Bann við geimvopnum
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Guðrún J. Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Hvert sem mannleg augu líta nú á dögum þá sjáum við tvö stórveldi sem gína yfir málefnum okkar í austri og vestri. Þau taka ákvarðanir sem varða alla veröldina, hvert einasta mannsbarn og við fáum lítið að gert. Það eina sem við getum gert er að reyna að hreyfa mótmælum þegar að okkur steðja ógnir og hættur sem við sjáum að eru óhjákvæmilegar. Þessi hætta, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Guðrún Agnarsdóttir hafa bent á og er til umræðu hér, er svo geigvænleg að ég held að það sé sama í hvaða flokki menn eru þeir hljóta að sjá að það er nauðsyn að reyna að hefta þessa viti firrtu áætlun ef hægt er. Hún er ekki bara rándýr fyrir bandarískt þjóðfélag heldur mun hún kosta allan heiminn mikið.
    Það þarf enginn að ímynda sér það að þó að eldflaug geti grandað annarri eldflaug einhvers staðar langt úti í geimnum þá séu þær bara ekki lengur til og það hafi engin áhrif á andrúmsloftið eða þann geim sem í kringum okkur er. Síður en svo. Árekstur slíkra geimflauga úti í heimi hefur geigvænleg áhrif. Það er bara ekki víst að það hafi mest áhrif á þau lönd sem til stofnuðu. Það getur alveg eins verið Ísland eða eitthvert annað land. Þar af leiðandi varðar okkur það afskaplega miklu að geimvopnaáætlun Bandaríkjamanna verði ekki virk. Það hefur áður verið bent á það í þessum ræðustól í dag að hún muni líka margfalda tilhneigingu annarra til framleiðslu á vopnum og bara það hefur geysilega mikla þýðingu fyrir okkur. Síaukin hætta í vígbúnaðarkapphlaupinu er það sem við stöndum frammi fyrir. Við verðum að gera svo vel að reyna að leggja okkar af mörkum til þess að hindra að svo verði. Þar af leiðandi vil ég hvetja hæstv. utanrrh. til þess að taka alvarlegt mark á þáltill. sem hér er fram komin og flytja mál okkar skörulega á alþjóðavettvangi í þessum efnum.