Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Þessi umræða sem hér fer fram utan dagskrár er vakin af hæstv. fjmrh. um stöðuna í ríkisfjármálum og þá sérstaklega stöðu ríkissjóðs. Umræðan er hafin við þær sérstæðu aðstæður að þingheimur allur bíður eftir því máli sem venjulega og samkvæmt lögum er fyrsta mál hvers þings, þ.e. frv. til fjárlaga næsta árs sem vitaskuld er ætíð byggt á stöðu og afkomu líðandi árs.
    Þegar hæstv. forsrh. fór þess á leit við stjórnarandstöðuna að þinghaldið yrði með þeim hætti sem raun hefur á orðið meðan beðið yrði eftir fjárlagafrv. bjóst hann við að frv. yrði lagt fram 24.--26. okt., þ.e. í gær eða dagana á undan, og jafnframt að hann flytti stefnuræðu sína þann 27. okt., þ.e. í dag. Nú er hins vegar sýnt að þau áform frestast, a.m.k. um eina viku, og mér kæmi ekki á óvart þó að þær yrðu tvær. Þá er jafnframt ljóst að þriðjungur þess tíma sem venjulega hefur farið í umfjöllun Alþingis og fjvn. á fjárlagafrv., frá þingbyrjun til jóla, er farinn forgörðum. Mér sýnist því að hæstv. fjmrh. hefði átt að verja tíma sínum og atorku í að láta þessi fyrstu fyrirheit hæstv. ríkisstjórnar ekki bregðast, svo sem þegar hefur því miður orðið, fremur en að leggja þá rækt við það sjónarspil sem hér er sett á svið.
    Fyrsti þáttur þess fór fram, eins og hér hefur verið minnst á fyrr í dag, suður í Garðabæ meðal nokkurra fylgjenda hæstv. fjmrh. og það varð aftur tilefni til utandagskrárumræðu hæstv. fráfarandi forsrh. hér í þessum sal, að vísu í Nd., í sl. viku og var hún því annar þáttur þessarar trílógíu. Þriðji þátturinn fer svo fram hér í dag og eins og í öðrum sjónleikjum er spennan þá í hámarki, enda ein aðalpersóna farsans nýkomin heim úr útlöndum og líklega farin aftur að því er virðist. A.m.k. var ekki annað að sjá en að sá hæstv. ráðherra gæti ekki verið hér viðstaddur allan leikinn til enda, enda er það svo í þessum farsa að hér eru senuþjófar eins og vera ber og út af fyrir sig ekkert við því að segja. Hæstv. forsrh. heldur sig hins vegar greinilega baksviðs og hefur enga replikku látið falla enn í þessum leik, ekki einu sinni viðstaddur. Hann er kannski einn meðal sviðsmanna.
    Hér er vitaskuld um ákveðið uppgjör að ræða, uppgjör á milli manna úr fyrrv. og núv. ríkisstjórn. Borgfl. átti þar ekki hlut að og mun því ekki taka þátt í því sem slíku. En þó að hann sé flokka yngstur hér í þinginu held ég að enginn þm. hans hafi legið á liði sínu við að sinna þingskyldu sinni og því meginhlutverki sem Borgfl. gegndi á sínu fyrsta þingi, þ.e. hlutverki stjórnarandstöðunnar. Og þó að fulltrúar fjórflokkanna sem eiga það, að því er mér finnst, eitt sameiginlegt að vera heimaríkir og nokkuð gírugir þegar þeir koma nærri kjötkötlunum þó að þeir telji sig hafa flest á þurru, t.d. markaða stefnu út í hörgul í hverju máli og að því er manni skilst um flest milli himins og jarðar, eins og t.d. kom einkar vel fram hér í gær hjá hv. 2. þm. Austurl. í Nd. um hvalamálið, er samt meginspurningin í pólitík sú, og ætíð og ævinlega, um samræmið á milli orðs og æðis, milli

áforma og framkvæmda. Um það verður öðru fremur hin þrotlausa barátta ætíð því að kjósandinn á Íslandi er sem betur fer, og eins og dæmin sanna, ekki skyni skroppinn. Hann finnur vel hvað að honum snýr. Þess vegna er sú umræða sem hér fer fram um stöðu ríkisfjármála vissulega þörf og miklu meira en það miðað við þá hrikalegu stöðu sem við blasir þar og hefur ríkulega verið á bent.
