Bann við geimvopnum
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. sem er að finna á þskj. 4, 4. mál þingsins, um bann við geimvopnum, en flm. ásamt mér er hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir. Þessi tillaga hefur legið áður fyrir þinginu og er flutt hér aftur og enn aftur vegna þess að tilefnið er ærið til að ræða þessi mál hér. Alþingi hefur enn ekki náð samstöðu um að álykta í þessu máli eins og lagt er til í tillögunni.
    Ég vil minna á það, virðulegur forseti, í upphafi að 4. fundur Reagans Bandaríkjaforseta og Gorbatsjovs í Moskvu var haldinn 29. maí til 1. júní sl. Sá fundur var táknrænn að því leyti að ritað var þar í fyrsta sinn undir samning um fækkun kjarnavopna, þ.e. eyðingu meðaldrægra og skammdrægra kjarnaflauga, hinn svokallaði INF-samningur. Hins vegar náðu leiðtogarnir ekki því markmiði að ljúka samningi um fækkun langdrægra kjarnaflauga sem verið hefur á dagskrá frá því á Reykjavíkurfundi þeirra haustið 1986. Mikil vinna hafði verið lögð í það af samningamönnum risaveldanna í hinum svokölluðu START-viðræðum í Genf að undirbúa samning um þessa fækkun langdrægu flauganna, en það tókst ekki að ljúka þeim undirbúningi fyrir fundinn í Moskvu. Ein aðalhindrunin í vegi samkomulags var þar áfram, eins og á fundinum í Höfða sællar minningar, geimvopnaáætlun Bandaríkjastjórnar, öðru nafni stjörnustríðsáætlun Reagans forseta eða skammstafað SDI, Strategic Defense Initiative, eins og það er kallað á enskunni.
    Í ræðu sem Gorbatsjov, nú forseti Sovétríkjanna, hélt í tengslum við fundinn í Moskvu ítrekaði hann samkvæmt frásögn Morgunblaðsins að ,,hugsanlegur samningur um fækkun langdrægra kjarnorkuvopna, START, væri óhjákvæmilega tengdur samningum um takmarkanir geimvarna og lagði sérstaka áherslu á það að samkomulag hefði tekist með leiðtogunum á fundi þeirra í Washington í desember sl., að ákvæði ABM-sáttmálans um takmarkanir gagneldflaugakerfa skyldu virt eins og hann hefði verið undirritaður árið 1972. Túlkun þessa samnings er einmitt eitt helsta ágreiningsefnið á sviði afvopnunarmála,,, segir í Morgunblaðinu 31. maí sl.
    Það er einmitt ný túlkun Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum svonefnda frá 1972, samningnum um afvopnun og takmörkun vígbúnaðar, m.a. varðandi gagneldflaugakerfi, sem er eitt helsta ágreiningsefni risaveldanna. Hluta af þessum samningi, en þeir ganga gjarnan undir heitinu SALT I samningarnir, er að finna sem fylgiskjal I með þessari þáltill., það sem varðar sérstaklega geimvopnamálin og gagneldflaugakerfin. Bandaríkjastjórn hefur viljað fella geimvopnarannsóknir sínar undir þennan samning, en því hafa Sovétmenn ítrekað mótmælt. Í sama streng hafa tekið forustumenn margra Vestur-Evrópuríkja.
    Ég minnti á þetta við umræðu hér í þinginu um hliðstætt mál í fyrra, till. um bann við geimvopnum, og innti þáv. utanrrh. eftir viðhorfum til ABM-samningsins og þeirrar túlkunar sem uppi hefur verið höfð af Bandaríkjastjórn varðandi þann samning.

