Afkoma ríkissjóðs á árinu 1988
Fimmtudaginn 27. október 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf þótt auðvitað vantaði talsvert á að hann svaraði þeim fyrirspurnum sem til hans var beint, a.m.k. í minni ræðu. Áður en lengra er haldið held ég að það sé þó vert að vekja athygli á því að í þessum umræðum sem hér hafa farið fram í dag hefur nánast enginn framsóknarmaður verið viðstaddur. Tveir varaþm. Framsfl. sátu hér um stundarsakir, en um leið og tilkynnt var að ræða ætti um jafnmerkilegan hlut og ríkisfjármálin þá hurfu ráðherrar flokksins úr þingsalnum, enda er það eitt af einkennum Framsfl. að þeir bera aldrei ábyrgð á einu eða neinu sem gert er, en samt hafa þeir verið lengst allra stjórnarflokka í ríkisstjórn frá árinu 1971. Þeir hafa reyndar setið í öllum ríkisstjórnum öll árin frá 1971 að undanskildum nokkrum mánuðum þegar minnihlutastjórn Alþfl. sat, en sú stjórn var mynduð til þess að rjúfa Alþingi og efna til kosninga. Ég held að það sé skylt að benda á það að þessi flokkur tekur ekki þátt í umræðum á borð við þær sem hér fara fram í dag. (Gripið fram í.) Ja, hann ber ekki neina ábyrgð. Að vísu skal ég viðurkenna það að einn af fyrrv. þm. flokksins, sem reyndar yfirgaf hann fyrir síðustu kosningar í nafni jafnréttis og félagshyggju, sat hérna lengst af en hefur ekki tekið til máls í umræðunum.
    Ég spurði hæstv. ráðherra hvort hallinn, sem menn sjá fyrir að verði á ríkissjóði í ár, hafi verið gefinn upp eða verði upplýstur þegar ríkisstjórnin var mynduð og hæstv. ráðherra sagði að svo hefði ekki verið. Ég spurði hæstv. ráðherra annarrar spurningar í framhaldi af því og hún var þessi: Hefðu þessar upplýsingar legið fyrir, mundi það hafa haft þau áhrif að hæstv. ráðherra og hugsanlega ríkisstjórnin hefðu ekki tekið þá ákvörðun að auka hallann eins og ríkisstjórnin gerði við stjórnarskiptin? M.a. kemur það fram í bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar og eins kemur það fram í yfirlýsingum einstakra ráðherra. Við þessu kom ekkert svar.
    Ég spurði hæstv. ráðherra að því hvað stjórnarsáttmálinn þýddi. Hæstv. ráðherra kaus að svara því þannig að ég hefði spurt að því hvaða útgjöld yrðu í fjárlögum næsta árs. Mín spurning var þessi: Þegar sagt er í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar að útgjöld ríkisins á næsta ári verði að raungildi þau sömu og á þessu ári, er þá verið að miða við útgjöldin eins og þau birtast í fjárlögum á þessu ári eða einhverja aðra tölu? Við þessu fékkst ekki svar. Við þessari spurningu fékkst ekkert svar. Mér er fullkunnugt um það að hæstv. fyrrv. fjmrh. og núv. hæstv. utanrrh. hafði það á sinni stefnuskrá að miða útgjaldaáform næsta árs við útgjaldaáformin í fjárlögum á yfirstandandi ári. Ekkert svar kom við þessari spurningu.
    Ég spurði hann enn fremur: Ætlar hæstv. ríkisstjórn að bregðast við þessum nýju upplýsingum með þeim hætti að draga úr ríkisútgjöldunum með sama hætti og heimili og fyrirtæki þurfa að gera þegar samdráttarskeið hefur hafist í íslenskum þjóðarbúskap?

Ekkert svar.
    Það var líka athyglisvert að hæstv. ráðherra vék sér undan því að svara fyrirspurn frá hæstv. utanrrh. varðandi það hver hallinn hefði orðið ef skattkerfisbreytingarnar hefðu ekki átt sér stað. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þessari spurningu, reyndar ekki heldur fulltrúar Kvennalistans sem tóku þátt í þessari umræðu, þ.e. annar þeirra hafði reyndar talað áður en fyrirspurnin kom fram.
