Bann við geimvopnum
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Ég tek undir þau orð hv. 6. þm. Reykv., sem hér talaði áðan, að það má líta á það sem sjálfgefið að þm. á Alþingi Íslendinga, án tillits til stjórnmálaskoðana að öðru leyti, geti tekið undir þau markmið sem höfundar þessarar þáltill. lýsa í lokaorðum greinargerðar. Þar segja þeir að með tillögunni sé lögð á það áhersla að Alþingi Íslendinga leggi sitt lóð á vogarskálina gegn öllum hugmyndum um að nota himingeiminn til hernaðar nú og í framtíðinni og að fulltrúar Íslands fylgi þeirri stefnu eftir á alþjóðavettvangi. Ég geri ráð fyrir því að það sé hafið yfir vafa að um þetta geti menn verið sammála.
    Í beinu framhaldi af því vil ég svara fsp. sem hv. 2. þm. Austurl., 1. flm. þessarar tillögu, beindi til mín í framsöguræðu sinni. En hann vildi þá fræðast um viðhorf núv. utanrrh. til hins svokallaða ABM-samnings, þ.e. samningsins um takmarkanir á gagnflaugakerfum frá 1972. Ég get í mínu svari tekið undir svör forvera míns við sömu spurningu sem hv. frsm. vitnaði til. Það er að mínu mati hafið yfir vafa að ABM-sáttmálinn er einhver þýðingarmesti samningur sem gerður hefur verið milli risaveldanna um takmörkun vígbúnaðarkapphlaups. Gæti ég þess vegna tekið undir spurningu um túlkun á honum svo sem lýst er í grg. þar sem vitnað er til stjórnmálamanna, að vísu sem nú eru horfnir af sjónarsviði, eins og Helmut Schmidt, fyrrum kanslara Vestur-Þýskalands, Pierre Trudeau, fyrrum forsætisráðherra Kanada, og Robert McNamara, fyrrum varnarmálaráðherra Bandaríkjanna.
    Eins og fram kemur í greinargerð með tillögunni, þá er hún flutt nú í fjórða sinn. Sem betur fer er óhætt að segja það hér og nú að viðhorf í alþjóðamálum, vígbúnaðarmálum og afvopnunarmálum hafa breyst mjög til batnaðar á þeim tíma sem liðinn er frá því að þessi tillaga var flutt fyrst.
    Geimvarnaáætlun Bandaríkjamanna hefur frá fyrstu tíð verið afar umdeild. Margir hafa orðið til þess að efast um hagnýtt gildi hennar. Margir hafa lýst áhyggjum sínum af því hversu gríðarlegur kostnaður er henni samfara, þrátt fyrir óvissu um hagnýtt gildi. Margir hafa látið í ljós þá skoðun að líkleg viðbrögð hins risaveldisins yrðu helst þau að herða á eigin geimvopnarannsóknum sem vissulega hafa verið stundaðar í miklum mæli þótt farið hafi hljóðara um þær á Vesturlöndum. En helst hafa menn óttast að geimvarnaáætlunin mundi standa í vegi fyrir alvarlegri viðleitni til samkomulags um gagnkvæma kjarnavopnaafvopnun og óttast að viðbrögð Sovétmanna yrðu þau að fjölga langdrægum eldflaugum og fullkomna þær í því skyni að geta með þeim hætti komist fram hjá varnarviðbúnaði andstæðingsins.
    Af hálfu bandarískra stjórnvalda hefur ekki verið fallist á þessa gagnrýni og þessi rök. Því hefur verið haldið fram að markmið þeirra með geimvarnaáætluninni sé fyrst og fremst það að ná þeim áfanga að gera kjarnavopn óþörf. Jafnframt hafa

þeir vísað á bug gagnrýni á þær rannsóknir, sem hér um ræðir, á þeim forsendum að þær séu þess eðlis að alls óvíst sé enn um niðurstöður þeirra, fyrir utan það að þeir hafa bent á að það kunni að vera ýmsum erfiðleikum og vandkvæðum bundið að ætla að tryggja í framkvæmd bann við rannsóknum og út af fyrir sig má taka undir það.
