Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér hljóðs undir ræðu hæstv. utanrrh. og að gefnu tilefni. Það er að vísu leitt að hann skuli hafa þurft að hverfa héðan en engu að síður ætla ég að tala í nokkrar mínútur. Væntanlega gefst okkur færi á að ræða um þessi mál í heild, mér og hæstv. ráðherra, síðar.
    Hæstv. ráðherra vék að atburðum sem senn heyra nú sögunni til, þ.e. stjórnarmynduninni í fyrrasumar og kemst ég ekki hjá að fylla nokkuð upp í eyðurnar hjá honum í því efni. Það var rétt að talið var í fyrrasumar að halli fjárlaga gæti verið á bilinu 3--4 milljarðar. Nú vil ég strax í upphafi taka fram að ég tek allar tölur frá hinum opinberu stofnunum með fyrirvörum og einkum og sér í lagi þó spádómana. Eins og á daginn hefur komið eru þeir ekkert sem byggjandi er á.
    Við skulum hins vegar segja að menn hafi verið sammála um það sumarið 1987 að stefndi í 3--4 milljarða króna halla á því ári og á því næsta, þ.e. þessu ári sem við nú lifum, væntanlega eitthvað svipað ef ekkert yrði að gert annaðhvort í niðurskurði eða með hækkun skatta. Þá var það að Sjálfstfl. lét í stjórnarmyndunarviðræðunum af þeirri ákveðnu stefnu sinni að hækka alls ekki skatta ef hann yrði aðili að ríkisstjórn og það var fallist á skattahækkanir upp á einn milljarð króna á sl. ári. Það var á miðju ári og hefði því væntanlega þýtt nálægt tveimur milljörðum á heilu ári.
    Þetta var gert til þess að koma til móts við kröfur formanna þeirra flokka sem við var rætt, þ.e. Alþfl. og Framsfl., en þeir höfðu báðir krafist fyrstu aðgerða eins og það var nefnt, þ.e. skattlagningar á því ári. Það kom raunar í minn hlut í þingflokki Sjálfstfl. að flytja tillögu um þessa skattahækkun, þ.e. einn milljarð, og ég lýsti því þá yfir að það kæmi vel á vondan því að allir vissu að ég taldi að skattlagningarstefnan væri röng, aukin skattlagning væri röng, en stjórn yrðum við að fá og því væri fórnandi að hækka skatta um einn milljarð til að stjórn yrði mynduð.
    Síðan gerðist það daginn fyrir þingsetningu í fyrra, 9. okt., að ríkisstjórnin tilkynnti að hún hefði bætt við þetta nokkrum milljörðum. Ég veit ekki hvort þeir voru þrír, fjórir eða fimm. Á þeirri stundu held ég að stjórnin hafi þegar kveðið upp yfir sér þann dóm að verðbólgan mundi aukast, halli á fjárlögum mundi aukast. Hann mundi aukast en ekki minnka. Það sagði ég á þeim degi í mínum flokki og nú ætla ég að færa rök að því hvers vegna skattar leiða stundum til þess að halli fjárlaga eykst en minnkar ekki og það gera þeir raunar tíðum.
    Hér í ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra að ríkisstjórnin fyrrv. hefði lagt áherslu á að jafna hallann og það hefði verið hennar stefna. Ég greip þá fram í fyrir honum og sagði að það hefði átt að reyna að sigrast á hallanum á þremur árum og svar hans var held ég orðrétt: Aðstæður höguðu því þannig að hraða þurfti því. Það þurfti að hraða því að ná hallalausum fjárlögum. Það var alveg ljóst þegar þessum sköttum

var dengt yfir að halli mundi ekki minnka á fjárlögum. Hann mundi aukast. Og nú er komið á daginn að hann er orðinn 5,2 milljarðar, meiri en hann var áður, meiri en hann hefði orðið án skattahækkana, mun meiri og stefnir jafnvel í 7 eða 8 milljarða. Það er nefnilega þannig, þó að reiknimeistarar virðist ekki vita það, að það eru tveir dálkar í fjárlögum. Það er ekki bara tekjudálkur, það er líka gjaldadálkur. Þegar skattar eru hækkaðir, þannig að fólkið verður að velta þessum byrðum af sér með einhverjum hætti, hækkuðum launum venjulega, gengið fellur o.s.frv., hækkar gjaldahliðin tíðum á undan tekjuhliðinni og það er það sem hæstv. ráðherra var einmitt að skýra okkur frá núna áðan að hefði orðið raunin, að tekjur hefðu orðið minni en áætlað var en gjöldin meiri. Þess vegna skapaðist hallinn.
