Bann við geimvopnum
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur fyrir hennar undirtektir við þessa tillögu og vissi þó raunar fyrir um stuðning þm. Kvennalistans við þetta mál, sem kemur fram í meðflutningi að því. Og ég fagna sérstaklega máli hæstv. utanrrh. varðandi þá tillögu sem hér er rædd. Ég skil undirtektir ráðherrans þannig að hann vilji greiða fyrir því að þessi tillaga fái hér þinglega meðferð og afgreiðslu á þessu þingi, enda má segja að tími sé til kominn eftir að mál þetta hefur verið flutt hér þrívegis áður. Ástæðurnar til þess að minna á það og fyrir Alþingi að taka afstöðu til þess og leggja sitt lóð á vogarskálarnar eru síst minni heldur en var þegar tillagan var upphaflega flutt.
    Eins og ég minnti á í framsöguræðu minni er þetta mál á fullri ferð á vegum Bandaríkjastjórnar og gífurlegum fjárhæðum er varið í þessu skyni. Talið er af Bandaríkjastjórn að gagnaðilinn, Sovétríkin, stundi rannsóknir og tilraunir sem snerta gagnflaugakerfi. Því hefur ekki verið neitað af þeirra hálfu að slíkar rannsóknir fari þar fram, þó að í minni mæli sé en í Bandaríkjunum. En tillaga þessi snertir auðvitað málið í heild, hvaða ríki sem á í hlut og ætlaði sér að færa hernaðarátök og herbúnað út í geiminn. Ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að athuga breytingar á orðalagi þessarar tillögu í utanrmn. til þess að greiða fyrir samkomulagi um málið og mér fannst að ábendingar frá hæstv. ráðherra væru fyllilega innan þeirra marka sem til álita kemur að fallast á sem breytingu á tillögunni og þakka honum fyrir ábendinguna.
    Tillaga mín er að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til utanrmn. þingsins, sem hefur haft þetta mál áður, og ég treysti því eftir þær undirtektir sem hér hafa orðið við þessa tillögu að á þessu þingi taki Alþingi af skarið og lýsi áliti sínu í þessu efni. Menn meta það e.t.v. misjafnlega hvaða þýðingu samþykktir þjóðþinga hafi í alþjóðlegu samhengi en ég er ekki í nokkrum vafa um það að eftir því sem þeim fjölgar sem taka afstöðu á þjóðþingum heimsins til þessa stórmáls, þeim mun meiri líkur eru á því að risaveldin sem hlut eiga í geimvopnarannsóknum átti sig og sinni kalli heimsbyggðarinnar um að vísa frá þessum óraunsæju hugmyndum um að útiloka að eldflaugar berist á leiðarenda með varnarkerfi sem komið væri fyrir uppi í himingeimnum. Það er nú þegar geysilega mikið af drasli, svo notað sé einfalt íslenskt orð yfir mikið dót, sem sveimar nú yfir jörðinni í nokkur hundruð kílómetra hæð. Þetta eru gervihnettir sem skotið hefur verið á loft og leifar af slíkum geimstöðvum og búnaði þeim tengdum. Það er ótrúlegar magn. Ég hef hér fyrir framan mig úrklippu úr viðtali við sovéskan aðila, sem Surikov heitir, í Jaynes Defence Weekly 16. júlí 1988, þar sem hann greinir frá því að í júní 1987 hafi verið 1702 gervihnettir á sveimi umhverfis jörðu og 5130 meiri háttar brot eða leifar af búnaði gervihnatta, geimstöðva og eldflauga hafi snúist í kringum jörðu í 500--2000 km hæð. Þetta eru þó hreinir smámunir miðað við það

sem áætlanir eru uppi um í sambandi við hernaðarnot á himingeimnum og tengjast geimvopnaáætluninni sem við best þekkjum, þ.e. bandarísku hugmyndunum. Það er sannarlega með hryllingi sem maður hugsar til þess að þúsundir manna og kannski tugir þúsunda manna skuli vera að vinna að því með gífurlegum tilkostnaði að þróa undirstöðu- og frumáætlanir við fyrirætlanir af þessu tagi.
     Ég lít á það sem skyldu okkar að vera á vaktinni í sambandi við þessi mál og ég fagna því að undirtektir við þessa tillögu eru nú betri hér á Alþingi Íslendinga en áður þegar þær hafa komið til umræðu.