Heimahjúkrun
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Virðulegi forseti. Aðeins fyrst örstutt út af ábendingum frá hv. 16. og hv. 18. þm. Reykv.
    Ég vil auðvitað mjög eindregið taka undir það sem kom fram í þeirra máli um það að það er þörf á því að bæta heimaþjónustuna alla, bæði heimahjúkrunina og heimilishjálpina, og ég er sannfærður um að það að hafa öfluga og góða heimaþjónustu sparar í heilbrigðiskerfinu okkar. Það er enginn ágreiningur um það mál. Ég er alveg viss um að við getum öll sem hér erum inni verið sammála um að við spörum með því dýra uppbyggingu, notum fjárfestingu sem til er og margt og margt fleira sem mætti tína til. Ég held að það eigi að vera sameiginlegt markmið okkar allra.
    Og ábendingar um sérstök námskeið eða sérstaka fræðslu fyrir fólk sem vinnur að heimaþjónustunni, sem ekki er þá það sem við í daglegu máli köllum faglærða fólkið, þ.e. líklega hugsað fyrir þá sem vinna að heimilishjálpinni en ekki við heimahjúkrunina, er af því góða og mikilvægt að bæta þar um.
    Samstarf hópa, faglærðra og ófaglærðra, er auðvitað líka nauðsynlegt og stundum finnst mér að það væri einnig nauðsyn á betra samstarfi hinna faglærðu hópa því að þeir eru reyndar margir innan heilbrigðiskerfisins og ekki alltaf hægt að segja að það samstarf sé alveg eins gott og við teldum að væri æskilegast til þess að ná fram því besta úr þessum starfshópum öllum og fá þá til að virka og vinna vel saman.
    Virðulegi forseti. Ég skal reyna að ljúka máli mínu hið snarasta. Það var aðeins að lokum út af athugasemdum hv. fyrirspyrjanda, 3. þm. Reykv. Ég gerði alveg grein fyrir því að ágreiningur sem var um hjúkrunarþörfina og tilvísunarkerfið aðeins tafði málið. Það er ekki ágreiningur um það í augnablikinu, menn eru raunverulega ekkert að deila um það, en það tafði málið í fyrravetur þegar þetta var í umræðunni í Tryggingastofnun og milli stofnunarinnar og hjúkrunarfélaganna.
    Hitt er svo aftur ljóst að það er ýmislegt sem kemur upp í umræðunni og menn velta fyrir sér hvort svona form, eins og hér er lagt til að sé komið á, skapi þau skilyrði sem lögin þó í upphafi áttu að gera. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þau hafa auðvitað verið sett með góðri meiningu um það að fá faglært fólk til þess að vinna við heimahjúkrunina og í þessari þjónustu sem kannski hefur ekki orðið vegna þess sem ég rakti áðan, vegna vinnutíma og ýmissa annarra þátta, sjálfsagt að hluta til vegna launakjara. Ég ætla ekki að gera lítið úr því. Auðvitað hefur það oft komið upp í umræðum um hjúkrunarfræðingaskortinn að launa- og kjaramál séu hluti af þeim erfiðleikum sem þar er við að glíma.
    Ég er hins vegar svolítið undrandi á orðum hv. þm. um að það sé alrangt að ímynda sér að þetta fyrirkomulag geti fært hjúkrunarfræðinga út af hjúkrunarstofnunum og yfir í heimaþjónustuna. Ég held að það sé vel fyrir hendi að slíkt geti gerst. Ég þori auðvitað ekki að fullyrða að það muni gerast, en

af því að hún nefndi að það væri jafnfáránlegt og að láta sér detta í hug að læknar streymdu út af sjúkrahússtofnunum höfum við einmitt grun um að samningar við sérfræðinga um starf utan sjúkrastofnana kunni að hafa dregið suma þeirra út af sjúkrastofnununum og yfir í þjónustu sem þeir veita á sínum einkastofum úti í bæ, ef það má orða það svo. Það er einmitt það sem ég vil að við skoðum í þeim samningum sem ég taldi að væri nauðsynlegt að taka upp og koma á markvissari vinnubrögðum við samningagerð við heilbrigðisstéttirnar og það á einnig við um hjúkrunarfræðingana til þess að það a.m.k. endurtaki sig ekki sem ég greindi frá með sérfræðingana ef sú grunsemd mín er rétt.