    Markmiðin voru góð og fyrirheitin voru fögur er upp var lagt á öndverðu þessu ári. Ekki skorti þáv. ríkisstjórn þingstyrkinn og öllum áformum sínum kom hún í gegn á síðasta þingi nema einu markverðu. Það var verkaskiptingarfrv. En aðrar eins ægiálögur í beinni og óbeinni skattlagningu höfðu menn aldrei áður upplifað, a.m.k. ekki með jafnsnörpum hætti, enda lá mikið við. Tveggja til þriggja milljarða halli á A-hluta ríkissjóðs var viðskilnaður fyrri ríkisstjórnar. Allir voru sammála um að hallalaus fjárlög væru hið æskilega markmið og það var rangt sem hæstv. fyrrv. fjmrh. og núv. hæstv. utanrrh. sagði áðan í umræðunni, það var rangt að ég eða aðrir í stjórnarandstöðunni hefðum ekki talið það æskilegt markmið að afgreiða fjárlög hallalaus. Ef umræðan frá því í fyrra er skoðuð og lesin mun það áreiðanlega koma fram að við, mörg okkar, lögðum það til og við samþykktum það stefnumark þáv. ríksstjórnar að afgreiða fjárlög hallalaus, ekki síst við þær aðstæður sem þá voru í allri þeirri þenslu sem þá ríkti í þessu þjóðfélagi. Þess vegna endurtek ég að það voru allir sammála þessu meginmarkmiði að afgreiða fjárlög hallalaus og töldu að það væri eðlilegt, ekki síst miðað við þessar aðstæður, með sífellt óhagstæðari viðskiptajöfnuð, e.t.v. 12 milljarða eins og kom fram fyrr í umræðunum. Menn tala um 11--13 milljarða eða sem svarar hartnær fimmtungi tekna ríkissjóðs.
    Enda þótt ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafi sprungið af tveimur meginástæðum að minni hyggju, þ.e. annars vegar hruni atvinnulífsins, sérstaklega úti á landsbyggðinni, og síðan innbyrðis óheilindum, mistókst henni einnig að ná þessu meginmarkmiði að reka ríkissjóð án halla. Og það er að minni hyggju ákaflega þýðingarmikið að gera sér grein fyrir ástæðum þess að svo hörmulega skyldi til takast.
    Nú vill svo til að samkvæmt lögum nr. 12/1986 er ráð fyrir því gert að
Ríkisendurskoðun skuli hafa eftirlit með framkvæmd fjárlaga. Það mun hafa verið í fyrsta sinn nú í ár sem þannig var staðið að verki að Ríkisendurskoðun skilar skýrslu til allra þm. á miðju ári um þessa hluti. Þessi skýrsla kom fram í ágúst og hún er í rauninni grundvöllurinn annars vegar að vitneskju þingmanna, þingheims alls, um stöðuna á þeim tíma og hins vegar var hún grundvöllurinn að þeirri spennu, þeirri óeiningu sem var á milli þáv. fjmrh. og Ríkisendurskoðunar um þetta mikilsverða dæmi.
    Mér finnst það hins vegar annálsvert í þessum umræðum því ég fékk ekki betur heyrt en að í lok orða hæstv. utanrrh. hafi hann í raun viðurkennt það sem hann ekki vildi viðurkenna í sumar að niðurstaða Ríkisendurskoðunar var á þeim tíma rétt um afkomu

ríkissjóðs og hún var á þann hátt sem hann vildi núna, í þessum umræðum, gjarnan fallast á. Þetta er ákaflega þýðingarmikið atriði, ekki síst þegar hlutir verða eins og hér urðu að ríkisstjórn springur við þær aðstæður sem hér urðu í sumar. Óeining er eðlileg á milli manna, spenna á milli pólitísku aflanna, en það er einn aðili í landinu sem mátti treysta í þessum hildarleik sem hér var í rauninni leikinn, það var Ríkisendurskoðun. Við skulum athuga nánar, út af fyrir sig, hvernig Ríkisendurskoðun matreiðir þetta eða kemur þessu á framfæri.
    Hvað segir Ríkisendurskoðun um fjárlög ársins 1988 og þær breytingar sem þar urðu í framkvæmd. Með leyfi hæstv. forseta segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar:
    ,,Fjárlög fyrir árið 1988, að teknu tilliti til efnahagsráðstafana sem Alþingi samþykkti með lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum 1988, í marsmánuði sl., gerðu ráð fyrir að tekjur A-hluta ríkissjóðs næmu 63,5 millj. kr. og gjöld nánast eins, 63,5 millj. kr. Þannig var gert ráð fyrir tekjuafgangi að fjárhæð 53 millj. kr. sem er 27 millj. kr. hærri fjárhæð en fjárlög ársins höfðu gert ráð fyrir. Þetta breyttist við efnahagsráðstafanirnar sem gerðar voru í febrúar.