    Svona einfalt er málið. Það eru nefnilega tveir dálkar í fjárlögunum, en þegar talað er um gatið stóra --- það er alltaf á hverju einasta ári talað um þriggja, fjögra, fimm milljarða gat, bætt á nýjum sköttum til að fylla í gatið, en það auðvitað stækkar. Stærsta gatið er nú. Við getum ekki lokað augunum fyrir því. Langstærsta gatið verður svo næsta ár, helmingi stærra en núna, vegna þess að nú á að dengja yfir enn nýjum sköttum ofan á alla hina og þá fyrst hrynur þetta kerfi allt saman. Það er það sem er alveg öruggt. Það á eftir að liggja fyrir hæstv. núv. fjmrh. að skila ríkissjóði á miðju næsta ári, ef þessi ríkisstjórn lifir þangað til, með mesta halla í sögu landsins. Það er ljóst. Það stefnir beint í það og við skulum öll vera við því búin að sprenging verði nú strax í vetur. Þá verður auðvitað sprenging. Hæstv. forsrh. er þegar byrjaður að boða að það þurfi að aðlaga gengið, það sé enn þá rangt skráð um 15% eða svo. Sjálfsagt er það rétt hjá honum að það verði að gera ráðstafanir í því efni.
    Það var sagt í fyrra og það er sagt nú að slá verði á þenslu og koma í veg fyrir að halli á fjárlögum kyndi undir verðbólgu. Kynda skattarnir ekki undir verðbólgu? Kyndir það ekki undir verðbólgu þegar söluskattar, aðstöðugjöld og hvað það nú allt saman heitir er lagt á ofan á alla þá gífurlegu skatta sem fyrir eru? Auðvitað er það verðbólguvaldur. Og einmitt neysluskattarnir eru
sérstakur verðbólguvaldur vegna þess að það sprengir verðlagið strax upp og knýr svo fólkið líka til þess að berjast fyrir hærri launum. Tekjuskattarnir verka þó aðeins á annan veginn. Auðvitað knýja þeir fólk til þess að krefjast hærri launa, en það sprengir ekki verðlagið upp á fyrsta degi eins og neysluskattarnir gera.
    Hæstv. utanrrh. sagði: Þetta tókst ekki. Svo fór hann að skýra hvers vegna það tókst ekki. Það er svo augljóst mál hvers vegna ekki tókst að berja niður þensluna og skila hallalausum fjárlögum. Ég var raunar að lýsa því áðan, en ráðherrann var hér algjörlega áreitnilaus. Þar sem hann er ekki viðstaddur ætla ég að vera það líka og málefnalegur og vona að ég geti síðar rætt þessi mál við ráðherrann algjörlega

málefnalega vegna þess að það eru fáir menn sem skemmtilegra er að rökræða við en einmitt hæstv. ráðherra. Þó að hann hafi sína skoðun í ríkisfjármálum og ég mína getum við talað saman og munum áreiðanlega gera, bæði í þinginu og annars staðar.
