Mengunarvarnir hjá Íslenska álfélaginu hf.
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Niðurstaðan af þessum umræðum er sú að viðurkennt er af hálfu stjórnvalda að mengunarvörnum er stórlega ábótavant í álverinu í Straumsvík og mér virtist auðheyrt á svörum hæstv. ráðherra, því miður, að á þessum málum hafa stjórnvöld tekið með silkihönskum og mér virtist ekki auðheyrt af hans svörum að þá silkihanska ætti að taka niður, enda hefur stefnan verið sú að kalla meira af svo góðu yfir okkur. Ég vara við því. Ég harma þessa skammsýni. Þetta ástand er gjörsamlega óviðunandi og ég skora á hæstv. ráðherra að taka miklu alvarlegar og rösklegar á þessum málum. Og í öllum bænum kallið ekki meira af slíku yfir okkur.