    Útgreiðslur vegna lána og viðskiptareikninga voru áætlaðar 5175 millj. kr. Þar af var veitt lán til annarra en A-hluta ríkissjóðs um 2600 millj. kr. Lánsfjárþörf nam því samtals 5122 millj. kr., en gert var ráð fyrir að lántökur yrðu 5165 millj. kr., þar af 4260 millj. kr. innan lands, sem er ákaflega þýðingarmikið atriði og var eitt af meginstefnumálum fyrrv. ríkisstjórnar, að auka lántökurnar innan lands, en erlendu lántökurnar yrðu aðeins 905 millj. kr. Að öllu þessu samanlögðu var gert ráð fyrir að greiðslujöfnuður yrði jákvæður um 43 millj. kr. hjá A-hluta ríkissjóðs á þessu ári. Verðlagsforsendur fjárlaga fyrir árið 1988 voru byggðar á að almennt verðlag mundi hækka að meðaltali um 18% frá fyrra ári, lánskjaravísitalan hækkaði um 17,5% og að meðalgengi á verði erlends gjaldeyris yrði óbreytt á milli áranna 1987 og 1988. Fjárlög miðuðu að því að launabreytingar milli ára næmu 17% að meðaltali.
    Hvernig varð síðan útkoman eins og þetta horfir nú? Þróun verðlags og launa hefur orðið önnur en forsenda fjárlaga gerði ráð fyrir. Nú er áætlað að almennt verðlag hækki að meðaltali um 28%, 10% hærra miðað við 18% í forsendum fjárlaga, lánskjaravísitalan hækki um 25% sem er um 7 1 / 2 % hærra en forsendur fjárlaga gerðu ráð fyrir. Meðalgengi á verði erlends gjaldeyris hækki um 15% sem átti að vera óbreytt miðað við forsendur fjárlaga og atvinnutekjur er gert ráð fyrir að hækki frá fyrra ári að meðaltali um 25% eða um 8% meira en áður hafði verið ráð fyrir gert í forsendum fjárlaga. Þetta hefur auðvitað haft mikil áhrif á allt þetta dæmi, eins og hér hefur ríkulega komið fram í þessum umræðum, bæði í máli hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh. ekki síður.
    Ég endurtek það hins vegar að mér þykir þessi

umræða annálsverð að því leyti að hæstv. utanrrh. hafi að meginhluta viðurkennt niðurstöðu Ríkisendurskoðunar um þann halla sem verður væntanlega ef ekki verður gripið til nýrra ráðstafana á rekstri A-hluta ríkissjóðs í ár.
    Með leyfi forseta vildi ég gjarnan fá að lesa örstuttan kafla um það að hvaða niðurstöðu Ríkisendurskoðun taldi sig komast. Hún taldi í ágústmánuði að að öllu óbreyttu yrði hallinn 1,5--2 milljarðar króna, nokkurn veginn sama upphæð og hæstv. utanrrh. nefndi áðan og viðurkenndi rétt áður en hann gekk úr sal. Hér er um umtalsverða breytingu að ræða, segir í skýrslu Ríkisendurskoðunar, til hins verra. En í lögum nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, var, eins og ég áðan las upp, gert ráð fyrir 53 millj. kr. rekstrarafgangi. Helstu ástæður þessa rekstrarhalla sem stefnir í eru fjórar á þessum tíma. Sú fimmta hefur síðan bæst við.
    1. Vaxtagjöld vegna innan árs fjárþarfa A-hluta ríkissjóðs, miðað við áætlun fjárlaga og hærra vaxtastig, um 1,2 milljarða kr. Það var þessi upphæð sem hæstv. þáv. fjmrh. vefengdi í sumar, en núna var ekki annað á honum að heyra en að hann væri orðinn nokkuð sammála.
    2. Nýjar útgjaldaákvarðanir koma til með að hækka að fjárhæð um tæpar 300 millj. kr. Við þetta hafa síðan bæst um 600 millj. með tilkomu nýrrar hæstv. ríkisstjórnar sem voru, eins og hæstv. utanrrh. tíundaði að vísu hér áðan,
einungis 515. Það skal ég að vísu ekki dæma nánar um.