    Þá vil ég næst segja, og þarf ekki að hafa langt mál um það, að mér sýnist og ég vil staðfesta það hér, þótt um minni háttar mál sé að ræða, að upplestur hæstv. utanrrh. úr plaggi sem hann segist hafa dreift eða talið sig hafa dreift, hann staðhæfði það reyndar ekki, 2. sept. í ríkisstjórninni var með þeim hætti að það stenst ekki á við það blað sem ráðherrar höfðu þá undir höndum. Það skortir á tvær tölur sem eru nokkuð stórar, milli 400 og 500 millj., en ég vil hins vegar staðfesta að 1. sept. lagði hæstv. utanrrh., þáv. fjmrh., fram á ríkisstjórnarfundi yfirlit yfir stöðuna sem bar nafnið Fjárlagagerð fyrir árið 1989, framlagt á ríkisstjórnarfundi 1. sept. 1988, þar sem var sagt að áætlaður árshalli á fjárlögum yrði 693 millj. kr. Ég tek hins vegar fyllilega undir það að allan tímann var ljóst, og því gerum við okkur auðvitað allir grein fyrir, að auðvitað gátu slíkar tölur breyst og það breyst stórum, ekki síst ef við næðum árangri í því að draga úr þenslu, sem fyrrv. ríkisstjórn vissulega gerði á síðustu mánuðum síns starfstímabils og kemur gleggst fram m.a. í lækkun á verðbólgu sem var í september orðin 9%, en ef við tökum mánuðina ágúst, september, október, var verðbólgan 13% á ársgrundvelli ef við framlengjum þessa þrjá mánuði upp til heils árs.
    Það var athyglisvert í sumar að þegar hæstv. fjmrh. var í stjórnarandstöðu taldi hann að efnahagsvandi þjóðarinnar væri ekki vegna versnandi ytri skilyrða. Hann sagði í júlímánuði:
    ,,Ástæðan fyrir þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir er heimatilbúin,,, orðrétt, með leyfi virðulegs forseta. ,,Á undanförnum áratugum er ekki hægt að finna hliðstæðu slíkrar óstjórnar í efnahagsmálum. Þessi niðurstaða er enn
dapurlegri fyrir þá sök að áfram ríkja óvenjulega hagstæð ytri skilyrði í efnahagslífi Íslendinga.`` Þetta er skrifað rúmum tveimur mánuðum fyrir stjórnarskiptin. Síðar segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Það eru því ekki óhagstæð ytri skilyrði sem skapa hinn mikla efnahagsvanda. Þau eru áfram Íslendingum í hag. Vandinn er algjörlega heimatilbúinn.``
    Þetta skrifaði hæstv. fjmrh. af fúsum og frjálsum vilja, reyndar til að koma höggi á hæstv. þáv. fjmrh. Það er önnur saga. Það var hans starf í stjórnarandstöðunni. Nú er þessi ágæti formaður Alþb., hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, orðinn hæstv. fjmrh. Hann hefur ekki svarað þeirri spurningu og það er full ástæða til, af því að ég heyri að hann er búinn að biðja um orðið aftur, að spyrja hann: Hvort er hann nú sömu skoðunar og hann var fyrir rúmum þremur mánuðum, rúmum tveimur mánuðum fyrir

stjórnarskiptin, þeirrar skoðunar að ytri skilyrði þjóðarbúsins séu hagstæð og vandinn sé heimatilbúinn eða hefur hann skipt um skoðun? Telur hann kannski að það séu einhver óhagstæð ytri skilyrði fyrir hendi og þess vegna þurfi að bregðast við eins og hann og aðrir hæstv. ráðherrar hafa gert í stöðunni? Það væri athyglisvert ef hann gæti í örstuttu máli gert grein fyrir því hvort hann ætlar að halda áfram að láta þau sjónarmið klingja sem koma fram í þessari greinargerð formanns Alþb. frá því um miðjan júlímánuð.
