Íslenska skjaldarmerkið á Alþingishúsinu
Mánudaginn 31. október 1988

     Flm. (Árni Gunnarsson):
    Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér till. til þál. um að íslenska skjaldarmerkinu frá 1944 ásamt skjaldberum verði komið fyrir á Alþingishúsinu í stað merkis Kristjáns konungs níunda. Í tillgr. segir á þessa leið, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela forsetum þingsins að láta taka niður merki Kristjáns níunda Danakonungs, sem nú er á norðurhlið Alþingishússins, og láta koma þar fyrir íslenska skjaldarmerkinu frá 1944 ásamt skjaldberum: griðungi, bergrisa, gammi og dreka.``
    Í greinargerð segir á þessa leið og ég les hana með leyfi forseta:
    ,,Á undanförnum árum og áratugum hafa nokkrir alþingismenn og fleiri látið í ljós þá skoðun sína að eðlilegt væri að hið fagra og löggilta skjaldarmerki þjóðarinnar frá 1944 fengi að prýða Alþingishúsið í stað merkis Kristjáns níunda Danakonungs.
    Af ýmsum ástæðum hefur ekki verið gerð gangskör að þessum breytingum. Málið hefur reynst viðkvæmt, m.a. vegna sambandsslitanna við Dani, og nefnd hafa verið fagurfræðileg sjónarmið. Einnig hefur sú skoðun komið fram að Íslendingum væri hollt að minnast þess að þeir voru undir erlendum yfirráðum í nærri átta hundruð ár.
    Flutningsmaður getur ekki fallist á þessi sjónarmið og telur ekki viðunandi að Alþingi Íslendinga komi saman undir merki erlends konungs. Í þessu felst engin biturð eða illvilji í garð dönsku krúnunnar eða dönsku þjóðarinnar yfirleitt, enda munu Danir láta sér í léttu rúmi liggja hvort merki Kristjáns konungs níunda er á Alþingishúsi Íslendinga eða ekki. En Alþingi á ekki að láta sér á sama standa. Það getur varla verið keppikefli æðstu stofnunar sjálfstæðrar þjóðar að hafa valdsmerki erlends konungs á húsi sínu.
    Því hefur einnig verið borið við að húsafriðunarlög komi í veg fyrir þessar breytingar. Þetta er ekki rétt. Þótt Alþingishúsið sé í A-flokki friðaðra húsa er ekkert sem kemur í veg fyrir þessa breytingu sé hún gerð í samráði við og með samþykki húsafriðunarnefndar.
    Í grein, sem birtist í Morgunblaðinu 28. jan. 1987 og er eftir Þorstein Halldórsson skjaldarmerkjafræðing, segir m.a.:
    ,,Á Alþingishúsinu héngu frá upphafi (1881) tvö skjaldarmerki, þ.e. hið íslenska: silfraður, krýndur, flattur þorskur á rauðum grunni og hið danska: þrjú krýnd blá ljón á gulum feldi með rauðum hjörtum. Voru merkin á framhlið hússins, sitt hvoru megin fyrir ofan svalagluggana. Krýndi þorskurinn var tekinn niður árið 1904 og nýtt skjaldarmerki sett í hans stað: silfraður fálki á bláum grunni. Árið 1911 voru bæði merkin tekin niður og síðan hefur ekkert skjaldarmerki hangið utan á Alþingishúsinu.``
    Þessar upplýsingar leiða hugann að því að alþingismönnum hefur fyrr á árum ekki þótt við hæfi að hafa eingöngu merki Kristjáns níunda á húsinu. Kanna mætti hvort ekki væri unnt að koma íslenska skjaldarmerkinu fyrir t.d. á svölum Alþingishússins ef

mikil andstaða er við að fjarlægja merki Kristjáns níunda, sem þó verður að teljast ólíklegt.
    Flutningsmaður telur fyllilega tímabært að Alþingi afgreiði þetta mál á þessu þingi.``
    Virðulegi forseti. Þetta var greinargerðin með þessari tillögu. Ég vil aðeins bæta því við að í umræðum síðustu daga, m.a. út af hvalamálum, hefur mikið verið rætt um sjálfsákvörðunarrétt, þjóðernistilfinningu, þjóðarstolt eða þjóðrembu eftir atvikum. Ég hygg að þeir menn, sem á þann hátt hafa talað, ættu að styðja hugmyndina um það að við fjarlægðum merki dansks konungs af æðstu stofnun þjóðarinnar og kæmum upp í staðinn löggiltu skjaldarmerki lýðveldisins Íslands.
    Ég vil, virðulegi forseti, ef mikil andstaða er við það að fjarlægja merki Kristjáns níunda Danakonungs, beina því til virðulegs forseta, sem er æðstur meðal forseta þessarar virðulegu stofnunar, að gangskör verði gerð að því að koma skjaldarmerki lýðveldisins fyrir á svölum þinghússins, stóru fallegu skjaldarmerki sem sjáist greinilega víða að þannig að engum blandist hugur um að þetta er hús hinnar íslensku þjóðar. Mér finnst í sambandi við þetta rétt að taka það fram að Íslendingar, upp til hópa, nota hvorki skjaldarmerki né fána eins mikið og aðrar þjóðir gera sem hafa ríka tilfinningu fyrir sínu þjóðerni og það stolt sem þarf að hafa til þess að nota þessi einkennismerki þjóðarinnar.
    Ég vænti þess að þessi tillaga geti hreyft eitthvað við þessu máli þó ekki væri til annars en að við hugleiddum hvort við gætum ekki notað hið fagra skjaldarmerki okkar á þinghúsið þannig að það sjáist greinilega og skýrt. Um þetta mál hef ég ekki fleira að segja, virðulegi forseti, en legg til að að lokinni umræðu verði málinu vísað til hv. allshn.