    3. Launakostnaður hefur aukist að mati Ríkisendurskoðunar um 200 millj. kr. vegna mismunarins sem ég áðan gat.
    4. Innheimta vörugjalds verður aðeins um 2 / 3 þess sem áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir.
    Fimmta atriðið er hér ekki upp talið sem þó er vafalaust þýðingarmest, en það er hrunið í innheimtu sölugjaldsins sem hér hefur verið drepið á fyrr í umræðunum. Kemur fram núna í þeim gögnum, sem hæstv. fjmrh. lagði fram, að eins og nú stefnir sé þar um að ræða um 900 millj. kr. upphæð.
    Ég mun, hæstv. forseti, ekki taka langan tíma, en áður en ég lýk máli mínu, þá vil ég gjarnan minnast á eitt atriði enn í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem mér finnst máli skipta, en það eru orð Ríkisendurskoðunar um starfsmannahald hjá ríkinu og þróun þess. Það kom einnig fram hér hjá hæstv. utanrrh. áðan, það var eitt af þeim atriðum sem hann lagði áherslu á þegar hann var með varnaðarorð og raunar ráðleggingar til eftirmanns síns um sjálfvirknina í þeim efnum. Og mér fannst sérstaklega athyglisvert að heyra upptalningu hans, en mér fannst eitt á skorta. Einni sjálfvirkni gleymdi hæstv. utanrrh. og mér þykir það miður að hann skuli vera genginn á brott og geti ekki þegið þá áminningu sem í þeim orðum mínum mun felast. Hann gleymdi sjálfvirkninni um lánskjaravísitöluna. Hann gleymdi þeirri sjálfvirkni sem er hættulegust, sem er sú versta sem viðgengst í okkar þjóðfélagi. Og það er ekki lítið atriði, það er

ekki þýðingarlítið atriði, hæstv. fjmrh., þegar jafnáhrifaríkur leiðtogi og hæstv. utanrrh. gengur þess dulinn hver áhrif þeirrar sjálfvirkni eru í öllu okkar efnahagslífi og raunar í öllu okkar þjóðlífi. Ég held að það sé ekki hægt að óska hæstv. ríkisstjórn betri óskar en að augu hennar lykjust frekar upp en þeirrar fyrri um þetta meginatriði. E.t.v. eigum við eftir að eiga um það orðastað síðar, en varðandi starfsmannahaldið segir hér í skýrslu Ríkisendurskoðunar:
    ,,Þá er hér enn fremur fjallað um launakostnað hjá A-hluta ríkissjóðs, fyrri árshelming þessa árs í samanburði við sama tímabil ársins 1987, en í þeirri athugun kemur m.a. fram eftirfarandi:
    Fjölgun ígilda stöðugilda hjá A-hluta ríkissjóðs fyrri helming þessa árs í samanburði við sama tímabil síðasta árs svarar til 725 stöðugilda. Af þessari aukningu er um að ræða 230 ný stöðugildi af þeim 330 er fjárlög heimiluðu á árinu 1988. Aðeins hálft árið er liðið og það er búið að ráða 230 af 330 sem verða væntanlega heimil. Þá komu til áhrif vegna verkfalla á árinu 1987 sem metið er 80 stöðugildi. Þannig má gera ráð fyrir að magnaukning starfa hafi orðið á milli ára um 415 stöðugildi. Aukning er í yfirvinnu sem svarar til 101 stöðugildis frá árinu 1987. Þarna er um að ræða þessa sjálfvirkni sem hæstv. utanrrh. talaði um hér áðan. Og ég er honum hjartanlega sammála um það að þarna er mjög mikilsvert atriði sem skiptir máli að menn komi betra skikki á.
