Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

    Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Hæstv. utanrrh. tjáði mér áðan að hann hygðist hverfa á brott upp úr hálffjögur. Ég verð að gera athugasemd við hans ræðu áðan þar sem hann vísaði til skjals dags. 2. sept. sem lagt hefði verið fram í ríkisstjórn og las upp úr því skjali tölur. Ég hef hér skjal, og hef borið mig saman við aðra aðila, sem lagt var fram í ríkisstjórn 2. sept. en er ekki með sömu tölum og hæstv. ráðherra var með. Auk þess er ég hér með skjal dags. 1. sept., fram lagt þá á ríkisstjórnarfundi, sem ekki ber saman við það skjal sem hæstv. ráðherra las upp úr áðan. Þar sem ráðherrann er að hverfa héðan af fundi, sem mér finnst að vísu ekki vera viðeigandi, þar sem hér er verið að gera grein fyrir stöðu ríkisfjármála, nú eftir níu mánuði, af hæstv. núv. fjmrh., að sá sem gegnt hefur starfinu þann tíma sé ekki viðstaddur þegar þessar umræður fara fram því að vissulega er það hans að svara fyrir þá ákveðnu hluti sem fram hafa komið, hverjir svo sem þeir eru.