Heimahjúkrun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Fyrirspyrjandi (Ragnhildur Helgadóttir):
    Frú forseti. Ég þakka fyrir þær ábendingar sem hér hafa komið fram. Ég tek heils hugar undir það sem hv. 18. þm. Reykv. og hv. 16. þm. Reykv. sögðu. Það er svo sannarlega oft svo, að hjúkrunarverkefni er svo þungt að það krefst þess að fleiri en einn vinni að því að sinna sjúklingnum. Það er því alveg rétt að að slíku samstarfi þarf sannarlega að vinna og það er víðtækara mál en það sem hér er um rætt. Hér er verið að tala um að beita lagaheimild sem lengi hefur vantað og lengi hefur staðið á að framkvæmd yrði.
    Að því er varðar svör hæstv. ráðherra langar mig til að fara örfáum orðum um þau. Hæstv. ráðherra nefndi að ágreiningur hefði staðið milli hjúkrunarfræðinga og ráðuneytis eða Tryggingastofnunar um hver skyldi staðfesta hjúkrunarþörf sjúklings og hver skyldi gefa tilvísun. Það er auðvitað alveg rétt að hjúkrunarþörf verður hjúkrunarfræðingur að meta. Vitanlega þarf greining læknis að liggja fyrir og ástand sjúklings að liggja fyrir staðfest af hálfu læknis. Læknir þarf að lýsa því og undirbúa þannig verk hjúkrunarfræðingsins, en nákvæmlega hvers konar hjúkrun og hve mikla hlýtur hjúkrunarfræðingurinn að meta því hann hefur lært hjúkrun, en læknirinn hefur ekki lært hjúkrun.
    Aftur á móti er alveg rétt að hér þarf mjög náið samstarf. Hér er um stéttir að ræða sem verða að vinna samhliða, en þær geta ekki komið hvor í stað annarrar. Mér sýnist því vera nokkuð ljóst að þarna sé enginn óyfirstíganlegur eða óleysanlegur ágreiningur, enda hygg ég að flestir læknar samþykki það að það hljóti að vera hjúkrunarfræðingarnir sem ákveða hvaða hjúkrun þarf að veita sjúklingi en ekki læknirinn.
    Að því er tilvísun varðar hlýtur það líka að vera leysanlegt mál og koma þá heilsugæslustöðvar inn í það mál. Ég vil ekki trúa því að málið strandi á þessu, enda sagði hæstv. ráðherra að nú væri málið komið fram hjá þessum hjalla eða yfir hann og væri rætt um sjálfar greiðslurnar og fjárhæðina.
    Hæstv. ráðherra taldi að núverandi stefna ríkisstjórnarinnar um það að ekki skyldi koma til launahækkunar stæði í vegi fyrir því að þessir samningar yrðu gerðir. Þetta tel ég vera alrangt því að hér er ekki verið að tala um breytingar á neinum launum sem fyrir eru. Hér er um að ræða algerlega nýtt fyrirkomulag. Það er verið að tala um nýja þjónustu sem ekki hafa enn þá verið ákveðnar greiðslur fyrir. Þess vegna tel ég að þessi röksemd hæstv. ráðherra standist ekki og það sé skylda ríkisstjórnarinnar að vinda að því bráðan bug að ganga frá þessu máli þannig að þeir mörgu sem þurfa á þessari þjónustu að halda fái notið hennar.
    Það er alveg ljóst að það er skylda ráðherra og framkvæmdarvaldsins að framkvæma þau lög sem Alþingi setur. Og þó að einhverjir séu til í heilbrigðisstéttum sem vilja skipuleggja heilbrigðisþjónustuna enn öðruvísi og hafa ekkert með sjúkrasamlögin að gera, þó að þeir séu til sem telja að ekki hafi verið skynsamlegt að hverfa að þessari breytingu, þá er það ekki það sem máli skiptir. Þetta

eru lög í landinu sem ber að framkvæma og það eru hundruð manna út um allt land, bæði í þéttbýli og dreifbýli, sem þurfa sárlega á þessari þjónustu að halda. Lögin eru ekki eingöngu sett til þess að ná til hjúkrunarfræðinga sem ekki eru inni á sjúkrahúsum heldur ekki síður og fremur til þess að auka þjónustu á heilbrigðissviðinu, en þarna helst að vísu hvort tveggja í hendur.
    Og eitt enn, frú forseti, ég bið afsökunar á því að ég bæti einni setningu við: Hvernig dettur mönnum í hug að það að greiða úr sjúkrasamlögum hjúkrun í heimahúsum muni verða til þess að hjúkrunarfræðingar streymi út úr sjúkrahúsunum? Aðra eins viðurkenningu á kjörum hjúkrunarfræðinga, eins og stundum er haldið fram að þau séu, hef ég ekki heyrt. Eða hverjum dettur í hug að læknar streymi út af sjúkrahúsunum þó að til séu þeir læknar sem fái greitt úr sjúkrasamlögum fyrir sína þjónustu? Ég skil ekki að hugur kvenna, sem eru fjölmennastar í hjúkrunarstéttinni, sé eitthvað öðruvísi gagnvart sínum kjörum en karla, sem hafa fram að þessu verið fjölmennastir í læknastéttinni, og vísa á bug þeirri röksemd að það komi til greina að slíkt fyrirkomulag verði til þess að hjúkrunarfræðingar fari út af sjúkrastofnunum. Ef svo væri er það augljós vísbending um að þar þarf grundvallarbreytingu.