Heimahjúkrun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að hreyfa þessu máli og ætlaði í raun og veru ekki að blanda mér í það, en við erum alltaf að tala um að spara í heilbrigðisþjónustunni m.a. með því að þeir sem eru sjúkir eða aldraðir geti verið sem lengst heima hjá sér. Hjúkrunarfræðingur sem tekur að sér að ganga í hús til sjúks eða aldraðs manns dvelur yfirleitt ekki lengi, gerir það sem nauðsynlegt er og til er ætlast af honum. Síðan tekur starfsmaðurinn við og dvelur allan daginn. Eins og kom fram hér áðan er þetta fólk yfirleitt illa launað og erfitt að fá það til starfa. Og það er margt annað sem þyrfti að skoða líka í því sambandi. M.a. skulum við athuga að það er mjög mikill vandi að fara inn á annarra manna heimili. Að pikka einhvern upp af götunni si svona og biðja hann um að fara þar inn án þess að veita honum nokkra uppfræðslu er slæmt. Það er ófært.
    Ég hef árum saman barist fyrir því að þeir sem vinna þessi störf fengju a.m.k. hálfs mánaðar námskeið og mér þykir það ekki mikið í lagt, það þætti ekki mikið ef menn ættu að fara að vinna við einhvern iðnað eða eitthvað slíkt, fengju a.m.k. hálfs mánaðar námskeið þar sem þeim væri leiðbeint um til hvers er ætlast af þeim í starfi. Mér finnst ég hafa talað þetta fyrir mjög daufum eyrum. Það er að vísu ein manneskja sem alltaf hefur hlustað á mig og reynt að vinna að þessu máli. Það vill svo vel til að hún situr inni á þingi núna, hv. 18. þm. Reykv., Guðrún Halldórsdóttir skólastjóri. Ég fullyrði að hér í Reykjavík, þar sem ég þekki best til, er þetta starf í afskaplegum molum og illa skipulagt. Ég vildi, úr því að hæstv. heilbrmrh. er hér inni, benda honum líka á þetta.
    Ég er sannfærð um að það er sparnaður í því að hjálpa til þess að gott starfsfólk vinni inni á heimilum fyrir þá sem eru sjúkir og aldraðir, það er sparnaður í að launa það betur, það er sparnaður í því að fræða það betur.