Ég leyfi mér að vitna til ummæla Steingríms Hermannssonar, núv. hæstv. forsrh., varðandi þessa fyrirspurn mína. Hann sagði svo:
    ,,Hv. þm. spurði einnig um afstöðu til svokallaðs ABM-samkomulags. Ég ætla að leyfa mér að vísa í ekki ómerkari mann en Mondale fyrrv. forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum sem sagði í ræðu í St. Paul um daginn að það væri ekki að hans skapi og fjölmargra annarra að leggja fyrir Bandaríkjaþing til samþykktar ákveðið milliríkjasamkomulag og túlka það síðan á annan veg og átti þar við Reagan forseta.`` Og áfram sagði þáv. hæstv. utanrrh.: ,,Ég er sammála Mondale í þessu sambandi, ef ég má leyfa mér að orða það svo. Ég held að sú túlkun sem Bandaríkjamenn hafa gefið þessum samningi upp á síðkastið sé mjög vafasöm. En þetta er einmitt eitt af aðalatriðunum í umræðunum núna á milli stórveldanna,,, sagði Steingrímur Hermannsson 22. okt. 1987, hér í Sþ.
    Ég leyfi mér vegna þessa máls að inna hæstv. núv. utanrrh., Jón Baldvin Hannibalsson, eftir því hvert sé viðhorf hans til þessa máls sérstaklega, bannsins við geimvopnum og þeirrar tillögu sem hér liggur fyrir, og túlkun Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum sérstaklega.
    Ég vil geta þess hér að á því ári sem liðið er frá því þessi mál voru rædd hér í Sþ., áður en málið fór til nefndar, hefur Alþýðublaðið gert þessari geimvopnaáætlun Bandaríkjaforseta góð skil í greinasyrpu sem þar birtist og varar við þessum áformum í leiðara sem ég hef einhvers staðar hér undir höndum en ætla ekki að taka tíma í að vitna til sérstaklega.
    Geimvopnanotkun himingeimsins í hernaðarskyni hefur alla tíð verið eitt helsta efnið í umræðu um vígbúnaðarmálin frá því að Reagan Bandaríkjaforseti flutti hina umtöluðu stjörnustríðsræðu sína 23. mars 1983. En samkvæmt máli forseta Bandaríkjanna þá var ætlunin með geimvopnaáætluninni að Bandaríkin leiti leiða til að eyða öllum langdrægum eldflaugum og kjarnaoddum sem skotið yrði á loft í átt til Bandaríkjanna og gera slík vopn óskaðleg. Með þessum vopnabúnaði, sem að hluta til yrði komið fyrir úti í himingeimnum, boðaði forsetinn að unnt ætti að vera að útiloka ógnina af gereyðingu af völdum
kjarnorkuvopna og gera þau þar með óvirk og óþörf, eins og hann orðaði það, í reynd. Þessi boðskapur forsetans og áætlunin sem honum tengdist hefur síðan kallað fram, eins og ég hef getið um, mikla og vaxandi gagnrýni, bæði innan Bandaríkjanna og á alþjóðavettvangi. Ýmsir þjóðarleiðtogar og þjóðþing hafa tekið eindregna afstöðu gegn geimvopnaáætluninni og má þar til nefna Mitterand Frakklandsforseta og innan Norðurlandanna t.d. danska þingið sem ekki hefur nú alltaf verið það róttækasta í sambandi við utanríkismál, eða a.m.k. ekki dönsk stjórnvöld.
    Ástæðurnar fyrir því að andstaðan við geimvopnaáætlunina er svo mikil, og það gildir auðvitað um þær athuganir og þau áform sem fyrir

kunna að liggja hjá öðrum þjóðum, þar á meðal Sovétríkjunum, eru af margvíslegum toga og hér verða aðeins nefnd örfá atriði:
    Í fyrsta lagi: Geimvopnakapphlaupið milli risaveldanna mundi gera að engu samninginn sem ég gat hér um um takmörkun gagneldflaugakerfa, SALT I samkomulagið. Í öðru lagi: Geimvopnaáætlun Bandaríkjanna gæti girt fyrir allar frekari tilraunir til að hemja vígbúnaðarkapphlaupið og gæti þannig aukið stórkostlega hættuna á gereyðingarstyrjöld. Ríki Vestur-Evrópu yrðu hernaðarlega enn háðari Bandaríkjunum en nú er og vettvangur átakanna milli austurs og vesturs færðist í enn ríkari mæli en nú er til Evrópu. Með tilkomu geimvopna mundi ákvörðun um stríð eða frið, líf eða tortímingu færast endanlega úr mannlegu valdi yfir í vélrænar tölvur, þar eð bregðast yrði við eldflaugaárás innan fárra sekúndna frá því að eldflaugum hefði verið skotið á loft. Hættan á tortímingu mannkyns vegna tæknilegra mistaka mundi því margfaldast að sama skapi.
