Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Guðrún J. Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Við höfum eytt löngum tíma í umræður um það hverjum hið alvarlega ástand í ríkisfjármálum og fjármálum Íslendinga er að kenna. Ég ætla nú ekki að fara að eyða löngum tíma í að ræða um hverjum hitt og þetta sé að kenna í þjóðfélaginu. Við berum öll okkar sök, stóra og smáa.
    Kvennalistinn hefur alltaf verið talsmaður þess að við værum varfærin í fjármálum og að ríkisbúskapurinn væri sem hallaminnstur og ég held við höldum því áfram. Það kom í ljós í frásögn hæstv. fjmrh. að skattaálögurnar hefðu ekki skilað því sem skyldi og að tollabreytingarnar hefðu verið ríkinu í óhag. Við kvennalistakonur lítum svo á að þó svo að við viljum hafa hallalausan ríkisbúskap, þá skipti það höfuðmáli hvernig skattar eru lagðir á, hvort við erum að skattpína þá sem lítið hafa eða leggja skatta á þá sem mest hafa og við teljum að það hafi ekki tekist sem skyldi.
    Ég var ekki hissa þegar ég heyrði það að tollabreytingarnar hefðu ekki skilað því sem vonast var eftir og að þær hefðu verið ríkinu í óhag. Þetta vissum við um síðustu áramót. Þetta vissu starfsmenn tollsins. Ég er ansi hrædd um að einhverjir hafi lokað eyrunum þegar þessi tollskrá var sett. Ég held að öruggasta leiðin innan kerfisins til að fá í ríkiskassann sé einmitt að nota tolla frekar en skatta sem ekki virðast geta skilað sér, sama hvað spriklað er.
    Hæstv. utanrrh., fyrrv. fjmrh., ræddi um fækkun ríkisstofnana. Það átti að vera ein leiðin til þess að gera ríkið hallalaust í rekstri sínum. Það má vel vera. En það er rangt hjá honum ef hann heldur að með því móti að gera ríkisstofnanir sjálfstæðar og með því móti að gera sem flesta starfsmenn að sjálfstæðum atvinnurekendum, þá minnki þenslan í efnahagslífi og launagreiðslum. Síður en svo. Reynslan segir okkur nefnilega allt, allt annað. Við sem þurfum að greiða laun á hverjum mánuði og þurfum að fá fólk til þess að vinna verk sjáum það frá mánuði til mánaðar hvað allir þeir sem eru komnir í þá aðstöðu að selja starf sitt sem útselda vinnu sprengja upp verðið. Þetta þýðir að launagreiðslur munu fara hækkandi. Það verður ekkert hægt að halda launum niðri eða í hæfilegu stigi ef allir eiga að fara að selja vinnu sína á þann hátt. Hér er ekki síst um að ræða sérfræðinga, en einnig það fólk sem ég kalla fræðinga, verklega fræðinga og fræðinga í huglægum greinum. Allt þetta fólk reynir núna að selja verk sín og komast meira að segja undan beinum tekjusköttum á þann hátt að gera sjálft sig að fyrirtæki. Þetta er það sem skattabreytingarnar og breytingarnar á fjármálasefnu síðustu ríkisstjórnar höfðu í för með sér. Þegar ríkið er núna að stynja undan öllu því verkefnaráðna fólki sem ríkið neyðist til að ráða samkvæmt síðustu aðferðum við launagreiðslu og starfsmannaráðningar, þá held ég að í mörgum tilfellum sé það vegna þess að hið verkefnaráðna fólk heimtar miklu hærri greiðslur en kaup þeirra er sem eru ríkisráðnir. Þar af leiðandi held ég að þessi stefna hafi verið röng.
    Þegar við flettum því plaggi sem hæstv. fjmrh. lét

okkur í té kemur í ljós að vaxtagjöld ríkisins eru næstum því 10% af útgjöldunum. Þetta finnst mér óhugnanlega há upphæð. Þessi vaxtagjöld eru auðvitað ekki bara komin til af láni sem síðasta ríkisstjórn tók, heldur er þetta af lánum sem ríkisstjórn eftir ríkisstjórn hefur tekið. Við erum ekki bara að fá lánað hvert hjá öðru hérna innan lands. Ef það væri nú eins og mér skilst á hv. 8. þm. Reykv. að við værum bara að því ( Gripið fram í: Ég vildi að það væri svo.) þá væri þetta ekki vandamál, heldur hitt að við tökum slík óheyrileg erlend lán og af þeim verðum við náttúrlega að greiða vexti. Og ég hef aldrei heyrt um nokkurt bú, nokkurt heimili eða nokkurt land sem ekki verður nokkurn veginn að láta tekjur og útgjöld standast á. En þessi 10% vaxtagreiðsla segir mér það, sem ég raunar hef löngum vitað, því þó ég hafi lítið verið hér innan veggja og lítið æft mig í ræðuhöldum hér á þingi nema þá helst í dag, þá hef ég fylgst nokkuð grannt með pólitík sl. 40 ár, og ég hef tekið eftir því að hver einasta ríkisstjórn sem tekur sæti hér á Íslandi, og sjálfsagt er það eins annars staðar, setur sér ákaflega fögur langtímamarkmið. En þær bregðast bara yfirleitt alltaf þegar kemur að skammtímamarkmiðunum. Þrepin í stiganum sem þarf að stíga í flækjast einhvern veginn alltaf fyrir og brotna og það verður til þess að langtímamarkmiðið týnist og misstígum okkur og dettum í skuldasúpuna. Þetta á ekki bara við um síðustu ríkisstjórn. Þetta á við um flestar þær ríkisstjórnir sem ég hef fylgst með í þessi 40 ár sem ég hef haft vit og ráðrúm til þess að fylgjast með.