fylgjast með þessu máli hjá sínum ráðherrum, sem hann styður, og ég skora nú á hann að gera það með eðlilegum hætti, því að ekki veitir þessari ríkisstjórn af liðsinni sinna mestu og bestu sérfræðinga í líffræðimálum og mengunarmálum.