    Hæstv. ráðherra sagðist vilja gera hreint fyrir sínum dyrum. Hann gerði það. Hann gerði hreint fyrir sínum dyrum. Hann taldi upp og tíundaði allt sem hafði valdið því að fjárlögin eru ekki hallalaus. Þær upphæðir, eftir því sem ég gat náð niður, voru kannski kringum 1 milljarður, þessir pinklar sem hann var að tína til og sem voru utan við það sem áður hafði verið áætlað. Það er miklu meira, segir hv. þm. Matthías Á. Mathiesen. Ég heyrði ekki hærri tölur en þetta frá því sem hafði verið ákveðið í fjárlögum. Hins vegar voru allt aðrar tölur sem hann var að tala um að réttlættu mismuninn á júnítölunum og því sem þær voru í reynd. Ég býst við að hv. þm. eigi við það. Það voru allt aðrar tölur. Dæmið var nefnilega óreiknanlegt. Það er hægt að setja upp dæmi sem er ekki hægt að reikna, dæmi sem gengur ekki upp, ef það er bara tekið tillit til eins faktors í málinu, svo að ég noti nú ljótt mál. Auðvitað er alveg ljóst að fólk lætur ekki bjóða sér endalausa skattheimtu. Sem betur fer er það þannig í lýðræðisríkjum og nú ætla ég að koma að því sem menn virðast ekki vita hér. Það er ekki til eitt einasta vestrænt lýðræðisríki með svokallaðan hallalausan ríkisbúskap, ekki mér vitanlega. Það var að vísu bent á það af hagfræðingunum sem ég spurði: Getið þið nefnt mér eitt ríki sem er með hallalausan ríkisbúskap? Þeir sögðu Sviss. Ég hugsa að það sé rétt vegna þess að í Sviss eru kantónur eða fylki sem sjá svo til um allan rekstur ríkisins. Það er aðeins yfirstjórn ríkisins sem hefur sín ríkisfjármál og þarf þess vegna að skattleggja kantónurnar mjög lítið til þess að hafa hallalausan ríkisbúskap.
    Hvernig er þá farið að því að reka ríkið? Það er alls staðar gert þannig að fólkið fær að lána ríkinu svolítið af því fé sem ríkið þarf á að halda. T.d. hefur alla tíð, ég held öll árin frá aldamótum nema tvö, verið halli á fjárlögum Bandaríkjanna. Þeir fjármögnuðu alla styrjöldina t.d. með skuldabréfaútgáfu. Þeir gefa út skuldabréf stanslaust og alltaf meira og meira. Skuldirnar eru aldrei borgaðar til baka. Heildarupphæðin lækkar aldrei vegna þess að umsvifin í þjóðfélaginu aukast. Þegar barnið fæðist er venjulega byrjað að safna fyrir skólagöngu í ríkisskuldabréfum o.s.frv. En þessi tvö ár voru 1928 þegar Hoover kom af stað heimskreppunni, þá voru hallalaus fjárlög í Bandaríkjunum, og þegar Carter kom af stað verðbólgunni í Bandaríkjunum. Þá voru hallalaus fjárlög og þá var bullandi verðbólga. Í Japan sem hefur sótt hraðast fram var, t.d. ef ég nefni árið 1981, halli á japönskum fjárlögum 5--6%, ekki af fjárlögunum, 5% af þjóðartekjum. Það þýddi þá svona 20 milljarða á okkar fjárlögum. Ég skal ekki segja að það sé til fyrirmyndar, en alla vega sóttu þeir hraðast fram allra þjóða á þessum árum. Þeir leyfðu nefnilega fólkinu að eiga peningana, en ríkið fékk þá bara

