Umhverfisfræðsla
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Flm. (Kristín Halldórsdóttir):
    Ég vil aðeins, hæstv. forseti, þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað og ég vil sérstaklega þakka hv. 2. þm. Austurl. fyrir hans orð. Ég vissi að við áttum hans stuðning vísan við þetta. Hann tók til máls um þetta í fyrra og hefur lengi unnið að þessum málum. M.a. kynntist ég greinaskrifum hans og bókum sem út hafa komið um þetta efni, sem ég reyndar vissi ekki um allt saman áður en ég fékk það í hendur eftir umræðuna í fyrra. Einnig hafði ég í annríkinu ekki tekið eftir því að hann væri orðinn formaður félmn., en ég fagna því. Það er þá þeim mun líklegra að þetta mál fái betri framgang en á síðasta þingi.
    Ég vil einnig þakka sérstaklega síðasta ræðumanni sem tók þátt í umræðunni. Hann minntist hér m.a. á annað mál sem snertir umhverfismálin svo sannarlega og það er um skipan þeirra í stjórnkerfi okkar. Það er mál sem oft hefur komið upp á þingi sl. fimm ár, sem er sá tími sem ég hef reynslu af þingstörfum hér, og ekki vansalaust hvað okkur gengur illa að ná saman um bráðnauðsynlegar breytingar í þeim efnum. Ég held að allar ríkisstjórnir að undanförnu hafi lýst yfir vilja sínum til að taka á þeim málum og koma þeim í betra horf og enn er hnykkt á því, ef ég man rétt, í málefnasamningi þessarar ríkisstjórnar. Er nú eftir að sjá hvort henni endist örendið til þess að koma því til betri vegar.
    Ég vil þá ekki hafa neitt fleiri orð um þetta. Ég vildi aðeins þakka hv. ræðumönnum fyrir að taka undir efni tillögunnar og fyrir stuðning þeirra í þessu máli.