    Það er líka ástæða til þess, virðulegur forseti, að nefna það hér að fjölmargir vísindamenn og hernaðarsérfræðingar, einnig í Bandaríkjunum, hafa enga trú á að geimvarnadæmið gangi upp og geti veitt það öryggi sem Bandaríkjastjórn hefur notað sem röksemd fyrir þessari kostnaðarsömu áætlun. Viðbrögð gagnaðilans, í þessu tilviki Sovétríkjanna fyrst og fremst, yrðu að líkindum ekki aðeins þau að setja af stað eða herða á eigin geimvopnarannsóknum, heldur öðru fremur að fjölga langdrægum eldflaugum og fullkomna þær til að komast þannig fram hjá varnarviðbúnaði andstæðingsins. Þannig muni Sovétríkin alltaf geta tryggt að hluti af eldflaugaregninu komist á leiðarenda í árásartilvikum. Geimvopnakerfi eru heldur ekki talin geta veitt vörn gegn árás stýriflauga sem fljúga lágt yfir yfirborði jarðar. Þannig eru fjölmargar ástæður hvað snertir öryggi, hvað snertir eftirlit, hvað snertir mögnun styrjaldarhættunnar sem þessu fylgir, að ógleymdum kostnaðinum, sem mæla eindregið gegn þessari áætlun sem enn er í fullum gangi þar vestra.
    Virðulegur forseti. Ég vildi vekja athygli hv. þm. og fyrrv. hæstv. utanrrh., Matthíasar Á. Mathiesens, á þessari umræðu sem hér fer fram. Og einnig Jóhanns Einvarðssonar, hv. 8. þm. Reykn., sem er formaður utanrmn. Ef hann er hér í húsinu þá fyndist mér æskilegt að hann ásamt hæstv. fyrrv. utanrrh. væri viðstaddur þessa umræðu og þeim yrði gert viðvart. Það er engin krafa af minni hálfu að sjálfsögðu því hér er hæstv. utanrrh. viðlátinn og þakka ég nærveru hans.
    Það væri unnt að vitna í fjölda áhrifamikilla stjórnmálamanna í Bandaríkjunum sem lýst hafa andstöðu sinni við geimvopnaáætlunina, að ekki sé nú talað um vísindamenn. Í grg. er það nefnt að þegar á árinu 1985 undirrituðu 1300 bandarískir vísindamenn og háskólakennarar skuldbindingar um það, og gerðust aðilar að samtökum um það að eiga engan hlut að geimvopnarannsóknunum. Ég hef hér fjölda tímaritsgreina sem varða þetta mál og margar af þeim

nýlegar. T.d. tímarit sem heitir The Bulletin of Atomic Scientists og gefið er út í Bandaríkjunum, aprílhefti 1988. Þar er greint frá gagnrýni margra virtra sérfræðinga á geimvopnaáætluninni. Þar er frásögn og viðtal við einn fyrrv. starfsmann fyrirtækis, sem hafði stóra samninga um vinnu við þessa geimvopnaáætlun, mann að nafni Richard Ruquist sem af samviskuástæðum hætti þátttöku í þessu starfi í því fyrirtæki sem hann vann við, svokallað Sparta-fyrirtæki í Lexington í Massachusetts. Þar átti þessi sérfræðingur völ á 150 þús. dala árslaunum. En samviska hans bauð að hætta þátttöku og vinnu við þessa geimvopnaáætlun og hann skýrir í viðtali frá ástæðunum fyrir því að hann tók þá ákvörðun. (Forseti hringir.) Vill virðulegur forseti að ég stytti mál mitt hér eða . . . ( Forseti: Ég vil benda hv. þm. á að 15 mínútur eru leyfilegur ræðutími flm. þáltill. og sá tími er liðinn.) Já, virðulegur forseti.