lánaða hjá því. Þeir gerðu sem sagt fólkið að ríku fólki. Þeir sögðu: Fyrst kemur fólkið, svo kemur ríkið. Auðvitað á ríkið að vera afgangsstærð á erfiðleikatímum. Fyrst á auðvitað að sjá til þess að fólkið geti lifað sæmilega mannsæmandi lífi og síðan auðvitað að atvinnuvegirnir gangi, eflist og treystist til þess að skaffa tekjurnar í framtíðinni. Það mætti jafnvel fara að borga niður þessar skuldir sem þarf þó ekkert að borga, vegna þess að spurningin er svo: Nú spyr ég hæstv. fjmrh. hvort hann geti t.d. bent mér á hver sé kröfuhafi ef ríkið er skuldari --- við skulum segja að einhverri stórri og fallegri upphæð eins og einum milljarði, í innlendum skuldum, hefur tekið einn milljarð að láni hjá borgurunum með skuldabréfaútgáfu á einhverju tímabili --- hver er þá kröfuhafi, hæstv. ráðherra? Hver er kröfuhafi ef ríkið er skuldari að þessum milljarði borgaranna? Hver er kröfuhafinn að þessu? Einhver verður að vera móttakandi ef á að greiða það til baka. ( Fjmrh.: Það vitum við báðir.) Já, hver er kröfuhafinn? ( Fjmrh.: Fólkið í landinu.) Já. Fólkið í landinu er bæði skuldari og kröfuhafi. Það skuldar sjálfu sér. Svona einfalt er dæmið. En munurinn er sá að fólkið í landinu er sjálfstætt fjárhagslega, á kröfu á ríkissjóðinn, hver og einn á það. En hvað gerist þegar hæstv. ráðherra ætlar núna að hirða 3--4 milljarða í auknum sköttum? Það kaupir enginn kvittun sem hann gefur út. En ef hann gæfi út skuldabréf, þá yrðu það auðvitað peningar á markaði. Þetta yrðu peningar sem atvinnufyrirtækin fengju. Skuldabréfin gengju
kaupum og sölum. Fólkið öðlaðist hlutdeild í þjóðarauðnum. En nú á að minnka það, auka ríkisauðinn stanslaust. Það er verið að gera það með milljörðum á milljarða ofan, jafnvel milljarða í hverjum mánuði ef út í það væri farið, eftir öllum mögulegum leiðum. Ekki bara beint í ríkiskassann, heldur öll sjóðaframlögin og fleira. Sjóðirnir eiga núna flotann t.d. meira og minna og atvinnuvegina, frystihúsin og allt það, svo ekki sé nú talað um þennan blessaða sjóð sem á nú að fara að koma til viðbótar. Ég ætla nú ekki að fara að blanda honum inn í þessa umræðu, það er auðvitað sérkapítuli sem við komum að við annað tækifæri.
    En hæstv. ráðherra sagði: Mistökin voru að gera ekki ráð fyrir verulegum greiðsluafgangi. Það á að vera borð fyrir báru, ef samdráttur verður nú og mistök. Hann ráðlagði hæstv. núv. ráðherra að hafa borð fyrir báru, ef nú yrði samdráttur mikill, þá þyrfti sko ríkið að eiga verulegan afgang. Jú, jú, ég get fallist á að það væri gott fyrir ríkið að eiga einhvern afgang ef mikið atvinnuleysi verður, mér virðist nú að stefnt sé að því vísvitandi að skapa kreppu, þá þarf auðvitað að hjálpa fólkinu með einhverjum hætti. En hvernig gengur þetta nú upp. Það þarf endilega að vera greiðsluafgangur til að koma í veg fyrir þenslu, en það verður líka að vera greiðsluafgangur til þess að bjarga hruninu. Þarna eru komnar tvær stefnur sem ganga sitt í hvora áttina. Það er ekki heil hugsun í þessu. Annað hvort er rétt, skulum við segja. En ríkissjóður er auðvitað hagstjórnartæki eins og þeir eru

alltaf að tala um, þessi blessuð tæki. Þeir hafa nú fullt af sleggjum og hömrum og járnkörlum og ég veit ekki hvað og hvað í öllum þessum stofnunum til þess að koma kreppunni af stað og halda henni gangandi. Það hefur verið svo núna í hálfan annan áratug eða meira þetta hagstjórnartæki. Það getur ekki verið rétt, bæði í kreppu og líka í ofþenslu, að láta ríkissjóð endilega ganga hallalausan, með einhvern tekjuafgang.
