Sjálfseignarstofnanir
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég þakka flm. þessa máls fyrir að koma með það inn á vettvang Alþingis. Þetta er nauðsynjamál, að setja lög um sjálfseignarstofnanir, og þótt fyrr hefði verið. Fyrsta flm. Guðrúnu J. Halldórsdóttur vil ég þakka fyrir hennar frumkvæði í þessu efni. Hún hefur sem varaþingmaður sýnt það að hún er hugmyndarík og hefur komið með mörg ágæt mál inn í þingið. Þau hafa ekki öll fengið þann framgang sem þau hefðu átt skilið, t.d. á sviði skólamála, fjarkennslu og fleiri þátta. Og vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni um atfylgi hæstv. iðnrh. í þessu máli er það auðvitað ekki ónýtt fyrir hæstv. ráðherra að fá stuðning þingsins með samþykkt þessarar tillögu til þess að greiða fyrir málinu og veita því þá áherslu sem því ber.
    Ég vænti þess að mál þetta geti fengið greiðan framgang í þeirri þingnefnd sem lagt er til að fái það til meðferðar og ég held að viðkomandi ráðherrar, sem sýna þann dugnað og framsýni að taka á málum, geti aðeins verið ánægðir með það ef þingviljinn er þeim til stuðnings í þessu efni.