    Þegar þessi aðvörun Ríkisendurskoðunar er höfð í huga um starfsmannahald hjá ríkinu og ekki síður það heildarsjónarmið sem hlýtur að vera mönnum ofarlega í sinni, að gæta hófs og sparnaðar, þá kemur ósjálfrátt upp í hugann sú nýja tíska að hafa nánast tvöfalda ríkisstjórn og raunar gott betur. Þar á ég við aðstoðarmenn ráðherra sem svo eru nefndir. Nú bregður hins vegar svo við að gengið er þrefaldað á sumum bæjum og nú eru það ráðunautar sem koma til sögunnar eins og tíðkast í sveitum. Ég vil af þessu tilefni spyrja hæstv. fjmrh., sem vafalaust talar hér aftur við umræðuna, hvort hér sé um að ræða almenna stefnubreytingu af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, hvort þessi háttur verði á hafður í fleiri ráðuneytum en þegar er orðið, jafnvel yfir heilu línuna, og seinast en ekki síst hvort ráð hafi verið gert fyrir fjárveitingum til þessara embætta á fjárlögum ársins 1988 eða hvort þarna sé hugsanlega um aukafjárveitingar að ræða, hvort aukafjárveitingar þurfi til til þess að þetta ágæta fólk fái launin sín. Þetta finnst mér vera atriði sem skiptir máli, ekki síst vegna þess að það hlýtur að verða hlutverk þessarar hæstv. ríkisstjórnar að gæta aðhalds, að fá því framgengt að sparnaðar og aðhalds verði gætt mjög víða í þjóðfélaginu ef ekki á illa að fara. Og þá er spurningin þessi: Ætlar ríkisstjórnin að ganga á undan með góðu fordæmi eða er þetta fordæmið sem hún ætlar að gefa?
    Eins og menn rekur eflaust minni til var uppistaðan í átökunum hér á síðasta þingi --- um fjárlög, um söluskatt og raunar um önnur skattamál --- almennt deilan um það hvort leggja bæri á söluskatt á einu

stigi sem neysluskatt eða ekki. Matarskatturinn frægi var afsakaður sem nauðsyn fyrst og fremst af þessum formsástæðum að það væri betra að innheimta, það væri þægilegra að ná árangri, góðum árangri í innheimtu með einu söluskattsstigi. Rökin voru að auki þau að neysluskattur á einu stigi væri raunar forsenda góðra skila. 400 millj. kr. ætluðu menn að fá í aukagetu, betri innheimtu af þessum ástæðum einum saman. Mér þóttu þá þessar 400 millj. kr. harla lág upphæð miðað við niðurstöðuna sem skattsvikanefndin hafði komist að. Mér reiknaðist svo til að ef niðurstaðan ætti að vera eitthvað viðlíka og Þröstur Ólafsson og hans félagar höfðu komist að á sínum tíma, þá ætti sparnaðurinn og
aukin innheimta að nema í dæminu í fyrra um 2 1 / 2 milljarði kr. Nú hefur komið í ljós að þetta voru því miður falsrök, hugarburður einn sem ekki stóðst dóm reynslunnar. Innheimta söluskatts hefur aldrei gengið jafnilla. Ekki ein einasta króna af þessum 400 millj. hefur skilað sér. Fulltrúi Ríkisendurskoðunar lýsti því yfir á fundi fjvn. í sl. viku að fækkun undanþága hafi ekki leitt til betri innheimtu, heldur þveröfugt. Þveröfugt.
    Auðvitað gleymi ég ekki hinum almenna vanda í atvinnulífinu. Ég gleymi ekki samdrættinum sem hér hefur verið talinn sem eitt meginatriðið í þessu sambandi. Því er ég auðvitað hjartanlega sammála. En þegar menn meta þetta þá mega þeir heldur ekki gleyma því að innheimtan átti að ganga mun betur og samdráttarins, sem menn leggja megináherslu á í þessu sambandi, var ekki farið að gæta fyrri hluta ársins. Hrunið í söluskattsinnheimntunni verður í júlí, ágúst og fram í september. Og þó hafði þess gætt fyrri hluta ársins að söluskatturinn innheimtist ekki sem skyldi. En þessi ótvíræða yfirlýsing, sem gefin var í fjvn. í sl. viku, yfirlýsing hins grandvara embættismanns, er mér næg sönnun auk þeirrar sannfæringar sem ég að vísu hafði áður um þetta efni.
    En þar sem ég tel að nú sé fjárlagafrv. komið í prentun, þá vil ég í lok máls míns flytja hæstv. fjmrh. eina fsp. að lokum og hún er ákaflega þýðingarmikil og snertir þetta atriði. Hún snertir auðvitað þá pólitík sem hans flokkur hefur rekið hér áður á hv. Alþingi af miklum þunga, og hún snertir líka þessa niðurstöðu sem nú er á innheimtumálum söluskattsins. Fyrirspurnin er þessi:
    Hæstv. fjmrh. Verður söluskattur sem neysluskattur hér áfram innheimtur á einu stigi 1989, og þar með á matvæli, eða ekki?