    Þá langar mig jafnframt, af því að hæstv. ráðherra nefndi það ekkert í sínu máli síðar í ræðu sinni, að spyrja hann hvort hæstv. utanrrh. hafi gert grein fyrir sínum sjónarmiðum við stjórnarskiptin og hvernig hæstv. fjmrh. lítist á þau heilræði hæstv. utanrrh. þegar hann gefur honum ábendingar um það að námslánakerfið sé lúxus og hérna megi gjarnan fækka sjúkrahúsum o.s.frv., en hæstv. utanrrh. tókst hér á flug í ræðustólnum og kom með ýmsar ábendingar sem mér skildist að væru til hæstv. fjmrh., enda var hann að gefa eftirmönnum sínum heilræði. Það er full ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh.: Hvernig líst þér á heilræðin? Eru þetta ekki heilræði til að fara eftir? Eru þetta ekki heilræði sem hæstv. menntmrh. mun hrópa húrra fyrir? ( Fjmrh.: Jú.) Það er gott að heyra það því að hér með staðfestist að það er ekki orð að marka það sem hæstv. menntmrh. sagði í stjórnarandstöðunni. Þá sagðist hann vilja stækka námslánasjóðinn, gera enn þá meira úr honum, en nú staðfestir hæstv. fjmrh. það að hæstv. menntmrh. lítist vel á tillögur hæstv. utanrrh. um það að námslánakerfið þurfi að dragast saman, enda sé þetta lúxuskerfi. Það er athyglisvert og meira heldur en hæstv. menntmrh. hefur þorað að segja sjálfur, enda er hæstv. fjmrh. maður sem er fullur af kjarki og þori.
    Það sem er kannski aðalatriði þessa máls er að hæstv. fyrrv. ríkisstjórn hefur valið ranga leið til þess að komast út úr þeim erfiðleikum sem þjóðin á við að glíma. Þess vegna urðu stjórnarskipti, þess vegna varð sú uppstokkun sem átti sér stað í síðasta mánuði. Leiðin sem hæstv. núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að fara er sú að taka fé úr ríkissjóði, m.ö.o. að auka ríkissjóðshallann, til þess að greiða peninga með atvinnuvegunum, sumum en ekki öllum. Það er gert með millifærslum, yfirlýst er að það eigi að nota 800 millj. til fiskiðnaðarins og þessar 800 millj. eiga að falla á ríkissjóð. Það segir að vísu í bráðabirgðalögunum að þetta séu peningar teknir að láni. Síðan gengur hæstv. sjútvrh. inn á fund hjá sjómannasamtökunum og segir: Þessir peningar munu falla á ríkissjóð. M.ö.o., það á að taka erlend lán, auka skuldasöfnunina erlendis til þess að búa til skatta fyrir framtíðina. Og síðan er gert ráð fyrir því í þessum sömu bráðabirgðalögum að 600 millj. megi hæstv. fjmrh. taka að láni erlendis til þess að dæla peningum til sumra fyrirtækja, ekki allra, sumra þeirra fyrirtækja sem hv. þm. Stefán Valgeirsson og aðrir hafa velþóknun á. Það er ekki tekist á við vandamálin. Vandanum ýtir ríkisstjórnin á undan sér, og það kemur líklega í ljós, að hæstv. forsrh. hefur rétt fyrir

sér að þegar þessu tímabili lýkur, sem verður fyrr en síðar, í síðasta lagi í apríl nk., verður staða atvinnuveganna enn þá verri en hún er í dag vegna þess að gengið er rangt skráð. Líklega er það rétt því að stundum kemur gullkorn upp úr hæstv. forsrh., enda talar hann mikið. Það getur stundum skinið á demant í öllum þeim ósköpum sem þaðan koma. Líkast til er það rétt hjá honum að gengið sé rangt skráð upp á 10--15%. Þessi ríkisstjórn hefur valið það að blekkja með því að færa fé til vissra atvinnugreina, halda þannig niðri genginu og gengisskráningunni til þess að búa til minni verðbólgu en ella hefði orðið ef menn hefðu farið hinar almennu leiðir. Þetta þýðir að eftir nokkra mánuði stendur íslenska þjóðin frammi fyrir verri vandamálum en hún stendur frammi fyrir í dag og þetta er gert á kostnað ríkissjóðs, m.ö.o. á kostnað skattborgaranna.
    Þetta er alvarlegt og af því að hæstv. fjmrh. sagði áðan að honum þætti sem hann væri hér við erfidrykkju síðustu ríkisstjórnar, honum liði þannig eins og aðskotahlut í erfidrykkju síðustu ríkisstjórnar, vil ég bjóða hann velkominn þangað. Ég hugsa að hann hefði skemmt sér betur en flestir púkar á fjósbitum landsins við það að vera í erfidrykkju síðustu ríkisstjórnar. En sjaldan hafa ríkisstjórnir auglýst jarðarför sína jafnrækilega fyrir fram eins
og sú ríkisstjórn sem nú situr í landinu. Og það vita báðir þessir hæstv. ráðherrar sem hér eru staddir og það vita framsóknarráðherrarnir líka. Þess vegna eru þeir ekki hér í dag. Þeir þora ekki að vera hér í dag af því að þeir ætla sér ekki að bera ábyrgð á því sem hefur gerst, hvorki hjá fyrrv. ríkisstjórn né heldur hjá núv. ríkisstjórn. Hins vegar geta þeir hæstv. ráðherrar sem hér sitja haldið áfram að reyna að sameina alla vinstri menn með því að borða lifrarkæfu, eða hvað það var nú á Vesturgötunni sem frægt er orðið og var nú helsta innlegg þessara manna til sameiningar vinstri aflanna á útmánuðum.
