Heimahjúkrun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):
    Frú forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 27 að flytja svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.: ,,Hvað líður framkvæmd ákvæðis k-liðar 43. gr. laga um almannatryggingar, nr. 67/1971, sbr. 2. gr. laga nr. 44/1986, þess efnis að hjúkrunarfræðingar geti tekið að sér að veita einstaklingum heimahjúkrun á grundvelli greiðslna úr sjúkrasamlögum eins og lengi hefur gilt um heimilislækningar?``
    Þetta orðalag fsp. byggist á því að af orðalagi lagagreinarinnar einnar saman er ekki auðvelt að sjá nema í samhengi við aðra þætti laganna hvað hér er um að ræða, en í þessari umræddu lagagrein, sem vitnað er í, þessum umrædda staflið k, stendur: ,,Hjúkrun í heimahúsum vegna alvarlegra og langvinnra sjúkdóma og slysa samkvæmt samningum sem Tryggingastofnun ríkisins gerir og reglum er tryggingaráð setur.``
    Lagafrv., sem var grundvöllur þessarar breytingar, fylgdi á sínum tíma vorið 1986 svohljóðandi grg., með leyfi hæstv. forseta, eða hluti hennar ef ég mætti lesa hann: ,,Hjúkrunarfélag Íslands fór þess á leit sl. haust við samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins að gerð yrði gjaldskrá fyrir hjúkrunarstörf í samræmi við lög um almannatryggingar, þ.e. óskaði eftir viðræðum um laun hjúkrunarfræðinga er starfa sjálfstætt. Samninganefnd Tryggingastofnunar ríkisins hafnaði beiðni félagsins þegar af þeirri ástæðu að lagaheimild skorti, sbr. nánar V. kafla laga um almannatryggingar nr. 67/1971, með síðari breytingum, þar sem fjallað er um sjúkratryggingar. Rétt fyrir sl. áramót fór Hjúkrunarfélag Íslands þess á leit við ráðuneytið að það beitti sér fyrir því að V. kafli laga um almannatryggingar yrði endurskoðaður með það fyrir augum að hjúkrunarstörf yrðu tekin þar með á sama hátt og lækningar og endurhæfing. Það hefur komið í ljós að veruleg þörf er fyrir heimahjúkrun hér á landi og að engan veginn er hægt að sinna henni til fulls frá þeim stofnunum sem til þess eru ætlaðar. Á sama hátt og læknar starfa að lækningum utan stofnana er í fyllsta máta eðlilegt að hægt sé að reka hjúkrun utan stofnana þannig að sjúkratryggingar taki þátt í greiðslu ákveðins kostnaðar.``
    Af þessum ástæðum var þetta frv. flutt. Það var stjfrv. og algjört samkomulagsmál. Um þetta var mikil samstaða bæði meðal stjórnarflokka og stjórnarandstöðuflokka og þá ekki síður milli þéttbýlismanna og dreifbýlismanna. Sérstaklega þótti dreifbýlismönnum að hér væri um mikið hagsmunamál landsbyggðar að ræða þar eð vitað er að fjöldi hjúkrunarfræðinga var þá eins og nú í öðrum störfum en hjúkrunarstörfum og með þessu fyrirkomulagi var hægt að nýta starfskrafta hjúkrunarfræðinga sem vildu e.t.v. taka að sér nokkra sjúklinga í heimahúsum og gátu þar með forðað því að heilu fjölskyldurnar þyrftu jafnvel að flytja sig úr byggðinni vegna þess að ekki væri hægt að fá viðunandi aðhlynningu og hjúkrun fyrir heimaliggjandi sjúkling.
    Það er ljóst að þetta fyrirkomulag gefur fjölbreyttari möguleika á störfum fyrir

hjúkrunarfræðinga og það veitir sannarlega ekki af, bæði til þess að auka hvatningu til að nýta þá þekkingu sem margir hjúkrunarfræðingar hafa en hafa ekki haft tök á því að ráða sig í föst störf og líka til þess að hvetja ungt fólk til að leggja hjúkrunarnám fyrir sig. Það hefur því miður verið misbrestur á því. Það hefur ekki þótt árennilegt af ýmsum ástæðum, sérstaklega vegna vinnuaðstæðna og kjara, en sem betur fer virðist viðleitni hjúkrunarfélaganna til að kynna sitt starf hafa borið þann árangur að ungt fólk sækir nú í heldur ríkari mæli en áður, a.m.k. meira en sl. ár, í hjúkrunarnám.
    Ég leyfi mér að vænta svars hæstv. ráðherra um það hvað ráðuneytið hefur gert til þess að framkvæma þau lög sem ég hef hér lýst.