    Ég sagði áðan að sem betur fer hafa viðhorf í alþjóðamálum og afvopnunarmálum breyst mjög til batnaðar frá því að þessi tillaga var fyrst lögð fram á Alþingi Íslendinga. Eins og fram kom í máli framsögumanns hefur það gerst þrátt fyrir allt að samkomulag hefur tekist milli risaveldanna um fyrstu skrefin, ekki aðeins við frystingu vígbúnaðarkapphlaupsins að því er varðar kjarnavopn heldur samkomulag um fækkun kjarnavopna, þ.e. skammdrægra og meðaldrægra vopna. Vonir stóðu til að hægt væri að stíga stærra skref sem næði einnig til langdrægra eldflauga og langdrægra kjarnavopna, en þær vonir hafa ekki ræst enn. Þrátt fyrir það eru menn nú til mikilla muna bjartsýnni á að sá árangur náist.
    Þetta sem ég nú hef sagt um breytt viðhorf kemur ágætlega fram í texta greinargerðar tillögunnar, sem er að ég hygg ef minni mitt bregst mér ekki hinn sami og var í upphafi. Þar er m.a. vitnað í svör eins af forverum mínum, þáv. utanrrh. Matthíasar Á. Mathiesens í skýrslu til Alþingis um utanríkismál, þar sem á það er bent að vonir manna um niðurskurð kjarnavopna hafi ekki ræst, en menn hafi þá gert sér vonir um að samningar gætu tekist um það sem minnstur ágreiningur var um, svo sem um 50% niðurskurð langdrægra kjarnavopna og niðurskurð meðaldrægra kjarnavopna í Evrópu. Vissulega hafa þær ekki ræst að fullu, en engu að síður er það staðreynd að stigin hafa verið stór skref fram á við. Þrátt fyrir hina umdeildu geimvarnaáætlun hafa vonirnar ræst um fyrstu skrefin í átt til fækkunar kjarnavopna, skammdrægra og meðaldrægra kjarnavopna. Og ég vil ekki gefa mér þá forsendu fyrir fram, þrátt fyrir allt, að við eigum ekki eftir að sjá innan skamms tíma víðtækara samkomulag sem einnig taki til langdrægra kjarnavopna.
    Virðulegi forseti. Ég held að ég sjái ekki ástæðu til á þessu stigi máls að hafa um þessa tillögu mikið fleiri orð. Ég hef þegar sagt að ég geri ekki
ráð fyrir því að nokkur ágreiningur sé uppi á hv. Alþingi um þau markmið sem hér er lýst. Ég lýsi ánægju minni yfir þeim árangri sem náðst hefur á þeim tíma sem liðinn er frá því að þessi tillaga var fyrst flutt. Ég rifja upp að í umræðum á hinu háa Alþingi á sínum tíma lýsti ég efasemdum mínum um að unnt væri að framfylgja banni við framkvæmd rannsókna sem þessu tengjast. Ég vil, reyndar í allri vinsemd, beina því til tillögumanna og reyndar til þeirrar hv. þingnefndar sem um málið fjallar hvort ekki gæti verið til bóta að breyta orðalagi 1. málsl. ályktunarorðanna, þar sem segir: ,,Allar rannsóknir og tilraunir er tengjast hernaði í himingeimnum verði tafarlaust stöðvaðar,,, á þessa leið: Allar rannsóknir er

beinast að hernaði í himingeimnum verði tafarlaust stöðvaðar. Ég vísa þá fyrst og fremst til þess sem ég hef þegar sagt að það kann að vera svo í reynd að óvíst sé um niðurstöður rannsókna og rannsóknir geta auðvitað leitt til margháttaðs vísindalegs árangurs sem öllu mannkyni getur orðið að gagni en vil taka af öll tvímæli um það að hér er verið að ræða um rannsóknir sem beinlínis stefna markvisst að því og beinast að því að undirbúa tæki og tækni sem leiða til notkunar í hernaðarskyni í geiminum.
    Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.