    Auðvitað er gamla hagfræðikenningin sú að á samdráttartímum --- og hún er sjálfsagt að einhverju leyti rétt, svona sem megindrættir. Allir fyrri hagfræðingar sögðu: Það er ekkert kappsmál eða sáluhjálparatriði að ríkissjóður sé alltaf hallalaus. Þeir sögðu að á þenslutímum ætti ríkið kannski að auka sína skattheimtu eitthvað, taka eitthvað af borgurunum, þó auðvitað innan ákveðinna marka þannig að fólkið sprengdi þetta ekki af sér, en á krepputímum ætti ríkið auðvitað að vera rekið með eins miklum halla til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. Auðvitað verða peningar að vera í umferð. Peningar eru ávísanir á auðlegð. Menn segja: Það eru engir peningar til á Íslandi. Þrátt fyrir öll okkar mistök, t.d. síðasta hálfan annan áratuginn, eins og ég sagði, allt þetta kreppuástand, heimatilbúna kreppu, þá er Ísland auðvitað ríkara í dag en nokkru sinni áður. Við erum búnir að byggja hús fyrir svo til allan landslýð til 200 ára. Við erum búnir að ofbyggja í frystihúsum, í iðnaðarhúsnæði, ekki bara í Reykjavík heldur úti um allt land. Í landbúnaði hefur verið offjárfesting. Við erum komnir langt með vegina o.s.frv. Auðvitað er grundvöllur lagður að blómatíma hér. Þarna er alltaf verið að skapa þessa kreppu með því að ríkissjóður eigi að ganga á undan öllum öðrum.
    En segjum nú sem svo að þetta yrði til þess að ríkissjóður yrði hallalaus, þá skyldi ég kannski fara að hugsa minn gang upp á nýtt. En þegar maður sér það ár eftir ár að gatið stækkar stanslaust, nákvæmlega í réttu hlutfalli við nýjar skattlagningar --- og hugleiðið nú þetta mál svona af því að þetta er nú rétt prólógus að því sem kemur þegar hæstv. utanrrh. verður hér mættur, þá ætla ég að reyna að rökræða við hann, einmitt hann, af því að það er gaman að rökræða við hann. Ég tek sérstaklega fram að ég hafði mjög mikla ánægju af að hlýða á hans ræðu, sérstaklega fyrri hlutann, áður en hann fór nú svolítið að slá um sig eins og ég geri stundum líka. Rökræðum þetta og hugsum um þetta á næstunni: Hvernig stendur á því að gatið stækkar alltaf eftir því sem skattarnir hækka? Það er auðvitað vegna þess að gjaldahliðin hækkar á undan tekjuhliðinni vegna þess að útgjöld ríkisins, og m.a.s. hagfræðingarnir mótmæla því ekki, er bara tvennt þegar upp er staðið. Og hvað er það? Bein og óbein vinnulaun og gjaldeyrisnotkun. Ekkert annað. Og þegar launin hækka og gjaldeyririnn lækkar, hvað gerist þá? Þeir eru búnir að lýsa því hér yfir ráðherrarnir hver sé skýringin á því að gatið sé stærra núna en það var í fyrra og það var vegna þess að gjöldin hækkuðu á undan tekjunum. Og núna þegar við erum að koma kreppunni á, koma henni í algleymi og fólk er að verða atvinnulaust, þá leiðir

það af sjálfu að tekjuhliðin lækkar auðvitað enn þá meira og þeir voru báðir tveir, hæstv. ráðherrar, réttilega að ræða um það að svo gæti farið að tekjurnar yrðu enn þá minni og gatið enn þá stærra. Sem sagt: Þeir standa á gati.