    Ég mun stytta mál mitt þó ég hafi ýmislegt fleira að segja. Síðast þegar þetta mál var rætt þá gat þáv. virðulegur forseti Sþ. um að um þetta giltu ekki tímatakmarkanir, að um þetta giltu sérstakar reglur þar sem þessi umræða væri um utanríkismál. En ég hef ekkert athugað það nánar svo ég mun stytta hér mál mitt og nota þá þá möguleika sem ég hef samkvæmt þingsköpum til þess að taka ekki aðeins einu sinni aftur heldur tvívegis til máls í þessari umræðu um þessa till. og gefa öðrum hv. þm. og hæstv. utanrrh. tækifæri til þess að koma hér inn í umræðuna og segja álit sitt á till.
    En ég vildi þó ljúka hér við að vitna til ummæla örfárra bandarískra sérfræðinga annarra en Richards Ruquist. Samkvæmt upplýsingum í nefndu tímariti, Atomic Scientists, nefni ég hér til Richard Garwin, áður meðlim í ráðgjafarnefnd Bandaríkjaforseta um vísindamálefni. Hann telur þá hugmynd hlægilega að varnarkerfi í geimnum geri heiminn öruggari varðandi hættuna af kjarnorkustríði. Þar er einnig vitnað til Davids Parnas, tölvubúnaðarsérfræðings og nú prófessors í tölvuvísindum við University of Victoria í British Columbia, sem fullyrðir að tölvubúnaður, sem stjórna á og hafa á eftirlit og tryggja samskipti við geimvopnakerfið, sé dæmdur til að bregðast, ,,doomed to failure``, eins og það er orðað, og að hans dómi muni engin fyrirsjáanleg tækni bæta úr þessu. Þar er einnig vitnað til Roberts Bowman sem var forstjóri geimrannsóknaprógramms Bandaríkjahers í tíð forsetanna Geralds Ford og Jimmy Carters og er nú eftirlaunamaður en rekur sérstakt fyrirtæki sem fylgist með stjörnustríðsáætlunum Bandaríkjastjórnar. Hann greindi frá því að þegar hann var starfsmaður fyrirtækisins General Dynamics þá hafi hann fengið sérstakar ofanígjafir vegna málafylgju sinnar og gagnrýni á geimvopnaáætlunina og að svigrúm sitt sem starfsmaður í iðnaði hafi verið minna en þegar hann hafi verið starfandi fyrir Bandaríkjaher. Þessi sérfræðingur og starfsmaður tveggja fyrrv. Bandaríkjaforseta orðar það svo þegar hann kveður upp dóm um stjörnustríðsáformin að hann kallar þau mestu svik sem nokkru sinni hafi verið troðið upp á

bandarísku þjóðina. Það eru stór orð sem þessi virti maður hefur um þessa áætlun (Forseti hringir.) sem á komandi fjárhagsári á að verja til, ja, hvað halda menn hárri upphæð? 1900 milljörðum ísl. kr., 4100 millj. bandaríkjadala á komandi fjárhagsári --- og er þar þó um niðurskurð að ræða um að ég hygg um 700 millj. bandaríkjadala frá óskum Bandaríkjaforseta, sem tókst þó að smeygja þessu máli í gegnum Bandaríkjaþing með miklu auðveldari hætti en gert hafði verið ráð fyrir vegna þess að þingmenn voru uppteknir og vildu losna og komast heim vegna forsetakosninganna sem fram undan eru í Bandaríkjunum.