    Virðulegur forseti. Það er ekki ástæða til þess að hafa þessi orð öllu fleiri. Ég kemst þó ekki hjá því að allra síðustu að benda á að það var mjög athyglisverð yfirlýsing sem kom frá hæstv. fjmrh. áðan þegar hann stakk upp á því, ef ég skildi hann rétt, að spariskírteini yrðu gefin út og séð fyrir því að vextir á spariskírteinum ríkissjóðs yrðu ekki skattlagðir. Ég held að ég hafi skilið hann þannig. Er það rétt? ( Fjmrh.: Varpaði fram þeirri hugmynd.) Hann varpaði fram þeirri hugmynd. Þetta er mjög athyglisvert og ég vona satt að segja að hæstv. ráðherra haldi áfram á þessari leið og segi: Er ekki full ástæða til þess að þetta gildi á öðrum sviðum, því að hér er um að ræða yfirlýsingu sem gengur á svig við margar fyrri yfirlýsingar hæstv. ráðherra sem hafa gengið út á það að nú sé kominn tími til þess að skattleggja fjármagnshagnaðinn, skattleggja tekjur af fjármagninu. En þetta hefur auðvitað enga þýðingu nema það sama gildi um atvinnulífið og þær skuldir og lán sem þar myndast því að auðvitað á ríkissjóður ekki einn að geta selt sín spariskírteini, heldur verða aðrir að geta fjármagnað þann rekstur í landinu sem ríkissjóður og

öll opinber starfsemi byggist á, en það er atvinnulífið í landinu. Og ef hæstv. ráðherra hugsar málið til enda kemst hann auðvitað að þeirri niðurstöðu að óhyggilegt geti verið að gefa yfirlýsingar á borð við þær að ætla að skattleggja þann hagnað sem verður hjá þeim sem hafa sparað og lagt fjármagn til hliðar. En þetta eru fyrstu merki þess að hæstv. fjmrh. hafi lært eitthvað á sínum ferli og ég vil þakka honum fyrir það og Eyjólfi Konráð fyrir að gefa honum tilefni til þess að gefa þessa yfirlýsingu.
    Virðulegur forseti. Tilefni þessara umræðna var athugasemdir sem formaður Sjálfstfl., 1. þm. Suðurl., gerði þegar hæstv. fjmrh. Ólafur Ragnar Grímsson sagði á fundi hjá Alþb. í Garðabæ fyrir tæpum hálfum mánuði að skuldaskilin, ef ég man það rétt, eða halinn sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir sig væru 5--9 milljarðar. Það var svo mikil nákvæmni í tölunum, 5--9 milljarðar. Nú hefur hann gefið sína skýrslu. Ég vil þakka honum fyrir það að hafa gefið sína skýrslu til Alþingis. Það er til fyrirmyndar að fá umræður um stöðu ríkisfjármálanna og ég veit að hann meinar það þegar hann segist ætla að halda slíkum vinnubrögðum áfram.
    Ég held að hins vegar sé full ástæða til þess að benda á að hæstv. fjmrh. hóf þessa umræðu á sínum tíma í fjarveru hæstv. fyrrv. fjmrh. til þess að koma höggi á hann. Og það er rangt sem kom fram hjá hæstv. utanrrh. að formaður Sjálfstfl. hefði ýjað að því að hæstv. fyrrv. fjmrh. hafi vísvitandi blekkt sína samráðherra í síðustu ríkisstjórn. Hann sagði að hæstv. núv. fjmrh. gæfi það í skyn að fyrrum fjmrh. hefði reynt að leyna menn upplýsingum. En það mátti skilja á orðum hæstv. núv. fjmrh. þegar hann flutti ræðuna á þessum fræga fundi í Garðabæ fyrir tæpum hálfum mánuði síðan.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, læt ég máli mínu lokið.